Hoppa yfir valmynd
06. maí 2021 Utanríkisráðuneytið

Ljósið við enda ganganna

Við lifum að sönnu sögulega tíma. Síðastliðin ár hafa einkennst af sviptingum í alþjóðakerfinu. Yfirstandandi heimsfaraldur hefur svo sett samfélög um allan heim úr skorðum og breytt heimsmyndinni til frambúðar. Við svo hvikular aðstæður ríður á að standa vörð um hagsmuni lands og þjóðar. Það hefur utanríkisþjónustan gert undanfarin misseri sem aldrei fyrr.

Í dag verða utanríkismál rædd á Alþingi þegar ég flyt þinginu mínu árlega skýrslu ráðherra um utanríkismál, auk skýrslu um framkvæmd EES samningsins. Það er afar mikilvægt að þingmenn eigi skoðanaskipti um þessi mikilvægu mál og sérstakt fagnaðarefni að utanríkismál eru á nýjan leik að fá verðugan sess í umræðunni.

Öflug utanríkisviðskipti eru undirstaða áframhaldandi velsældar og aukinn stuðningur við útflutningsgreinar mótar viðspyrnu okkar við faraldrinum. Hjá viðskiptavaktinni sem leit dagsins ljós síðastliðið haust geta íslensk fyrirtæki leitað aðstoðar við brýnum úrlausnarefnum hvenær sem er. Um leið höfum við kappkostað að styrkja grundvöll utanríkisviðskiptanna. Efnahagssamráð sem sett var á fót með Bandaríkjunum 2019 er orðið að árvissum viðburði, framtíðarviðræður við Bretland verða vonandi brátt til lykta leiddar og hagsmunagæsla á vettvangi EES samstarfsins er ávallt í öndvegi.

Að sama skapi er áhrifaríkasta leiðin til að uppræta fátækt og bæta lífskjör í heiminum að styðja við atvinnuuppbyggingu í þróunarlöndunum. Aðkoma einkageirans er lykilforsenda þess enda hafa þróunarlöndin sjálf kallað eftir henni. Heimstorg, samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins og Íslandsstofu, miðlar upplýsingum til íslenskra fyrirtækja um möguleg atvinnuþróunarverkefni í þróunarlöndum og víðar. Samstarfssjóður atvinnulífs um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er líka kominn á fullan skrið en hann er ætlaður íslenskum fyrirtækjum sem stuðla með starfsemi sinni að hagsæld í þróunarríkjum.

Við höfum einnig lagt áherslu á að tryggja enn betur öryggi Íslands gagnvart þeim síbreytilegu ógnum sem nú eru uppi. Sérstök deild fjölþáttaógna hefur verið stofnuð í ráðuneytinu sem greinir nýjar áskoranir, til dæmis á sviði netógna og upplýsingaóreiðu, og mótar viðbrögð við þeim. Öryggi grunninnviða á borð við ljósleiðaraþræði er líka forgangsmál. Áfram leggjum við svo okkar af mörkum til öryggis- og varnarsamstarfs á vettvangi Atlantshafsbandalagsins svo og Norðurlanda og annarra líkt þenkjandi ríkja.

Stigvaxandi þungi hefur færst í samstarf um málefni norðurslóða enda dylst engum þýðing þessa svæðis gagnvart þeim áskorunum sem mannkynið stendur nú frammi fyrir. Loftslagsmálin eru eitt af áhersluatriðum vel heppnaðrar formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu en henni lýkur með ráðherrafundi í Reykjavík í maí. Við höfum sannarlega mikið fram að færa í þessum efnum, bæði hvað varðar nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa en líka nýsköpun á sviði kolefnisbindingar.

Mannréttindi eru leiðarljós í öllu okkur starfi sem og þau lýðræðislegu gildi sem alþjóðakerfið byggist á. Það er áhyggjuefni að sótt er að þessum gildum, oft í skjóli COVID-19. Fámenn herlaus ríki eins og Ísland eiga mikið undir því að sátt ríki um þessi grunngildi og alþjóðalög almennt. Við beitum okkur á vettvangi alþjóðastofnana hér eftir sem hingað til og í einstökum málum.

Síðastliðin misseri hafa verið bæði krefjandi og um margt þungbær en um leið sýnt fram á þolgæði þjóðarinnar og styrk. Ég er stoltur af árangri utanríkisþjónustunnar við að styðja íslenskt atvinnulíf og gæta hagsmuna borgaranna á slíkum óvissutímum. Nú þegar við sjáum ljósið við enda ganganna stendur Ísland sterkt að vígi í samfélagi þjóðanna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. maí 2021.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum