Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 2022 Utanríkisráðuneytið

Ávarp utanríkisráðherra á þjóðræknisþingi 2022

Formaður Þjóðræknifélags Íslendinga,

Ambassador Menzies, Chargé d'Affaires Yerkin

Aðrir góðir gestir.

Ég þakka fyrir þann heiður að fá að ávarpa þjóðræknisþing hér í dag. Dagskráin er metnaðarfull og áhugaverð.

Mig langar líka til þess að tjá sérstaklega þakklæti mitt til allra þeirra sem standa að þessum viðburði, sem hafa gefið af tíma sínum til þess að sinna þeirri merkilegu arfleifð sem við erum saman komin til að rækta í dag. Í þessu starfi eru fólgin mikil verðmæti fyrir Ísland og það er langt frá því sjálfgefið að þeim sé sinnt af þeirri natni og metnaði sem raunin er.

Takk.

Ég veit að þið eigið eftir að njóta áhugaverðrar og gefandi samveru hér í dag.

Sjálf naut ég þeirrar miklu ánægju að vera gestur á Íslendingahátíð í bænum Mountain í Norður Dakóta og Íslendingadeginum í Gimli í Manitóba nú um mánaðarmótin. Rétt eins og aðrir sem hafa notið þess heiðurs að vera boðið að taka þátt í þessum viðburðum kom ég heim djúpt snortin, einmitt af þeirri ræktarsemi sem afkomendur íslenskra vesturfara sýna uppruna sínum og gamla landinu, og dugnaði Íslendinga sem styðja af alúð og ástríðu við það starf sem er unnið vestra. Eftir þessa ferð mína skil ég vel að margir fá svo ákafan og einlægan áhuga á hinni merku sögu sem tengir saman Ísland og Ameríku.

Sú saga hófst auðvitað með Leifi Eiríkssyni, sem sumar ágætar frændþjóðir okkar vilja oft eigna sér hlutdeild í - og svo hafa Íslendingar gert umdeildar tilraunir til þess að tengja ferðir Kólumbusar við Ísland, og þar með höfum við gert - kannski fremur langsótta - tilraun til að eiga okkur hlutdeild í ævintýramanninum frá Genóa.

Í þeim efnum er ómögulegt að vita nákvæmlega sannleikann. Allir vildu Lilju kveðið hafa - og allir vildu Ameríku fundið hafa.

Bæði áhugafólk og fræðifólk tekst á um slíkar kenningar og eins og oft er þá hafa akademískar deilur tilhneigingu til þess að vera ástríðufyllri eftir því sem niðurstaðan skiptir minna máli.

En burtséð um nákvæmni sögulegra heimilda, þá gildir um Leif Eiríksson í kringum árið þúsund, Kólumbus á fimmtándu öld og Íslendingana sem fóru yfir hafið til Ameríku áratugina í kringum aldamótin 1900 - allt var þetta fólk sem lagði út í mikla óvissu.

Það má kalla það ævintýri - en það orð nær á okkar tímum oftast yfir eitthvað ánægjulegt og áhættulaust. En ævintýri venjulegs fólks fyrr á tímum gátu allt eins endað illa eins og vel.

Íslendingarnir sem lögðu út í óvissuna á skipum frá Íslandi til þess að eiga möguleika á betra lífi í fjarlægum heimi. Það krafðist bæði framtakssemi og hugrekkis. Þið sem hér eruð þekkið vitaskuld þessa sögu mun betur en ég - og ekki þykist ég ætla að setja mig í hlutverk kennarans. Engu að síður er þetta einmitt það sem ég leiddi oft hugann sérstaklega að þegar ég ferðaðist um Íslendingaslóðir fyrir skemmstu.

Ég hugsaði um þessa óvissu, þessa hætttu og söknuðinn eftir því sem skilið var eftir. Ég hugsaði um hversu stór þessi ákvörðun hefur verið fyrir fólk á sínum tíma, hversu mikið fólk var tilbúið að leggja á sig til þess að reyna að öðlast betra líf.

Jafnvel enn þann dag í dag er það býsna mikil fyrirhöfn að ferðast frá Íslandi vestur um haf og inn á sléttur Norður Ameríku - og þó er það brotabrot af því sem var.

Og varla er hægt að hugsa sér ólíkari aðstæður en hér og í þessum nýju heimkynnum. Fólk flutti úr djúpum dölum og löngum fjörðum, hvort tveggja vafið háum fjöllum, og inn á endalausa landslagslausa sléttu. Í þessum nýju heimkynnum voru engir fossar, engin gljúfur, ekkert berjalyng á haustin og engar grasi grónar brekkur til þess að hlaupa glannalega niður á vorin.

Ég skil vel þann söknuð sem er lýst í bréfum og frásögnum - og að það hafi jafnvel verið talað um heimþrá sem lamandi sjúkdóm.

En svæðin eiga það þó sameiginleg að geta verið hálfgerð veðravíti, þótt birtingarmyndir þess geti heldur varla verið ólíkari.

Með þetta í huga hugsaði ég, eins og fleiri hafa vafalaust gert.

Hvers konar fólk var það sem reif sig sjálft upp með rótum og fór vestur um haf?

Það hlustar ekki nokkur manneskja lengur á niðurrifstalið og fordæminguna sem reynt var að beita til þess að halda fólki heima í vonlitlum aðstæðum. Það blasir auðvitað við að þetta var sérdeilis hugað, ákveðið og duglegt fólk.

Og varla er hægt að klína því á vesturfarana að þá hafi skort ættjarðarást. Það sjáum við mætavel á því þegar við förum á Íslendingadaginn í Gimli og heyrum orðin „elskan mín,“ „amma“ og „vínarterta“ hrjóta af vörum fólks sem rígheldur í arfinn þrátt fyrir að margar kynslóðir hafi fæðst og alist upp fjarri Íslandi.

Og líklega er ég ekki fyrsti gesturinn sem leiði svo hugann að tvennu í kjölfarið.

Annars vegar því hversu mikil verðmæti felist í því fyrir íslenskt samfélag að eiga hlýhug og tryggð meðal tuga þúsunda frændsystkina okkar í annarri heimsálfu.

Hins vegar hvernig framlag innflytjenda til Íslands er metið. Núna er Ísland land sem er svo öfundsvert að lífskjörum að margir kjósa að rífa sig upp, skilja átthaga sína eftir og hefja nýtt líf hér. Þeir sakna örugglega margs frá sínum heimahögum, en koma samt.

Verðum við ekki að gera ráð fyrir því, og skilja, að fólkið sem kemur hingað í leit að betra lífi og betri kjörum sé líklegt til að vera hugað, ákveðið og duglegt. Og við sem hér erum fyrir njótum góðs af því.

Í Vesturheimi er borðuð vínarterta, kleinur og rúllupylsa.

Og hér á Íslandi lærum við að borða falafel og shawarma af fólki sem hefur flutt hingað frá mið-Austurlöndum; við kynnumst margvíslegum mat frá austurlöndum fjær í gegnum framtaksfólk sem flutt hefur þaðan, og hér verður framþróun í pylsu- og ostagerð samhliða fjölgun fólks sem sest hér að frá Póllandi og öðrum löndum Austur-Evrópu. Svona mætti lengi telja.

Ágætu gestir á þjóðræknisþingi.

Ég tel að falleg ræktarsemi við okkar eigin þjóðlegu arfleifð geti verið til þess fallin að auka skilning okkar á mikilvægi þess fyrir Íslendinga af erlendum uppruna að halda tryggð við sína eigin. Við Íslendingar eigum að vera dugleg við að taka þátt í slíku starfi innflytjendasamfélaga hér á landi.

Og varla þarf að orðlengja um mikilvægi þess fyrir okkur sjálf að rækta þessi verðmætu tengsl vestur um haf. Og þau verða líka að þroskast og endurnýjast.

Ég fagna sérstaklega þeirri áherslu sem er á að efla tengsl milli ungs fólks, meðal annars gegnum Snorra prógrammið.

Tengsl Íslands við Vesturheim byggist vitaskuld á sögu og djúpum rótum fortíðar - en tilgangur sterkra róta er að næra nýjan vöxt.

Ykkur öllum sem hér eruð þakka ég af einlægni fyrir ómetanlegt starf og ég þakka fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að kynnast því af eigin raun nú í sumar.

Megi þetta góða starf halda áfram að vera jákvæð myndbirting jákvæðrar og auðmjúkrar ræktarsemi við íslenska þjóðararfinn.

Kærar þakkir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum