Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2020 Utanríkisráðuneytið

Nokkurs konar braggi

Sendiráð Íslands við Norðurbryggju í Kaupmannahöfn. Húsið var reist á 18. öld. - mynd

„Nokkurs konar „braggi““.1 Þetta voru orðin sem Sveinn Björnsson, fyrsti sendiherra Íslands í Danmörku, notaði til þess að lýsa nýrri vinnuaðstöðu sinni þar sem fyrsta sendiráð Íslands var til húsa, að Christiansgade 12 í Kaupmannahöfn. Í dag heitir gatan Christians Brygge og nú stendur þar meðal annars hið konunglega bókasafn, Det Kongelige Bibliotek.

Er Ísland fékk heimastjórn árið 1904 var stofnuð svokölluð skrifstofa stjórnarráðs Íslands í Kaupmannahöfn. Hafði Íslandsskrifstofan aðsetur við fyrrnefnda Christiansgade í bráðabirgðahúsnæði byggðu á styrjaldarárunum 1914-1918.

Sveinn, sem skipaður var sendiherra Íslands í Danmörku þann 16. ágúst 1920, kallaði fljótlega eftir breytingum á húsakynnum sendiráðsins eftir að hann hóf störf. „Mér líkuðu ekki þessi húsakynni, þótti þau ekki nógu virðuleg fyrir sendiráð“ skrifaði Sveinn. 

Húsakynni sendiráðsins frá 1920-1921 við Christiandsgade 12 sem Sveini þótti ekki nógu virðuleg.

Í Morgunblaðinu 17. september árið 1921 var í Kaupmannahafnarbréfi, dagsettu í ágúst það sama ár, greint frá flutningi sendiráðsins frá Christiansgade að Ny Vestergade 21.

„Skrifstofa íslenska sendiherrans er nú flutt frá Christiansgade, hefir nú hafnað í Ny Vestergade 21, rétt við hliðina á Glyptoteket, svo að segja í hjarta bæjarins, með útsýni til Vestre Boulevard. Það eru fjögur rúmgóð herbergi. Er miðherbergið hin almenna skrifstofa; til hliðanna er svo skrifstofa sendiherrans og Krabbe. Þar að auki er svo skjalasafn.“

Skrifstofan var vel búin. „Aðbúnaður er þar allur prýðilegur og skrifstofuáhöld öll af nýjustu tísku. Vantar þó enn þá á veggina á skrifstofu þeirra sendiherra og Krabbe, en það mun vera von á málverkum af Íslandi til þess að hengja á þá“ sagði enn fremur í Morgunblaðinu.

„Þarna fékkst sæmilega virðulegt húsnæði, nógu stórt án óþarfa íburðar“ skrifaði Sveinn. 

Sendiráðið var til húsa að Ny Vestergade 21, síðar Dantes Plads 3, frá 1921-2003.

Sendiráð Íslands var í þessu húsnæði allt til ársins 2003 en árið 1954 var heimilisfanginu breytt í Dantes Plads 3. Í frétt á vef Stjórnarráðsins árið 2003 var tilkynnt um flutning sendiráðsins í núverandi húsakynni; nýuppgert pakkhús við Nordatlantens Brygge, eða Norðurbryggju, í miðborg Kaupmannahafnar, rétt austan við Nýhöfn. Og líklega kemur það ekki á óvart að í fréttinni segi að fyrra húsnæði, að Dantes Plads 3, hafi verið um langa hríð of þröngt fyrir starfsemi þess eftir 82 ára samfellda starfsemi þar.

Pakkhúsið var formlega opnað þann 27. nóvember árið 2003. Húsið, sem er um 250 ára gamalt pakkhús, er um 7.000 fermetrar að stærð, byggt árin 1766-67, og var því í upphafi ætlað að vera báta- og skipasmíðastöð. Seinna varð húsið og önnur pakkhús í nágrenninu miðstöð verslunar og viðskipta Dana við önnur lönd, ekki síst við Ísland, Grænland og Færeyjar. Upp úr 1970 var allri skipaumferð frá Grænlandi vísað til Álaborgar á Jótlandi, sem breytti svæðinu mikið og varð það ekki eins líflegt fyrir vikið. Það var svo árið 1995 sem sú hugmynd vaknaði að nýta þetta gamla pakkhús sem menningarmiðstöð fyrir Ísland, Grænland og Færeyjar. Svæðið hafði mátt muna fífill sinn fegurri og fólki þótti synd að húsið væri ekki notað. Úr varð að húsið fékkst til afnota fyrir Norðurbryggju og átti Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, stóran þátt í að það varð að veruleika.

Norðurbryggja hýsir einnig skrifstofur Heimastjórnar Grænlands og Landstjórnar Færeyja í Kaupmannahöfn, auk þess sem þar er starfrækt menningarmiðstöð Vestur-Norðurlanda. Sendiráð Íslands fékk þrjár hæðir í syðsta hluta hússins til afnota. Það kallaði á talsverðar endurbætur að koma húsnæðinu í nothæft ástand og við endurnýjun þess var þess gætt að leyfa sögunni að mæta nýjum tíma. Má sem dæmi nefna, að þar sem er anddyri sendiráðsins í dag, voru áður göng sem gerð voru til að flýta fyrir umferð til og frá höfninni. Þá eru gólfborð og trébitar í húsinu líklega upprunalegir. Snemma morguns, þegar loftið í húsinu er ennþá kyrrt eftir nóttina, má jafnvel enn finna þar lykt löngu liðins tíma, af lýsi og harðfiski. Lyktin vekur óneitanlega hughrif um Ísland.

Norðurbryggja í vetrarham.

1) Eftirfarandi tilvitnanir eru teknar úr riti Sveins Björnssonar, Endurminningar (1957), bls. 122-123 og 125.
2) Pétur J. Thorsteinsson, Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál. Sögulegt yfirlit (1992).

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira