Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2021 Utanríkisráðuneytið

Framlag Íslands til loftslagsmála samofið útflutningshagsmunum

Við Íslendingar erum útflutningsþjóð. Það þýðir að lífskjör okkar byggja umfram allt á því að auka útflutningsverðmæti. Við erum líka þjóð sem býr að farsælli sögu þegar kemur að sjálfbærni, hvort sem litið er til nýtingar sjávarauðlindarinnar eða á endurnýjanlegum, hreinum orkugjöfum.

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir miklum vanda þegar kemur að loftslagsmálum. Mestu skiptir að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og þar komum við að nauðsyn orkuskipta, að heimsbyggðin hætti að nota jarðefnaeldsneyti á borð við kol og olíu og nýti þess í stað endurnýjanlega orkugjafa.

Auðvitað eigum við að Íslendingar að ganga vel um okkar nánasta umhverfi og vera leiðandi í því á heimsvísu, eins og hingað til. En við getum gert meira og eigum að gera meira, miklu meira. Hér á landi er framleidd 99,9% endurnýjanleg raforka, hrein og græn orka. Það er einsdæmi. Þá getur reynsla okkar og þekking þegar kemur að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa reynst bjargráð fyrir aðrar þjóðir.

Stóraukin framleiðsla á endurnýjanlegri orku á heimsvísu er ein mikilvægasta og áhrifaríkasta aðgerðin í loftslagsmálum. Við Íslendingar erum í öfundsverðri stöðu og getum slegið margar flugur í einu höggi: eflt ímynd landsins, dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda og styrkt stoðir útflutnings, aukið útflutningstekjur og skapað eftirsóknarverð og verðmæt störf.

Framlag okkar til loftslagsmála er fólgið í því að auka framleiðslu á grænni orku. Rafbílavæðingin, orkuskiptin, síaukin eftirspurn eftir vinnslu og hýsingu gagna meðal annars með notkun öfurtölva og eftirspurn eftir hreinum og vistvænum matvælum kallar allt á aukna framleiðslu endurnýjanlegrar orku. Þar stöndum við vel að vígi í samanburði við aðrar þjóðir og við eigum að nýta það tækifæri til uppbyggingar á grænum orkusæknum iðnaði í þágu verðmætasköpunar og fjölgunar starfa hér á landi. Framlag Íslands til loftslagsmála er þannig í raun samofið útflutningshagsmunum okkar sem þjóðar.

Við þurfum ekki og eigum ekki að fara í felur með það sem við höfum fram að færa við lausn loftslagsvandans. Við gerum mest gagn í þeirri baráttu með því að framleiða græna orku í ríkari mæli og selja heimsbyggðinni grænar vörur og þjónustu og hugvit okkar og þekkingu á grænum lausnum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. ágúst 2021

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum