Hoppa yfir valmynd
01. október 2019 Utanríkisráðuneytið

Ávarp ráðherra á málstofu um eftirlit með EES-samningnum

MÁLSTOFA UM EFTIRLIT MEÐ EES-SAMNINGNUM
HÁSKÓLANUM Í REYKJAVÍK, 1. OKTÓBER 2019
ÁVARP UTANRÍKISRÁÐHERRA

Góðir fundarmenn,

Það er mér heiður og sönn ánægja að ávarpa þennan fund hér í dag. Sjálft efni fundarins, eftirlit með framkvæmd EES-samningsins, segir svo margt um hið sérstaka eðli þessa samnings.

Þótt EES-samningurinn sé mikilvægasti viðskiptasamningur okkar Íslendinga, þá er hann annað og meira en viðskiptasamningur. Hann er réttindasamningur. Hann kveður á um réttindi einstaklinga og fyrirtækja á 500 milljóna manna markaðsvæði sem nær yfir mest alla Evrópu.

Fyrir fólk og fyrirtæki frá litlu landi skipta þessi réttindi enn meira máli en þeirra sem frá stærri löndum koma. Af hverju? Jú, vegna þess að stærri ríki eiga eðli máls samkvæmt auðveldara með að tryggja hagsmuni sína í samskiptum ríkja en hin smærri.
Þau réttindi sem Íslendingar njóta á innri markaðnum byggjast á skuldbindingum allra aðildarríkja samningsins. Þannig koma EES-reglur í veg fyrir þýsk stórfyrirtæki beiti aflsmunum gagnvart íslenskum fyrirtækjum á innri markaðnum.

EES-samningurinn felur í sér að íslensk fyrirtæki keppa á jafnræðisgrundvelli við evrópsk fyrirtæki á þeim sviðum sem samningurinn varðar.

EES-samningurinn felur líka í sér að Íslendingar geta búið og unnið hvar sem er á EES-svæðinu, og jafnvel notið elliáranna á Spáni kjósi þeir að gera það, enda tryggja reglur EES-samningsins samræmda og samfellda framkvæmd löggjafar á sviði almannatryggingar. Það er réttur Íslendinga samkvæmt samningnum, hvort sem spænskum yfirvöldum líkar betur eða verr.

En til að tryggja þessi réttindi þarf að hafa eftirlit með framkvæmd samningsins og stundum þarf að leysa úr deilumálum sem varða framkvæmd hans.

Höfum í huga að úrlausn deilumála er eitt vandasamasta verkefnið í öllum samskiptum ríkja. Stundum er kveðið á um það í milliríkjasamningum að ríki skuli leysa úr deilumálum með vinsamlegum hætti. Það lítur ágætlega út á blaði en í reynd þýðir það að aflsmunur ræður niðurstöðunni.

Lítil ríki eiga þess vegna allt undir því að úrlausn deilumála sé í föstum skorðum og á jafnræðisgrundvelli.

Einn mikilvægasti og jafnframt merkilegasti þáttur EES-samningsins er tveggja stoða kerfið en með því fengum við okkar eigin stofnanir til að hafa eftirlit og skera úr um hvort við EES EFTA ríkin erum að framfylgja samningnum. Eftirlitsstofnun EFTA er þannig lykilþáttur í tveggja stoða kerfinu, ásamt EFTA-dómstólnum.

Þessi lausn er einstök og helgast fyrst og fremst af sterkri samningsstöðu EFTA-ríkjanna, sem þá voru 9 talsins, við gerð EES-samningsins. Hægt er að fullyrða að ógjörningur yrði að semja um slíkt fyrirkomulag milli EFTA og ESB í dag, hvað þá í tvíhliða samningum milli Íslands og ESB.

Það má því segja að tveggja stoða kerfið sé barn síns tíma, í þeim skilningi að slíkt barn yrði ekki getið í dag. Það er hins vegar orðið 25 ára gamalt, hefur tekið út mikinn þroska og nýtur virðingar bæði af hálfu EFTA ríkjanna og framkvæmdastjórnar ESB.

Ekkert er hins vegar hafið yfir málefnalega gagnrýni og ég vona að fundurinn í dag leggi sitt af mörkum til að bæta enn frekar hið mikilvæga starf sem Eftirlitsstofnunin hefur með hendi, en ekki síður til að efla skilning milli þeirra sem með þessi mál fara og um þau fjalla.

Góðir fundarmenn.
Fyrir rétt rúmu ári síðan ákvað ég í tilefni af skýrslubeiðni á Alþingi að skipa starfshóp undir forystu Björns Bjarnasonar til vinna skýrslu um aðild Íslands að EES-samningnum og meta kosti og galla aðildar Íslands að samningnum.

Ég get greint frá því hér að skýrsla starfshópsins er tilbúin og var henni dreift á Alþingi í morgun. Síðar dag mun starfshópurinn kynna helstu niðurstöður sínar.

 

Þótt tilviljun ráði því að þennan fund beri upp á sama dag og þessari skýrslu er skilað til Alþingis, þá er það mjög við hæfi. EES-samningurinn er einstakur og líklega einn mikilvægasti alþjóðasamningur sem við Íslendingar höfum gert.

Það er staðreynd að um þriðjungur Íslendinga er fæddur eftir gildistöku samningsins og líklegt er að stór hluti landsmanna muni vart eftir lífinu fyrir tilkomu EES. Þetta er EES-kynslóðin ef svo mætti að orði komast.

 

Við höfum á síðustu 25 árum notið ríkulega góðs af kostum EES-samningsins en á þessu tímabili höfum við líklega farið að taka sem sjálfsögðum hlut þeim réttindum og þeim ávinningi sem samningurinn færir okkur.

Nýleg atlaga að EES-samningnum sem klædd var í baráttu gegn þriðja orkupakkanum sýndi okkur fram á að við eigum helst á hættu að glata því sem við tökum sem gefnu. Sú atlaga vakti marga af værum svefni en á endanum varð henni hrundið.

Það er von mín að skýrsla starfshópsins lyfti umræðu um EES-samninginn á hærra plan en verið hefur síðustu misseri.

Og ég er þess fullviss að málefnaleg og vönduð skoðun á 25 ára reynslu okkar af EES-samninginn sem sýnir ótvíræðan ávinning af aðild okkar verði okkur einnig hvatning til að bæta framkvæmd samningsins enn frekar.

Það er nefnilega svo að á grundvelli EES-samningsins erum við Íslendingar okkar eigin gæfu smiðir.

Við þurfum að bæta framkvæmd samningsins. Öflug þátttaka og virk hagsmunagæsla eru lykillinn að árangri í EES-samstarfinu. Það þýðir ekki að sitja á hliðarlínunni þó að samningurinn sé okkur hagfelldur.

Það er á okkar ábyrgð að nýta þau mörgu tækifæri sem EES-samningurinn veitir okkur.

 

Góðir fundarmenn.
Ég vil að lokum þakka Alþjóða- og Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík fyrir þeirra frumkvæði síðustu misserin við að efna til málefnalegrar umræðu um EES-samninginn og gildi hans fyrir íslenskt samfélag. Það frumkvæði sem hér hefur verið sýnt skiptir miklu máli.

Takk fyrir.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum