Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ávarp fjármála- og efnahagsráðherra á 30 ára afmæli flugstöðvar Leifs Eiríkssonar

Talað orð gildir

Góðir gestir!

Það er mér mikið ánægjuefni að koma hér í 30 ára afmæli flugstöðvarinnar. Það rifjaðist upp fyrir mér núna atvik sem ég var búinn að gleyma. Á árunum 1980-81 var ég fréttaritari Ríkisútvarpsins í Bandaríkjunum. Þá náði ég að miklu „skúbbi“ þegar ég sagði frá því að Bandaríkjastjórn hefði samþykkt að greiða fyrir byggingu nýrra flugstöðvar á Íslandi, 20 milljónir dollara, ef ég man rétt. Frá flugstöðinni fyrirhuguðu hafði aldrei áður verið sagt í fjölmiðlum á Íslandi og þótti að vonum stórfrétt.

Næsta minning mín um flugstöðina var þegar hún var vígð í apríl 1987, en þá var miklu fjölmenni boðið til veislunnar og húsið var þéttskipað. Svo merkilegur þótti atburðurinn að honum var sjónvarpað beint. Ég var í hópi þeirra sem horfði á í andakt. Nú sýnist mér að í þessari góðu afmælisveislu séu miklu færri en við vígsluhátíðina, en kannski virðist það bara vera svo vegna þess að stöðin er svo miklu stærri núna.

Vígsludagurinn var gleðidagur. Í Morgunblaðinu sagði: „Gamla flugstöðin var fráhrindandi andlit, sem fól auk þess í sér hættur, bæði fyrir farþega og starfsfólk. Flughöfn Leifs Eiríkssonar er aðlaðandi andlit, sem býður viðkomendum traust og öryggi. Engu að síður vóru skoðanir mjög skiptar um þessa flugstöð á árum undirbúnings og uppbyggingar, þó nú vilji flestir Lilju kveðið hafa.“

Umsagnir stjórnmálamanna þegar rætt var um að reisa flugstöðina voru ekki allar á þá lund að byggingin væri nauðsynleg þó að meirihlutinn væri á þeirri skoðun.

Rifjum upp nokkur ummæli stjórnmálamanna frá þeim tíma. Ég hirði ekki um að nefna nöfn flestra þeirra, enda má gera ráð fyrir að þeir hafi nú flestir skipt um skoðun:

Einn sagði: „Ég vil lýsa eindreginni andstöðu minni við þau fjárfestingarafglöp sem hér eiga sér stað“,

Annar skrifaði grein um „monthöll“, en svo nefndi hann flugstöð Leifs Eiríkssonar (DV í júlí 1983).

Og enn einn sagði í þingræðu að hér væri verið að „reisa alltof stóra flugstöð - „flugstöð sem jafnvel hæstvirtur forsætisráðherra [Steingrímur Hermannsson] viðurkennir að sé of stór miðað við þarfir þjóðarinnar“.

Arkitektinn, Garðar Halldórsson, sagði að við hönnunina hafði hann hugsað sér líkingu við gróðurhús sem væru dæmigerð fyrir Ísland. Þessi myndlíking varð tilefni til þessara orða á Alþingi:

„Gróðurhús eru tiltölulega einföld mannvirki ein og sér til síns brúks. Sömuleiðis geta flugstöðvar verið tiltölulega einföld mannvirki ef þær eru reistar einar sér og til síns brúks. En það er alveg greinilegt, herra forseti, að þegar þessu tvennu er blandað saman verður útkoman úr því hroðalegur bastarður. Ég vil sem sagt enn og aftur endurtaka andstöðu mína við þetta mál, þennan minnisvarða forheimskunar og niðurlægingar, sem á að fara að reisa suður á Keflavíkurflugvelli“.

Einhverjir óttuðust að flugstöðin yrði nýtt sem hernaðarmannvirki ef þurfa þætti.

Fleiri vísuðu í gróðurhúsakenninguna: „Flugstöðin verður óhagkvæm, enda hönnuð með hliðsjón af „gróðurhúsinu, tákni orkulinda landsins. Ef menn hafa áhuga á að byggja grasasafn er hægt að gera það einhversstaðar annarsstaðar nær fleiri skólum og rannsóknarstofnunum landsins en Miðnesheiði er.“

Geir Hallgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, svaraði gagnrýni um stærð og kostnað m.a. með þessum orðum: „Ég vil að gefnu tilefni undirstrika að áætlanir og teikningar af flugstöð á Keflavíkurflugvelli hafa verið endurskoðaðar í ljósi nýrra staðreynda og nýrra spásagna um farþegaumferð um flugvöllinn — og flugstöðin, eins og hún nú liggur fyrir, hefur einnig verið minnkuð þrisvar til að mæta þeirri gagnrýni að við værum að byggja of stóra flugstöð.

Það er sannfæring mín að svo er ekki. Það er sannfæring mín að hér sé fremur um lágmarksstærð nýrrar flugstöðvar að ræða. Og reynslan á vonandi eftir að sýna að við hlið þessarar flugstöðvar rísi aðrar byggingar um leið og sú starfsemi, sem fram fer í flugstöðinni, krefst meira húsrýmis.“

Geir reyndist sannspár. Við sjáum að stöðin vex og dafnar stöðugt. Margir óskuðu þess eflaust eftirá að hún hefði ekki verið minnkuð þrisvar á hönnunarstigi.

Góðir gestir!

Flugstöðin er staður gleði og kannski stundum sorga. Hér höfum við fagnað mörgum glæstum afrekum þegar íslenskt afreksfólk hefur unnið glæsta sigra á erlendum vettvangi, heimsmeistaratitlum, verðlaunum og öðrum vegsaukum. Í dag fögnum við 30 ára afmæli flugstöðvarinnar og þá er sannarlega ástæða til þess að gleðjast.

Til hamingju með daginn!

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum