Hoppa yfir valmynd
18. mars 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Lífskjör aldrei betri samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofu

Heimilin telja gæði eigin lífskjara í, eða nálægt, sögulegu hámarki. Þetta sýna niðurstöður lífskjararannsóknar Hagstofunnar fyrir árin 2019-2021, en fjármála- og efnahagsráðherra kynnti minnisblað um rannsóknina í ríkisstjórn í dag. Hlutfall heimila sem eiga erfitt með að láta enda ná saman hefur aldrei verið lægra og aldrei hafa færri talið byrði húsnæðiskostnaðar þungan. Hlutfall heimila sem segjast búa við efnislegan skort er nálægt sögulegu lágmarki og aldrei hafa færri heimili sagst eiga í erfiðleikum með að mæta óvæntum útgjöldum. Þetta rímar við hagtölur sem sýna að heimilin koma sterk út úr heimsfaraldrinum á flesta mælikvarða. Til að mynda eru vanskil heimila í sögulegu lágmarki en aðeins 0,9% þeirra eru í vanskilum.

Hlutfall heimila sem á erfitt með að láta enda ná saman hefur aldrei verið lægra

75% heimila telja sig ekki eiga erfitt með að ná endum saman og aldrei hafa færri heimili sagst hafa átt erfitt með að láta enda ná saman. Fólk telur einnig byrði af húsnæðiskostnaði vera lægri en áður. Rúm 70% heimila með börn eiga ekki í erfiðleikum með að láta enda ná saman og hið sama gildir um tæp 80% heimila án barna. Þegar kemur að einstæðum foreldrum er staðan ekki jafn góð, en ríflega helmingur þeirra segist eiga erfitt með að ná endum saman.

Aldrei hafa færri talið þunga byrði af húsnæðiskostnaði

Um 22% heimila bjuggu í leiguhúsnæði árið 2021 og hefur hlutfallið ekki verið lægra síðan 2009. Hlutfall heimila í vanskilum hefur heldur aldrei verið lægra en árið 2021 þegar vanskilahlutfall þeirra var 0,9% í lok ársins.

Fjárhagsleg byrði heimila á leigumarkaði er erfiðari en þeirra sem búa í eigin húsnæði. Þannig telja 19% heimila á leigumarkaði byrði húsnæðiskostnaðar þunga. Hlutfallið hefur verið stöðugt undanfarin ár. Sambærilegt hlutfall fyrir heimili í eigin húsnæði er 10% og hefur þeim fækkað stöðugt frá því mælingar hófust.

 

Skortur á efnislegum gæðum sjaldgæfur hjá heimilum í eigin húsnæði

Fáir sem búa í eigin húsnæði telja sig skorta efnisleg gæði, eða 2,5%. Tæp 11% leigjenda töldu sig búa við efnislegan skort en 2,5% þeirra við verulegan efnislegan skort. Hvoru tveggja er lágt í sögulegu samhengi, sem rímar vel við þá staðreynd að aldrei hafa færri heimili átt í vandræðum með að mæta óvæntum útgjöldum.

Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur hækkað um þriðjung síðasta áratug

Kaupmáttur ráðstöfunartekna hélt áfram að aukast á síðasta ári þrátt fyrir vaxandi verðbólgu en hann jókst um 1,1% á mann árið 2021 - en vöxturinn var 2,2% árið 2020. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hefur hækkað um þriðjung frá árinu 2013.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum