Hoppa yfir valmynd
02. maí 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Afhending Foreldraverðlauna Heimilis og skóla

Ágætu hátíðargestir.

Í dag veita Heimili og skóli – landssamtök foreldra, foreldraverðlaun samtakanna í 22. sinn við hátíðlega athöfn hér í Safnahúsinu. Það er afar mikilvægt að fá tækifæri til að varpa ljósi á það sem vel er gert í skólasamfélaginu í stórum sem smáum sprotaverkefnum og fyrir það framtak ber að þakka landssamtökunum Heimili og skóla. Markmiðið með viðurkenningunum er að veita frumkvöðlum og eldhugum viðurkenningu og hvatningu fyrir óeigingjarnt brautryðjendastarf. Eitt er að vera brautryðjandi og annað er að vinna að því að slík verkefni nái að festast í sessi í skólasamfélaginu, nemendum og fjölskyldum þeirra til hagsbóta. Á hvort tveggja er litið þegar kallað er eftir tilnefningum til þessara verðlauna og viðurkenninga.

Verkefnin sem tilnefnd voru í ár sýna, eins og svo oft áður, mikla breidd í starfsemi skóla, foreldra og nærsamfélags og gefa okkur innsýn í það mikilvæga grasrótarstarf sem unnið er til að bæta menntun, auðga mannlíf og stuðla að velferð, vellíðan og öryggi nemenda. Börn eiga að fá tækifæri til að njóta skólagöngu sinnar sem best og með samstilltu átaki þeirra sem að börnunum standa má lyfta Grettistaki.
Ég vil nota tækifærið og að þakka ykkur öllum sem hafið verið tilnefnd til hér í dag fyrir framlag ykkar til bættrar menntunar og aukinnar velferðar nemenda.

Þá vil ég endurtaka þakkir mínar til Heimilis og skóla fyrir að vekja athygli á þeim mörgu verkefnum sem stuðla að því að efla það mikilvæga og fjölþætta starf sem fram fer innan leik,- grunn- og framhaldsskóla með öflugu og jákvæðu samstarfi heimila, skóla og nærsamfélags að leiðarljósi. Það er full ástæða til að vinna áfram í því að auka virkni foreldra á öllum skólastigum til þátttöku í námi barna sinna í víðu samhengi. Foreldrastarf allt frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla getur leyst úr læðingi afl sem stuðlar að enn betri menntun og velferð og um leið betra og jákvæðara samfélagi. Heimili og skóli er líka og á að vera, sjálfstæður málsvari foreldra gagnvart stjórnvöldum. Samtökin mega því og eiga, að vera óhrædd að gagnrýna það sem miður fer og benda á atriði sem þarfnast úrbóta. Samtalið milli aðila er fyrsta skrefið í átt að auknum lífsgæðum barna og fjölskyldna þeirra og rýni til gagns þarf að vera á báða bóga.

Samstarf ráðuneytisins og samtakanna grundvallast í dag á sérstökum styrktarsamningum þar sem leitast er við að gera stuðning ráðuneytisins markvissan. Sú breyting hefur orðið á skipan mála að allur opinber stuðningur við samtökin kemur frá ráðuneytinu, en áður kom opinber stuðningur bæði frá Alþingi og ráðuneyti. Með þessari breytingu er auðveldara fyrir stjórnvöld að gera samning við Heimili og skóla um þá þætti sem taldir eru skipta mestu máli fyrir menntun í landinu og starfsemi samtakanna, m.a. við að styðja við foreldrastarf, miðlun og öflun upplýsinga og þátttöku samtakanna í mótun menntastefnu og innleiðingu hennar.

Samstarf ráðuneytisins og Heimilis og skóla er gríðarlega mikilvægt í menntalegu samhengi og hafa samtökin reynst eflingu menntunar kröftugur bandamaður.

Ég vil að lokum óska þeim sem hlýtur Foreldraverðlaun Heimilis og skóla og aðrar viðurkenningar hér í dag, hjartanlega til hamingju og öllum öðrum viðstöddum til hamingju með daginn.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum