Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

05. maí 2021 Guðlaugur Þór Þórðarson

Ávarp á vefstefnu Varðbergs í tilefni af 70 ára afmæli varnarsamningsins

Við Íslendingar erum herlaus þjóð og viljum vera það. En við viljum líka búa við öryggi og varnir sem stólandi er á.

Hernaðarlegt mikilvægi Íslands í síðari heimsstyrjöldinni út frá landfræðilegri stöðu þess á miðju Atlantshafi var ótvírætt. Frægt var að Winston Churchill hafði á þessum tíma eftir Karli Haushofer, þýskum stjórnmálafræðingi og hershöfðinga, að það ríki sem réði yfir Íslandi héldi á byssu sem beindist stöðugt að Bretlandi, Kanada og Bandaríkjunum. Það lá ljóst fyrir að þetta nýlega sjálfstæða ríki gæti ekki staðið eitt og varnarlaust. 

Við getum verið þakklát fyrir forsjálni feðra landsins sem sáu öryggis- og varnarhagsmunum okkar best borgið í öflugu samstarfi við Bandaríkin og sem aðildarríki að Atlantshafsbandalaginu. Bandalagi sem stofnað var í þeim tilgangi að tryggja frið, styrkja samstarf meðal ríkja þess og verja frelsi þeirra.  Bandalagi sem hefur tryggt öryggi og varnir Evrópu og Norður-Ameríku í 72 ár.

Þetta voru farsælar ákvarðanir. Það sýnir sig best í því að bandalagsaðildin og varnarsamningurinn við Bandaríkin eru enn þann dag í dag meginstoðir öryggis og varna landsins. Þjóðaröryggisstefnan, sem samþykkt var mótatkvæðalaust á Alþingi árið 2016, dregur af allan efa um það.

Samskipti Íslands og Bandaríkjanna eiga sér djúpar rætur. Við skulum ekki gleyma því að það voru Bandaríkin sem viðurkenndu fyrst allra ríkja sjálfstæði Íslands árið 1944. 

Varnarsamningurinn er undirstaða samstarfs Íslands og Bandaríkjanna á sviði varnarmála. Það byggir á traustum grunni og þjónar mikilvægu hlutverki ekki síst nú, í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur í öryggismálum í okkar heimshluta á síðastliðnum árum. Með varnarsamningnum við Bandaríkin og aðildinni að Atlantshafsbandalaginu höfum við búið svo um varnir okkar og öryggi að við getum áfram verið herlaus þjóð.

Ávarpið var flutt á vefstefnu Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, 5. maí 2021.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum