Hoppa yfir valmynd
01. júlí 2021 Utanríkisráðuneytið

Sameiginleg gildi - sömu öryggishagsmunir

Samstaða vestrænna ríkja og mikilvægi þess að standa vörð um alþjóðakerfið sem byggir á alþjóðalögum er í brennidepli um þessar mundir. Gildin sem binda ríkin saman eru einstaklingsfrelsið, mannréttindin, lýðræðið og réttarríkið. Þetta á sannarlega við á vettvangi öryggis- og varnarmála og samstarf sem Ísland tekur þátt í. Þetta var eitt meginstefið á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins sem fram fór um miðjan júnímánuð og á fundum sem ég sótti í Finnlandi í vikunni á vettvangi norræna varnarsamstarfsins (NORDEFCO) og sameiginlegu viðbragðssveitarinnar (JEF).

Norræn samstaða

Hvort sem litið er til sameiginlegra gilda eða þjóðfélagsgerðar standa norrænu ríkin okkur Íslendingum ávallt næst. Þetta á líka við um öryggis- og varnarmálin. Þótt þrjú þeirra séu  aðilar að Atlantshafsbandalaginu og tvö standi þar fyrir utan eiga þau það sammerkt að skilgreina ógnir úr öryggisumhverfinu á svipaðan hátt. Sameiginleg sýn ríkjanna þýðir að þau standa saman og þétta raðirnar þegar á þarf að halda og sú hefur sannarlega verið raunin. Hernaðaruppbygging Rússlands og óútreiknanleg framganga þarlendra stjórnvalda er veruleiki sem við blasir. Hvernig bregðast eigi við þeirri þróun hefur verið meginumfjöllunarefni í samstarfi líkt þenkjandi ríkja á undanförnum árum.

Öryggismál í nærumhverfinu voru ofarlega á baugi á fundi NORDEFCO í finnska bænum Tuusula í vikunni. Þar gafst tækifæri á að skerpa á sameiginlegri sýn ríkjanna á helstu áskoranir sem ríkin standa frammi fyrir. Frá því að þessi vettvangur var settur á fót árið 2009 hefur hann vaxið og sannað gildi sitt. Samstarf ríkjanna hefur verið aukið, til að mynda með samnorrænni flughersæfingu á norðurslóðum með þátttöku Bandaríkjanna og fleiri af okkar nánustu vinaríkjum. Samnorræn sýn, gildi og samstaða eru í forgrunni samstarfsins sem við Íslendingar tökum þátt í á borgaralegum forsendum. 

Nýr veruleiki fjölþáttaógna

Óhefðbundnar ógnir, sem kallast einu nafni fjölþáttaógnir, eru hin hlið þess veruleika sem við blasir í öryggisumhverfinu. Fjölþáttaógnir beinast gegn sameiginlegum gildum okkar og geta grafið undan alþjóðakerfinu sem byggir á alþjóðalögum. Slíkar ógnir hafa áhrif þvert á landamæri, þvert á hið hernaðarlega og borgaralega, og varða okkur Íslendinga jafnt og aðra. Skýr og eindregin samstaða ríkjanna sem að alþjóðakerfinu standa þarf að vera fyrir hendi. Ég hef því lagt mig fram um að koma þessum mikilvæga málaflokki á dagskrá hér á landi og efla þátttöku okkar í fjölþjóðasamstarfi, meðal annars með umsókn um aðild að evrópsku öndvegissetri um fjölþáttaógnir í Helsinki, og að öndvegissetri Atlantshafsbandalagsins um netöryggismál í Tallinn. 
Á vormánuðum gerðist Ísland svo aðili að sameiginlegu viðbragðssveitinni (JEF), samstarfsvettvangi Norðurlanda, Eystrasaltsríkjanna, Hollands og Bretlands um öryggis- og varnarmál. Samvinna líkt þenkjandi ríkja gagnvart sameiginlegum áskorunum er leiðarljós í störfum sveitarinnar, ríkja sem eiga hagsmuna að gæta á Norður-Atlantshafi, á Eystrasalti og á norðurslóðum, ríkja sem hvert um sig hafa verið að efla varnarviðbúnað og styrkja samstarf sín á milli.
Viðfangsefni sameiginlegu viðbragðssveitarinnar, sem Bretland leiðir endurspegla þær hræringar sem einkenna umhverfi okkar, samspil fjölþáttaógna og hefðbundinna ógna. Stefnumörkun samstarfsins sem undirrituð var á fundinum í Helsinki í vikunni dregur fram þá sýn og þá staðreynd að áskorunum af þessu tagi verði aðeins mætt í samstarfi líkt þenkjandi ríkja. Markmiðið með störfum sveitarinnar er að geta sniðið viðbrögð að aðstæðum hverju sinni. Það er meginstyrkleiki samstarfsins og gerir það að raunverulegri viðbót við annað fjölþjóðasamstarf sem þegar er fyrir hendi.

Lagt á vogarskálar

Í því margslungna öryggisumhverfi sem við búum nú í hefur fjölþjóðasamstarf um öryggis- og varnarmál aldrei verið mikilvægara. Alþjóðakerfið sem byggir á alþjóðalögum, trausti á stofnunum og lýðræðislegum ferlum, stendur og fellur með því hvernig við bregðumst við aðsteðjandi ógnum. Sem herlaus þjóð sem byggir öryggi sitt og varnir á  aðild að Atlantshafsbandalaginu, samstarfi við Bandaríkin og á fjölþjóðasamstarfi, verðum við Íslendingar að halda áfram að leggja okkar lóð á vogarskálarnar í þeim efnum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. júlí 2021

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum