Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2020 Utanríkisráðuneytið

Ræða ráðherra á fundi útflutnings- og markaðsráðs

FUNDUR Í ÚTFLUTNINGS- OG MARKAÐSRÁÐI
23. JANÚAR 2020

RÆÐA UTANRÍKISRÁÐHERRA

Góðir gestir

Til er saga úr Kalda stríðinu. Bið ykkur að halda kyrru fyrir í sætunum, óþarfi að bæta á kaffið, sagan er mjög stutt.

Skömmu eftir að Mikhail Gorbachev tók við sem leiðtogi Sovétríkjanna árið 1985 sendi hann aðstoðarmann sinn til Lundúna til að afla upplýsinga um þann efnahagsviðsnúning sem orðið hafði á Bretlandseyjum árin þar á undan. Bretar tóku vitaskuld vel á móti aðstoðarmanninum og fóru með hann í skoðunarferð um höfuðborgina.

Hann var heillaður af því sem hann sá, en eitt vakti samt mesta athygli hjá honum; hvergi var að sjá biðröð eftir brauði, ólíkt því sem átti við í Moskvu þar sem hvarvetna var bið eftir nauðsynjavörum, ekki síst eftir brauði.

Aðstoðarmaðurinn skildi ekkert í þessu og sagði við gestgjafa sína að heima í Sovétríkjunum hefðu færustu sérfræðingar legið yfir því árum saman, reiknað út og gert áætlanir um hvernig best mætti tryggja framboð á brauði til handa almenningi. Þrátt fyrir það væru endalausar biðraðir eftir brauði út um alla Moskvu. Hér í London væru hins vegar alls engar biðraðir.

Aðstoðarmaðurinn var svo heillaður af þessu mikla afreki Bretanna að hann vildi ólmur hitta þann sérfræðing sem væri ábyrgur fyrir því að tryggja nægt framboð af brauði í London og fræðast um hvernig hann færi eiginlega að þessu, hvert væri leyndarmálið á bakvið þessa miklu snilld.

En vitaskuld var enginn ábyrgur fyrir þessu verkefni.

Lögmál hins frjálsa markaðar tryggðu framboðið. Þetta fullkomna skipulag var grundvallað á nægilegum skorti á miðstýringu og áætlanagerð opinberra aðila. Það var og er snilldin.

Góðir gestir

Það er okkur öllum hollt að rifja reglulega upp skaðsemi opinberra afskipta, við erum því miður of fljót að gleyma, og fyrr en varir höfum við tekið upp ýmsa ósiði forræðishyggjunnar sem reynslan hefur fyrir löngu dæmt til ótímabundinnar vistar á ruslahaugum sögunnar.

Þessi upprifjun á brýnt erindi við okkur nú þegar einkaaðilar og hið opinbera stilla saman strengi um sókn á erlenda markaði.

Það var aldrei hugmyndin að hið opinbera hefði forgöngu um það mál. Það var aldrei hugmyndin að stjórnmálamenn ættu að ákveða það fyrir íslensk fyrirtæki hvar væri best að stunda viðskipti.

Það var nefnilega ekki út af engu sem við börðumst fyrir því að Íslandsstofa yrði rekin á einkaréttarlegum grunni, sjálfstæð í sínum störfum, og að einkaaðilar hefðu úrslitavald við þessa stefnumótun. Það tókst á endanum.

Þetta var síður en svo sjálfgefin niðurstaða. Því var haldið fram niðurá þingi að það væri mun einfaldara gagnvart stjórnsýslu- og upplýsingalögum, lögum um opinber útboð og hvaðeina, að Íslandsstofa væri ríkisstofnun en ekki einkavædd, eins og það var kallað með harmkvælum, eins og við værum að bera út mislinga.

Ég hef hamrað á því í gegnum allt þetta ferli að við eigum að vinna sem eitt lið á útivelli, íslensk fyrirtæki með liðsinni hins opinbera, á forsendum atvinnulífsins með þeim tækjum sem ríkið eitt hefur á hendi, þ.e.a.s. utanríkisviðskiptaþjónustunni og forræði á samningagerð við erlend ríki.

Á forsendum atvinnulífsins. Þetta er lykilsetning í þessari nálgun allri saman. Atvinnulífið þarf að vita að hvað það vill og hvert markmiðið er. Aðkoma stjórnvalda á ekki að felast í öðru en að ryðja úr vegi hindrunum sem kunna að verða í vegi fyrir því að markmiðið náist.

Hugmyndin um að vera eitt lið á útivelli kann að virðast einföld en hún það ekki. Hún er margbrotin, ekki síst vegna þeirrar innbyggðu áráttu hins opinbera að vilja hafa vit fyrir öðrum.

Ef við náum að koma hlutunum þannig fyrir að ríkið geti lagt sitt af mörkum til að ryðja hindrunum úr vegi þá hefur þetta starf borið árangur.

Og þegar við tölum um hindranir, þá skulum við ekki gleyma þeim hindrunum sem felast í umsvifum og afskiptum ríkisins sjálfs, og skaðsemi þeirra fyrir framþróun og verðmætasköpun.

Við sjáum því miður tilhneigingu í þá átt að ríkisvaldið standi að hlutum sem ganga þvert gegn því sem atvinnulífið er að sameinast um í þessari stefnumótunarvinnu og í víðara samhengi.

Útflutnings- og markaðsráð þarf að hafa vakandi auga fyrir þessari tilhneigingu og spyrna við fótum þar sem því verður við komið.

Íslensk fyrirtæki og íslenskt atvinnulíf býr við náttúrlegt samkeppnisforskot í ýmsu tilliti, ekki síst þegar kemur að því sem verðmætast verður til framtíðar litið, náttúrulegum orkugjöfum.

Við þurfum að sameinast um það að kasta því samkeppnisforskoti ekki á glæ og það er mikið gleðiefni að sjá hversu tryggilega þessum sjónarmiðum er fyrir komið í fyrirliggjandi stefnu útflutnings- og markaðsráðs. 

Góðir gestir.

Enginn þarf að efast um að færustu sérfræðingar Sovétríkjanna hafi gert sitt allra besta við að skipuleggja og reyna að tryggja nægt framboð af brauði til handa almenningi þar í landi.

Höfum þetta ávallt í huga þegar hið opinbera ætlar að taka hlutina í sínar hendur til að bjarga málunum. Íslensk fyrirtæki hafa nú markað leiðina, ríkið getur veitt liðsinni en mestu skiptir að það þvælist ekki fyrir á þessari mikilvægu vegferð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum