Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2020 Utanríkisráðuneytið

Samtal Sveins Björnssonar um algjört leyndarmál

Jón Krabbe og Sveinn Björnsson á skrifstofu sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn. - mynd

Þetta var mál „sem yrði að vera algjört leyndarmál.“1 Árið er 1939, desembermánuður, í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar. Sir Laurence Collier, yfirmaður Norðurlandadeildar breska utanríkisráðuneytisins hafði komið að máli við Svein Björnsson, þáverandi sendiherra Íslands í Danmörku.

Sveinn var staddur í Lundúnum að beiðni ríkisstjórnarinnar þar sem hann átti m.a. að liðka fyrir viðskiptum á milli Íslands og Bretlands. Sú ferð þróaðist á annan hátt en hann hafði búist við. Mr. Collier, eins og Sveinn titlar hann í endurminningum sínum, ræddi við íslenska sendiherrann að beiðni Halifax lávarðar, utanríkisráðherra Bretlands, um fyrrnefnt leyndarmál.

„Ég mætti ekki minnast á það við neinn, hvorki meðnefndarmenn mína, sem voru í London, íslenzku ríkisstjórnina né aðra.” Sveinn játti því og fékk svo spurninguna: „Ef svo færi, að Þjóðverjar réðust á Danmörku, hver mundi þá vera afstaða Íslendinga til þess?“

Í minningum sínum kvaðst Sveinn ekki gefið svar við þeirri spurningu án umboðs ríkisstjórnar sinnar.

„Nei, það er ekki farið fram á svar frá íslenzku stjórninni, heldur hvað sé persónuleg skoðun yðar“ sagði Collier.

Varð þetta upphafið að löngu samtali. Fljótlega reyndi Sveinn að fá upp úr Collier hvort ríkisstjórn Breta væri kunnugt um þess háttar áform Þjóðverja. En líkt og sannur diplómati hagaði Collier orðum sínum varlega.

„En eg skildi svo við hann, að eg var persónulega sannfærður um að brezka stjórnin hefði fengið vitneskju um slík áform“ sagði Sveinn í riti sínu. Benti Sveinn honum á að Ísland væri samkvæmt sambandslögunum fullvalda ríki sem hefði lýst yfir ævarandi hlutleysi sínu. Því hlyti íslenska ríkisstjórnin að telja hernám Danmerkur engu skipta en að væntanlega yrði gripið til einhverra ráðstafana.

„Hverjar?“ spurði Collier.

Því gat Sveinn ekki svarað. Tjáði hann Collier að sá eini sem gæti svarað þeirri spurningu væri íslenski forsætisráðherrann, Hermann Jónasson. Fékk hann því leyfi Collier til að segja Hermanni frá samtalinu.

Án þess að brjóta trúnaðinn við Collier kannaði Sveinn hvort Danir vissu um áform Þjóðverja. Niðurstaða samræðna við danska sendiherrann í Lundúnum „og fleiri málsmetandi menn danska“ var sú að þeir hvorki vissu né óttuðust innrás Þjóðverja í Danmörku.

„En það var undarlegt að vera eins sannfærður um það og eg var, að brezka stjórnin vissi þegar í desember 1939 um það, sem varð 9. apríl 1940, mega ekkert segja um það við þá menn í Danmörku, sem varðaði þetta mest, og finna, hve ugglausir þeir voru um, að hér væri engin hætta á ferðum“ ritar Sveinn.

Þjóðverjar hertaka Danmörku 9. apríl 1940 sem leiddi til stofnunar íslensku utanríkisþjónustunnar næsta dag. Myndin er frá flugvellinum í Kaupmannahöfn.

Þjóðverjar hertaka Danmörku 9. apríl 1940 sem leiddi til stofnunar íslensku utanríkisþjónustunnar næsta dag. Myndin er frá flugvellinum í Kaupmannahöfn.

Sveinn spurði góðan kunningja sinn, merkan danskan stjórnmálamann, eins og Sveinn lýsir honum, hvort Danir óttuðust árás af hendi Þjóðverja. Sá svaraði á nokkuð skondinn hátt: „Ganske vist er Tyskerne dumme, men saa dumme er de ikke, at de i en krig ödelægger deres spisekammer.“Þessi orð féllu í janúar eða febrúar árið 1940.

Sveinn skrifaði Hermanni skýrslu um samtalið í algjörum trúnaði og minntist á sama mál í einu eða tveimur einkabréfum til forsætisráðherra á nýju ári.

„Á þeim grundvelli gat eg í símtali við forsætisráðherra 8. apríl 1940 sagt honum, að nú kæmi hernám Þjóðverja á Danmörku, án þess að nokkur gæti skilið, hvað eg ætti við“ skrifaði Sveinn.

Eftirfarandi orð skrifaði Sveinn í endurminningum sínum um samtal þeirra Hermanns:„Forsætisráðherra sagði, að illa stæði á, vegna þess að yfir stæði í þinginu atkvæðagreiðla um fjárlögin. Eg: „Þú mátt til að gefa þér tíma til að tala við mig. Hér er um mikilvægt mál að ræða.“ Svo spurði eg hann, hvort hann myndi eftir leyndarmáli, sem eg hefði skrifað um frá London í desember 1939 og minnzt á í tveim einkabréfum til hans eftir nýárið. Hann sagði: Já, eg skil, hvað þú átt við. Er nokkuð nýtt um það?“ Eg: „Já, að vísu vil eg ekki alarmera þig of mikið, en eg er persónulega sannfærður um, að nú sé það að koma, geti komið á hverri stundu hér eftir.“

Í riti Jóns Krabbe, Frá Hafnarstjórn til lýðveldis (1959) er að finna skýrslu Sveins til ríkisstjórnarinnar um atburðina í Danmörku í sambandi við hernám landsins 9. apríl. Þar segir að sendiráðinu hafi borist þann 10. apríl kl. 04:30 skeyti frá ríkisstjórninni þar sem fram kemur að Ísland hafi tekið meðferð utanríkismála alfarið í sínar hendur.

1) Eftirfarandi tilvitnanir eru teknar úr riti Sveins Björnssonar, Endurminningar (1957), bls. 256-258 og 269.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira