Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2020 Utanríkisráðuneytið

Anna Stephensen – Hefði sómt sér vel í stöðu sendiherra

Anna Stephensen hóf störf hjá sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn 1. desember árið 1929 og starfaði samfleytt hjá sendiráðinu í 43 ár. - mynd

Þrátt fyrir að Íslendingar hafi mátt bíða til ársins 1991 eftir fyrsta kvensendiherranum, Sigríði Snævarr, hafa fjölmargar konur starfað í utanríkisþjónustunni allt frá upphafi. Skipun fyrsta kvensendiherrans hefði vafalaust getað átt sér stað mun fyrr, eins og ummæli um Önnu Stephensen sendiráðsritara bera góðan vitnisburð um.

Anna var fyrsta íslenska konan sem öðlaðist diplomatísk réttindi og var ein þeirra kvenna sem starfaði í utanríkisþjónustu Íslands framan af 20. öldinni. Hún hóf störf í íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn 1. desember 1929 og lét af störfum að eigin ósk 1. júní 1972. Anna átti eftir að verða einn reyndasti starfsmaður utanríkisþjónustunnar en hún starfaði samfleytt í sendiráðinu í Kaupmannahöfn í 43 ár að því er fram kemur í sögulegu yfirliti Péturs J. Thorsteinssonar, Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál.

Í tíð sinni í sendiráðinu í Kaupmannahöfn starfaði Anna með sjö sendiherrum Íslands. Hún var oft staðgengill í fjarveru þeirra og sat einnig fjölmarga norræna fundi líkt og fram kemur í viðtali við Önnu sem Sigurðar Bjarnasonar frá Vigur, sendiherra, tók í tilefni sjötugsafmælis hennar 14. október 1975.

 

Anna Stephensen og Tryggvi Sveinbjörnsson sendiráðsritari í afgreiðslusal sendiráðsins 1930.

Í minningarorðum Önnu S. Snorradóttur dagskrárgerðarmanns um nöfnu sína og vinkonu í Morgunblaðinu 30. september 1989 segir að það að Anna hafi starfað sem staðgengill sendiherra hafi sýnt hversu mikils trausts hún hafi notið í utanríkisþjónustunni. „Ég sagði stundum við þessa góðu nöfnu mína, að það hlyti að koma að því, að hún yrði gerð að sendiherra og sannarlega hefði hún sómt sér vel í slíkri stöðu“ skrifaði Anna.

 
Ánægjulegt að byggja upp fyrsta sendiráð Íslands

Sigurður Bjarnason frá Vigur var sendiherrra Íslands í Kaupmannahöfn frá 1970 til 1976. Skömmu áður en Anna varð sjötug gerði hann sér ferð til hennar á Dronningens Tværgade 37 en þar bjó Anna á 8. hæð. „Þaðan blasir við Vor frúar kirkja, turnar Rósenborgarhallar, Sívaliturn og konungsgarðurinn,“ lýsti Sigurður áður en þau Anna drukku saman tesopa og rifjuðu „upp veraldarsögu hennar í stórum dráttum.“ Ferill Önnu var langur og gæfusamur en þegar hún var spurð hvað væri eftirminnilegast á ferli sínum í utanríkisþjónustunni voru erfiðleikarnir á stríðsárunum ofarlega í huga hennar. „Þá var oft þröngt í búi hjá löndum hér, ekki síst stúdentunum. Hafði sendiráðið þá fyrirmæli um það að heiman að greiða götu þeirra. En það hefur verið ánægjulegt að vera með í að byggja upp fyrsta sendiráð Íslands. Ég hefi aldrei þjáðst af heimþrá nema á stríðsárunum segir Anna Stephensen.“ Myndin hér að ofan var tekin af Önnu er hún hóf störf í sendiráðinu.

Gegndi starfi sendifulltrúa fyrst íslenskra kvenna

Í tilefni af fjörutíu ára starfsafmæli Önnu skrifaði Sigurður Nordal, sem starfaði sem sendiherra Íslands í Danmörku frá 1951-1957, grein um hana í Morgunblaðið:

„Anna Stephensen var skipuð attaché 1954 og sendiráðsritari 1961, og verður ekki sagt, að þessi embættisframi hafi fallið henni í skaut fyrr en efni stóðu til,“ skrifaði Sigurður í greininni, sem birtist 30. nóvember 1969.

„Hún hefur einstöku sinnum í fjarveru sendiherra, að því er eg hygg fyrst íslenzkra kvenna gegnt starfi sendifulltrúa (chargé d'affaires). Hún hefur vissulega notið sín þar eigi síður en í daglegu starfi í skrifstofunni, því að hún er framar öllu dama, glæsileg kona og tíguleg í framgöngu. Eg vona, að þær konur, sem að líkindum eiga eftir að verða sendiherrar Íslands í framtíðinni, gleymi ekki forgöngu hennar,“ bætti hann við.

Sendiráðið var til húsa að Ny Vestergade 21, síðar Dantes Plads 3, frá 1921-2003.

Sendiráðið var til húsa að Ny Vestergade 21, síðar Dantes Plads 3, frá 1921-2003. Þar undi Anna hag sínum vel.

Anna fæddist 14. október 1905 og lést 30. janúar 1989. Anna stundaði nám við verslunarskóla í Kaupmannahöfn árin 1923-24 og vann á skrifstofu þar í borg, aðallega við hraðritun, áður en hún hóf störf hjá sendiráðinu. Hún fór snemma úr foreldrahúsum. Faðir hennar var séra Páll Stephensen, prestur í Holti í Önundarfirði, og móðir hennar var Helga Þorvaldsdóttir, dóttir Þorvalds Jónssonar, læknis á Ísafirði.

Að sögn Sigurðar lék ekki vafi á því að Jón Krabbe, sem vann að Íslandsmálum í Kaupmannahöfn í 55 ár og veitti sendiráði Íslands forstöðu árin 1924-26 og 1940-45, hafi átt hlut þátt í því að Anna var ráðin að sendiráðinu. Helga móðir hennar var eins og fyrr segir, dóttir Þorvalds læknis á Ísafirði, sem aftur var bróðir Kristínar Krabbe, móður Jóns. Þau Anna voru því systkinabörn. Segir Sigurður enn fremur að Jón hafi „þótzt þekkja Önnu nóg til þess að henni væri treystandi. Ef hann hefur í nokkru látið hana njóta frændsemi, var það í því fólgið að gera þess vegna fremur til hennar meiri kröfur en minni,“ skrifaði Sigurður.

Í áðurnefndu viðtali við Önnu í Morgunblaðinu 1975 segir frá áhuga Önnu á tónlist, píanóið var henni „náinn félagi“ og á það minntist Anna S. Snorradóttir einnig en hún lýsti vinkonu sinni meðal annars á eftirfarandi hátt:

„Anna Stephensen var glæsileg kona, grannvaxin, há og svaraði sér vel. Hún átti fallegt heimili þar sem gott var að koma, og hún naut þess að vera með fólki, bæði heima hjá sér og að heiman, meðan heilsa leyfði. Hún var ágætlega gefin, átti gott safn bóka og las mikið. Hún lánaði mér oft bækur og henni á ég að þakka, hve snemma ég kynntist verkum ýmissa danskra höfunda, þ. á m. Karen Blixen, sem hún hafði miklar mætur á. Anna var mjög músíkölsk, spilaði vel á píanó og oft var sungið með glöðum vinum á heimili hennar, einkum fyrr á árum. Hún sótti leikhús og tónleika, og aldrei gleymi ég safni hennar af prógrömmum, sem hún hélt til haga lengi vel. Þar mátti sjá, að hún lét ekki listviðburði framhjá sér fara.“

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira