Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. maí 2021 Guðlaugur Þór Þórðarson

Áttavitinn vísar alltaf í norður

„Heimskautasvæðið hefur meiri áhrif á veðurfar og vistkerfi jarðarinnar en fólk almennt ímyndar sér. Þar mætast kaldir og heitir hafstraumar og knýja hringrás heimshafanna, þar myndast heilu veðurkerfin og þar er að finna eina virkustu uppsprettu lífkeðjunnar," var skrifað í ritið Við ystu sjónarrönd í tilefni af lokum fyrsta formennskutímabils Íslands í Norðurskautsráðinu. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá, í bókstaflegri merkingu. Ummerki loftslagsbreytinga eru hvergi sýnilegri en á norðurslóðum, þar sem hitastigið hefur hækkað þrefalt meira en heimsmeðaltalið á síðustu áratugum. Nú þegar öðru formennskutímabili Íslands í Norðurskautsráðinu er að ljúka má fullyrða að áhuginn hafi aldrei verið meiri á þessu víðfeðma svæði sem umheimurinn áleit lengi aðeins frosna auðn.

Eitt skýrasta dæmið um þennan áhuga er aukið vægi Norðurskautsráðsins á alþjóðasviðinu. Ráðið, sem fagnar 25 ára afmæli í ár, er tvímælalaust mikilvægasti samráðsvettvangurinn um málefni svæðisins. Í dag fer ráðherrafundur þess fram, þar sem ég afhendi Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands formennskukeflið. Á formennskutímabilinu hefur Ísland lagt áherslu á fjögur meginsvið: málefni hafsins, loftslagsmál og endurnýjanlega orku, fólk og samfélög á norðurslóðum og loks sterkara Norðurskautsráð. Þótt heimsfaraldur hafi vissulega sett strik í reikninginn hefur formennska Íslands undanfarin tvö ár gengið afar vel. Tekist hefur að laga starf ráðsins að breyttum aðstæðum og fjölmargir fundir hafa verið færðir á fjarfundarform. Þannig var alþjóðleg vísindaráðstefna um plastmengun í hafi, sem íslenska formennskan efndi til, haldin með fjarfundarsniði í mars síðastliðnum, svo dæmi sé nefnt.

Þrátt fyrir ótvíræða kosti fjarfunda eru mörg mál þess eðlis að þau er ekki hægt að útkljá á slíkum vettvangi. Það er mér því mikið ánægjuefni að geta hitt utanríkisráðherra ríkja Norðurskautsráðsins augliti til auglitis hér í Reykjavík. Sú staðreynd að allir utanríkisráðherrar aðildarríkjanna mæta til fundarins við þessar aðstæður sýnir glöggt að ráðið stendur styrkum fótum á 25 ára afmælisárinu. Vonir standa til þess að niðurstöður verkefna sem unnin voru í formennskutíð Íslands verði samþykktar og starfsáætlun ráðsins undir komandi formennsku Rússlands. Sömuleiðis eru bundnar vonir við að samþykkt verði fyrsta framtíðarstefna ráðsins til næstu tíu ára og að skrifað verði undir svokallaða Reykjavíkuryfirlýsingu um að friði, stöðugleika og uppbyggilegri samvinnu verði viðhaldið á þessu viðkvæma svæði.

Norðurslóðamálin hafa verið rauður þráður í íslenskri utanríkisstefnu síðustu misseri enda snerta þau hagsmuni Íslands með margvíslegum hætti. Þrjár nýjar skýrslur bera vitni um þá ríku áherslu sem við leggjum á málefni norðurslóða. Í síðustu viku kom út skýrslan Norðurljós sem fjallar um efnahagstækifæri á norðurslóðum. Í mars tók ég við tillögum þingmannanefndar um nýja norðurslóðastefnu. Í byrjun árs kom einnig út viðamikil skýrsla þar sem fjallað er um aukið samstarf Íslands og Grænlands og er hún umfangsmesta úttekt sem hefur verið gerð á samskiptum landanna. Alþingi fjallar nú um þingsályktunartillögu sem byggist á þeirri skýrslu og samþykkti í gær þingsályktun um nýja norðurslóðastefnu. Það eru ánægjuleg tíðindi.

Ekki þarf að búa yfir miklu ímyndunarafli til að sjá fyrir sér áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum. Hlýnun loftslags og bráðnun íss hefur miklar áskoranir í för með sér og felur í sér breytta heimsmynd. Nýjar samgönguleiðir milli heimsálfa munu opnast og samfélög og svæði sem áður voru fjarri færast nær. Ísland er allt innan þess svæðis sem iðulega er skilgreint sem norðurslóðir. Við erum því í lykilstöðu til þess að marka okkur sérstöðu sem norðurslóðaríki og til að nýta ýmis tækifæri sem felast í auknum áhuga umheimsins á svæðinu. Þess vegna þarf Ísland að vera búið undir að verja hagsmuni sína, stuðla að jákvæðum samskiptum ríkja á norðurslóðum og grípa tækifæri þegar þau gefast. Um það er ekki deilt.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. maí 2020

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum