Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2019 Utanríkisráðuneytið

Ræða utanríkisráðherra á alþjóðadegi millilandaráðanna

Ræða utanríkisráðherra á alþjóðadegi millilandaráðanna
Hilton Reykjavík Nordica, 11. nóvember 2019

Forsetafrú, Eliza Reid, kæru gestir.

Fáar þjóðir eiga meira undir fríverslun en við Íslendingar. Gæfa okkar og gengi hefur ávallt haldist í hendur við það hvort við njótum viðskiptafrelsis eða ekki.

Þrátt fyrir allar okkar náttúruauðlindir þá vorum við ein fátækasta þjóð Evrópu í upphafi síðustu aldar. Með fullveldinu fengum við forræði yfir okkar málum og gátum gert viðskiptasamninga við önnur ríki. Framfarirnar létu samt á sér standa vegna heimatilbúinnar haftastefnu.

En með inngöngu í Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, og síðar í Evrópska efnahagssvæðið, var taflinu snúið við og Íslendingar hófu lífskjarasókn sem á sér fáar hliðstæður.
Við Íslendingar eru þannig skólabókardæmi um ágæti alþjóðlegrar fríverslunar.

Góðir gestir,

það er ekki síst í þessu ljósi sem það er mér mikill heiður að bjóða ykkur öll velkomin á þennan fyrsta alþjóðadag viðskiptalífsins. Þessi áfangi undirstrikar enn og aftur þá hreyfingu sem verið hefur á hlutunum síðustu árin, þar sem stjórnvöld og atvinnulífið taka höndum saman til styrkja undirstöður bættra lífskjara hér á landi með sókn á erlenda markaði.

Aukið samstarf stjórnvalda og atvinnulífs á þessu sviði hefur verið forgangsverkefni í utanríkisþjónustunni frá því að ég tók við embætti. Áframhaldandi velsæld og vöxtur hér á landi eru undir því komin að mætum sem eitt lið til leiks á útivelli. Drifkrafturinn liggur í einkaframtakinu og hlutverk stjórnvalda er að fjarlægja hindranir og opna dyr þar sem því verður komið, að skapa þær aðstæður þar sem verslun og viðskipti milli fólks og fyrirtækja getur blómstrað.

Góðir gestir,

nú er rétt ár síðan við undirrituðum samstarfssamning alþjóðlegu viðskiptaráðanna og utanríkisráðuneytisins en eitt af markmiðum samkomulagsins er að vinna sameiginlega að alþjóðlegri ráðstefnu þar sem athygli væri vakin mikilvægi viðskiptafrelsis á alþjóðavettvangi.

Alþjóðlegu viðskiptaráðin gegna mikilvægu hlutverki í tengslamyndun á milli Íslands og þeirra landa sem þau starfa með og vil ég nýta þetta tækifæri til að þakka stjórnum þessara fimmtán ráða, sem allar vinna sitt starf í sjálfboðavinnu, fyrir þeirra framlag til að stuðla að auknum utanríkisviðskiptum og bættum tengslum á sviði viðskipta, stjórnmála, menntunar og menningar.

Ein megináhersla þessarar ríkisstjórnar hefur verið að tryggja atvinnulífinu þá umgjörð sem nauðsynleg er til að nýsköpun og smærri fyrirtæki geti blómstrað og orðið að alþjóðlegum stórfyrirtækjum eins og Marel og Össur. Með mörkun nýsköpunarstefnu og einföldun regluverks hafa verið stigin stór skref í þessa átt.

Það hefur verið leiðarljós í starfi mínu sem utanríkisráðherra að þegar góð viðskiptahugmynd fæðist séu möguleikarnir til að framkvæma hana til staðar: Fríverslunarsamningur í gildi, loftferðasamningur í höfn og annað í þeim dúr þannig að engar slíkar hindranir standi í vegi fyrir sókn á erlenda markaði.

Aðgengi að erlendum mörkuðum skiptir einfaldlega öllu máli fyrir íslensk fyrirtæki og efnahagslíf, sem og fyrir Ísland sem lítið og opið hagkerfi. Góðir viðskiptasamningar við erlend ríki eru lykillinn að því að tryggja íslenskum fyrirtækjum bestu mögulegu viðskiptaumgjörð.

Fríverslunarsamningar sem Ísland hefur gert ná til 74 landa sem alls telja tæplega 2,9 milljarða manna, eða rúmlega þriðjung mannkyns.

Ef við skoðum þessar tölur betur þá hefur Ísland, í krafti aðildar sinnar að EFTA, gert 29 samninga við 40 ríki og landsvæði. Þá hefur EFTA nýlokið samningaviðræðum við ríki Suður-Ameríku og með þeim samningi mun 300 milljóna manna markaðssvæði bætast við fríverslunarnetið.

Þegar EFTA leiðin hefur ekki verið fær hefur Ísland gert tvíhliða fríverslunarsamninga. Ísland var þannig fyrst Evrópuríkja til að gera fríverslunarsamning við Kína og hefur útflutningur þangað hefur þrefaldast frá því samningurinn tók gildi.

Evrópska efnahagssvæðið er og verður okkar kjölfestumarkaður. EES-samningurinn er auðvitað annað og meira en fríverslunarsamningur og hefur gjörbreytt íslensku viðskiptaumhverfi á þeim aldarfjórðungi sem liðinn er frá því að hann tók gildi og gert okkur samkeppnishæfari, jafnvel á mörkuðum utan EES.

Samningurinn um evrópska efnahagssvæðið er einn mikilvægasti alþjóðasamningur okkar Íslendinga. Hann er kjölfesta íslenskra fyrirtækja á 500 milljóna manna markaði en veitir okkur um leið tækifæri til að gera fríverslunarsamninga eftir okkar höfði við þjóðir utan þess svæðið. Þetta viðskiptafrelsi stendur ríkjum innan Evrópusambandsins ekki til boða.

Hörð atlaga var gerð að EES-samningnum sl. vetur og fram eftir sumri. Dulbúin sem andstaða við þriðja orkupakkann fór hreyfing sem berst gegn aðild okkar að EES mjög mikinn. Þessari atlögu var hrundið, ekki síst fyrir tilstilli margra sem hér eru, sem tóku upp hanskann fyrir alþjóðlegt viðskiptafrelsi þegar máli skipti. Markiðið með þessari atlögu var að koma okkur út úr EES. Það hefur reyndar líka verið markmið þeirra sem vilja að við göngum í ESB, því án EES-samningsins eigum við engan skárri kost gagnvart okkar kjölfestumarkaði að ganga í ESB.

En þó svo að EES-svæðið sé okkar kjölfestumarkaður megum við ekki gleyma því að Bandaríkin eru stærsti einstaki markaður íslenskra útflytjenda. Það hefur ekki dulist neinum að það er mér mikið kappsmál að byggja upp enn nánara efnahagslegt samstarf við Bandaríkin, sérstaklega á sviði vísinda og nýsköpunar. Ég hef lagt á þetta mikla áherslu fundum mínum með bandarískum ráðamönnum, allt frá öldungadeildarþingmönnum og ríkisstjórum, til utanríkisráðherra og varaforseta Bandaríkjanna.

Þá er ég nýkominn heim frá San Francisco þar sem ég leiddi viðskiptasendinefnd amerísk-íslenska viðskiptaráðsins. Það var heillandi að verða vitni að sköpunarkraftinum sem á sér stað í Kísildalnum og sjá hvernig alþjóðleg stórfyrirtæki á borð við Google og Facebook hafa sprottið upp úr góðri hugmynd eða hugviti.

Góðir gestir

Fríverslun er ekki bara skipti á vörum og þjónustu fyrir peninga. Viðskiptafrelsi færir okkur svo miklu meira; það stuðlar að auknum samskiptum milli ólíkra þjóða, myndar brú milli menningarheima og eykur skilning þeirra á milli. Fríverslun stuðlar að friði, eins og sagan sýnir okkur. Með auknum samskiptum erum við betur í stakk búin að takast á við sameiginleg vandamál. Framtíðarsýn okkar verður að byggjast á þessari reynslu.

Við þekkjum nú þegar margar af þeim áskorunum sem við munum standa frammi fyrir árið 2030. Stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og sett sér metnaðarfull markmið á sviði loftslagsmála. Til þess að uppfylla þessi markmið verða allir geirar samfélagsins að vinna saman; stjórnvöld, fyrirtæki, frjáls félagasamtök og einstaklingar. Ég fagna því að atvinnulífið er í auknum mæli að horfa til þess hvernig það geti lagt sitt af mörkum til að ná markmiðunum.

Frumkvöðlar og atvinnulífið eru nú þegar að koma fram ýmsar góðar tæknilausnir og hugvit sem munu nýtast til að hjálpa okkur að draga úr losun og binda kolefni. Ég vona svo sannarlega að saman muni okkur takast að snúa þróuninni við og koma í veg fyrir að sú dimma framtíðarsýn sem dregin er upp muni líta dagsins ljós.

Við getum hins vegar ekki treyst eingöngu á að vísindafólk muni finna leið til að snúa þróuninni við, heldur þurfum við öll að leggja okkar af mörkum og standa saman. Við þurfum að nýta þá krafta sem búa í einkaframtakinu og alþjóðlegri samvinnu til að leysa þetta vandamál. Það er enginn annar möguleiki í stöðunni.

Kæru gestir,

í síðasta mánuði kynnti Íslandsstofa stefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs fyrir íslenskan útflutning. Alls komu um 400 manns að mótun stefnunnar, en haldnar voru vinnustofur um allt land og með fulltrúum helstu útflutningsgeira landsins.

Það er ánægjulegt hversu sterkur samhljómur var um það meðal íslenskra fyrirtækja að sjálfbærni væri sá samnefnari sem rétt væri að nota fyrir áherslur Íslands í markaðsstarfi næstu ár. Við viljum að Ísland sé þekkt sem leiðandi land í sjálfbærni.

Við getum svo sannarlega verið stolt af framlagi Íslands þessum efnum. Ísland er land endurnýjanlegrar orku og hefur verið það lengi. Þekkingu okkar Íslendinga, einkum á notkun jarðvarma, erum við að flytja út til annarra ríkja og þannig leggja okkar að mörkum svo um munar. Þá hafa íslensk fyrirtæki komið fram með lausnir sem stuðla að því að binda kolefni í jörðu og þannig draga úr magni koltvísýrings í andrúmsloftinu.

Sjávarútvegur er annar geiri þar sem Ísland hefur lagt sín lóð á vogarskálarnar svo um munar við að stuðla að aukinni sjálfbærni. Íslensk fyrirtæki eru að þróa lausnir sem miða að því að stuðla að verndun umhverfisins, betri nýtingar auðlindarinnar og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Íslensk fyrirtæki hafa t.d. stóraukið virði sjávarfangs með því að nýta þá hluta fisksins sem við vorum vön að henda, þ.e. roð, bein og hausa, m.a. til að búa til húðvörur sem nýtast til að lækna húðvandamál, sem og fæðubótarefni og annað. Þá hefur íslenskt hugvit einnig fært okkur tækni sem sker fisk eða annan mat með slíkri nákvæmni að nánast ekkert matarkyns fari til spillis. Þetta eru einungis nokkur dæmi en þau eru mun fleiri og á ólíkum sviðum.

Íslenskt hugvit hefur því þegar stuðlað að aukinni sjálfbærni en með því fara saman gríðarlegur virðisauki og skýr krafa hins ört stækkandi hóps meðvitaðra neytenda. Það er ekki ólíklegt að fyrirtæki sem ekki laga sig að auknum kröfum um sjálfbærni muni heltast úr lestinni þar sem neytendur muni ákveða að færa sín viðskipti til annarra fyrirtækja.
Fyrirtæki þurfa þannig að vera í stanslausri þróun og tilbúin að mæta þörfum framtíðarinnar.

Á hverjum degi koma fram tækninýjungar sem eiga eftir að gjörbylta lífi okkar. Gervigreind, aukin sjálfvirkni og vélstýrð tæki munu breyta daglegu lífi okkar til muna næstu árin.

Það eru gríðarlega spennandi tímar fram undan og dagskráin hér í dag endurspeglar það. Ég vona að þetta málþing verði til að auka enn umræðu og áhuga á því hvernig við getum saman skapað íslensku viðskiptalífi og nýsköpunarfyrirtækjum frjóan jarðveg á Íslandi samhliða því sem við greiðum þeim leið á nýja markaði.

Takk fyrir.


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum