Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

08. júlí 2021 Guðlaugur Þór Þórðarson

Framtíðarsamningur við Breta undirritaður

Fimm árum eftir Bretar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu að segja sig úr Evrópusambandinu og þar með frá samningnum um Evrópska efnahagssvæðið liggur fyrir fríverslunarsamningur við þetta mikilvægasta viðskiptaland okkar í Evrópu. Þessi sögulegi samninguri verður undirritaður í dag í Lundnúnum og ég er sannfærður að með honum hafi efnahags- og vinatengsl Íslands og Bretland verið styrkt um ókomna tíð.

Kjarnahagsmunir í höfn

Nýr fríverslunarsamningur við Bretland hefur verið forgangsmál í ráðherratíð minni og mun skipta sköpum fyrir bæði íslensk fyrirtæki og neytendur. Ég hef lagt mikla áherslu á að tryggja gott framtíðarsamband við Bretland eftir útgönguna. Strax árið 2017 gáfum við í utanríkisráðuneytinu út skýrsluna Ísland og Brexit – Greining hagsmuna vegna útgöngu Bretlands úr EES. Þar lögðum við mat á áhrif þess að ákvæði EES-samningsins giltu ekki lengur í samskiptum við Bretland og þar með grunn að þeirri umfangsmikilli vinnu sem fór í hönd við að skilgreina enn fremur markmið Íslands í framtíðarviðræðum við Bretland í náinni samvinnu innan stjórnkerfisins, svo og við atvinnulífið og hagsmunasamtök. 

Þegar Bretland gekk svo úr ESB, og þar með EES-samningnum, 31. janúar 2020 tók við aðlögunartímabil næstu tólf mánuði. Á þeim tíma gekk Ísland fyrst ríkja frá bráðabirgðafríverslunarsamningi við Bretland og loftferðasamningi sem tryggði áframhaldandi flugsamgöngur á milli ríkjanna. Auk þess höfðu réttindi borgaranna til áframhaldandi búsetu verið tryggð með samningi árið áður. Ekki má gleyma samkomulagi um samstarf ríkjanna til næstu tíu ára sem undirritað var í maí 2020 sem öll stefnumörkun hefur síðan byggst á, en Ísland er hið eina EFTA-ríkjanna sem gerði slíkan samstarfssamning við Bretland. Á grundvelli þess var svo gert samkomulag um framtíðarsamstarf í sjávarútvegsmálum. Útgangan gekk þannig snurðulaust fyrir sig þegar aðlögunartímabilinu lauk enda kjarnahagsmunir í höfn.

Metnaðarfullur samningur á mettíma

Fyrir rétt rúmum mánuði náðist svo samkomulag um nýjan fríverslunarsamning til framtíðar á milli Bretlands og EFTA-ríkjanna í EES: Íslands, Noregs og Liechtenstein en formlegar viðræður hófust í september í fyrra. Að ná að gera svo umfangsmikinn samning á innan við ári er afrek í sjálfu sér og það ekki síst í ljósi þess að heimsfaraldur hefur geisað allan þann tíma. Samningurinn er afar umfangsmikill í samanburði við aðra fríverslunarsamninga Íslands þrátt fyrir að hafa verið gerður á miklu skemmri tíma. 

Samningurinn veitir gagnkvæman aðgang að mörkuðum þegar kemur að vöruviðskiptum, þjónustuviðskiptum og opinberum innkaupum. Fyrir vöruviðskipti eru kjarnahagsmunir Íslands tryggðir fyrir útflutning, þar með talið fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarvörur. Samningurinn auðveldar jafnframt þjónustuviðskipti milli ríkjanna auk þess sem íslensk fyrirtæki munu hafa aðgang að opinberum útboðum í Bretlandi.

Samningurinn inniheldur einnig metnaðarfullar skuldbindingar á sviði umhverfisverndar og baráttu gegn hlýnun jarðar auk skuldbindinga á sviði vinnuréttar. Þar er jafnframt að finna sérstakan kafla um jafnréttismál og valdeflingu kvenna í viðskiptum. Er þetta í fyrsta skipti sem slík ákvæði er að finna í fríverslunarsamningi sem Ísland gerir. Þá er að finna í samningnum ákvæði á sviði hugverkaréttinda, heilbrigðisreglna fyrir matvæli, tæknilegra reglugerða ríkisstyrkja, samkeppnismála starfsumhverfis lítilla og meðalstórra fyrirtækja, góðrar reglusetningar og samtarfs á því sviði og margt fleira.

Gróska í samstarfi ríkjanna

Til viðbótar við fríverslunarsamninginn stefnum við að því að undirrita tvo samningum á næstunni. Annar þeirra fjallar um vinnudvöl ungs fólks sem á til dæmis eftir að gagnast íslenskum ungmennum á aldrinum 18-30 ára sem vilja búa og starfa áfram í Bretlandi. Hinn samningurinn varðar samstarf á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar og geimvísinda.

Sá árangur sem náðst hefur á undanförnum misserum við að tryggja áfram hagsmuni okkar gagnvart Bretlandi, okkar mikilvægasta útflutningsmarkaði í Evrópu, sýnir glöggt hve gróskumikið samstarf ríkjanna er. Nýi fríverslunarsamningurinn gefur afar góð fyrirheit um bjarta tíma í samskiptum Íslands og Bretlands. 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. júlí 2021

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum