Hoppa yfir valmynd
31. október 2019 Utanríkisráðuneytið

Uppbygging í aldarfjórðung

Um þessar mundir eru 25 ár liðin frá gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, mikilvægasta milliríkjasamnings sem Ísland hefur gert. Auk þess að vera stærsti viðskiptasamningur Íslands býður hann upp á margvísleg tæki til samstarfs fyrir Íslendinga við aðra Evrópubúa á sviðum rannsókna og vísinda, lista og menningar, menntunar, nýsköpunar, mannréttinda og jafnréttismála. Uppbyggingarsjóður EES er eitt slíkt tæki.

Með þátttöku í Uppbyggingarsjóði EES leggur Ísland fram sinn skerf til samstarfs Evrópuríkja um umbætur og uppbyggingu í þeim ríkjum Evrópu sem standa lakar í efnahagslegu tilliti. Þetta eru Eystrasaltsríkin og ríkin í Mið- og Suður-Evrópu, nánar tiltekið Eistland, Lettland, Litháen, Búlgaría, Grikkland, Króatía, Kýpur, Malta, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland. Uppbyggingarsjóðurinn er fjármagnaður af Íslandi, Liechtenstein og Noregi og er okkar framlag til að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins og þar með stuðla að stöðugleika og framförum í Evrópu.

Áherslur Íslands hafa frá upphafi verið á að stuðla að samstarfsverkefnum á sviði rannsókna og vísinda, menntunar og menningar, umhverfis- og orkumála, samfélagslegra umbóta og málefna flóttamanna. Höfum við í þeim efnum notið dyggrar aðstoðar RANNÍS, Orkustofnunar og Mannréttindaskrifstofu Íslands. Samvinna á sviði jarðvarma hefur fram til þessa verið mikið áherslumál okkar og mun svo verða áfram. Um leið hef ég lagt ríka áherslu á að efla samstarf á sviðið jafnréttismála og á sviðum nýsköpunar og fyrirtækjaþróunar.

Uppbyggingarsjóðurinn býður upp á margvísleg tækifæri fyrir Íslendinga til samstarfs við aðila í þessum fimmtán ríkjum. Auk styrkja sem renna til verkefnanna sjálfra eru veittir styrkir til tengslamyndunar og verkefnaþróunar. Þegar hafa fleiri hundruð samstarfsverkefni með þátttöku íslenskra aðila notið styrkja úr sjóðnum. Hvað nýsköpun og fyrirtækjaþróun varðar hef ég lagt áherslu á aðkomu Íslandsstofu að því að aðstoða íslensk fyrirtæki við að taka þátt í verkefnum á vegum sjóðsins.

Til marks um þann ávinning sem bæði Ísland og viðtökuríkin hafa af aðildinni í sjóðnum er ráðstefna um jafnréttismál sem hefst í Reykjavík í dag. Hún er samvinnuverkefni Íslands, Noregs og Portúgals með stuðningi Uppbyggingarsjóðs EES og sækja hana fulltrúar frá öllum viðtökuríkjunum til þess að læra af reynslu Íslendinga og Norðmanna á sviði jafnréttismála. Frumkvæði okkar og þau tæki og aðferðir sem við höfum beitt með góðum árangri í jafnréttisbaráttunni verða kynnt fyrir þátttakendum, og áhugasömum boðið upp á að skapa samstarfsverkefni sem notið geta styrkja úr sjóðnum. Það má því segja að með þessari ráðstefnu sé íslensk jafnréttisstefna orðin sannkölluð útflutningsvara.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum