Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. nóvember 2021 Guðlaugur Þór Þórðarson

Sameinuð með þjóðum

Í dag eru 75 ár síðan Ísland gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum. Eftir hörmungar tveggja heimstyrjalda varð til hugsjón og von um að ríki heims gætu sameinast um að vinna að friði, mannréttindum og framþróun fyrir alla.

Í ræðu sem Thor Thors sendiherra flutti við tilefnið sagði hann hugsjónina að baki Sameinuðu þjóðunum endurspegla vel gildismat Íslendinga. Þátttakan í starfi Sameinuðu þjóðanna hefur allar götur síðan verið hornsteinn í utanríkisstefnu okkar. Ísland hefur á þessum 75 árum verið öflugur málsvari sjálfsákvörðunarréttar, virðingar fyrir alþjóðalögum, mannréttinda, jafnréttis, bættra lífsgæða og sjálfbærrar auðlindanýtingar.

Sameinuðu þjóðirnar hafa bein og óbein áhrif á líf fólks um allan heim. Þær eru vettvangur fyrir samtöl þjóða sem stuðla að sameiginlegum skilningi og sátt um réttindi og skyldur ríkja, mannréttindi, félagslegar og efnahagslegar framfarir og öryggismál, svo fátt eitt sé nefnt.

Á hverjum degi sinnir starfsfólk þeirra brýnum verkefnum, oft við afar krefjandi aðstæður, við að aðstoða og vernda þá sem eiga undir högg að sækja vegna átaka, hamfara, fátæktar eða óréttlætis. Við stöndum í þakkarskuld við þeirra mikilvægu og óeigingjörnu störf. 

Erfiðustu viðfangsefni samtímans verða ekki leyst í einrúmi. Heimfaraldurinn, hraðfara loftslagsbreytingar og vaxandi spenna í alþjóðasamskiptum undirstrika þá staðreynd. Við þurfum því að tryggja að Sameinuðu þjóðirnar og aðildarríkin 193 hafi getu og þor til að takast á við þessi viðfangsefni. Það gerist ekki af sjálfu sér. Ísland hefur á síðustu árum aukið þátttöku í starfi Sameinuðu þjóðanna og eflt samstarf við helstu stofnanir og sjóði um velferð barna, kynjajafnrétti og mæðravernd. Á sama tíma höfum við hvatt til aukinnar þátttöku ungmenna, félagasamtaka og atvinnulífsins í verkefnum Sameinuðu þjóðanna.

Öll ríki, stór og smá, bera ábyrgð á Sameinuðu þjóðunum og því að leggja rækt við hugsjónirnar sem þær standa fyrir og Ísland mun halda áfram að vera þar í fararbroddi. 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 19. nóvember 2021.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum