Hoppa yfir valmynd
11. maí 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ársfundur SAk - Sjúkrahússins á Akureyri 2017

Ávarp Óttars Proppé heilbrigðisráðherra á ársfundi SAk 10. maí 2017

Komið þið sæl öll, góðir gestir; stjórnendur, starfsfólk, vinir og velunnarar sjúkrahússins á Akureyri. Gaman að hitta ykkur hér svo mörg.

Það er reyndar ekki mjög langt síðan ég var hér á ferðinni ásamt ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanni mínum og fékk afar gagnlega yfirferð þar sem mér var kynnt sú mikilvæga starfsemi sem fram fer við sjúkrahúsið á Akureyri (SAk). Mér var þá gerð góð grein fyrir helstu áherslum og nýjungum í rekstrinum og síðast en ekki síst kynnt sýn stjórnenda á viðgang og vöxt sjúkrahússins til framtíðar.

Það er mjög áberandi þegar maður kynnist aðeins rekstri SAk og þeim sem fara fyrir honum, að hér er mikil áhersla lögð á að hafa skýra sýn, að vinna eftir vel mótaðri og ígrundaðri stefnu og að hafa skilgreind og þekkt markmið að leiðarljósi.

Vinna á þessum forsendum skilar árangri, skapar öfluga liðsheild og góðan anda meðal starfsfólksins og leiðir til metnaðarfullra og agaðra starfshátta. Þetta finnst mér ég sjá glögg í starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri og mér finnst það til fyrirmyndar.

Það eru ákveðin tímamót hér í dag. Framtíðarsýn og stefna sjúkrahússins sem mörkuð var og kynnt árið 2011 hefur nú runnið sitt skeið og ný framtíðarstefna verður kynnt hér á eftir.

Stefnan sem unnið hefur verið eftir á liðnum árum hefur skilað eftirtekarverðum árangri og mikilvæg verkefni sem sett voru á oddinn hafa orðið að veruleika. Við tekur nýr kapítuli frekari uppbyggingar og þróunar sjúkrahússins, þar sem að sjálfsögðu verður byggt á þeim góða grunni sem fyrir er.

Metnaður er mikilvægur og hann er augljóslega fyrir hendi við SAk. Alþjóðleg gæðavottun vinnulags og verkferla sem sjúkrahúsið hlaut fyrst íslenskra heilbrigðisstofnana er til marks um það og sú vinna sem vottuninni tengist er mikilvæg fyrir alla þætti í starfsemi sjúkrahússins og fyrir öryggi og gæði þjónustunnar.

Nú veit ég að hugur ykkar stendur til þess að Sjúkrahúsið á Akureyri öðlist sess sem háskólasjúkrahús og þau áform eru hluti af nýrri framtíðarsýn til ársins 2021. – Ég geri mér ekki grein fyrir hversu raunhæft þetta markmið er miðað við inntak þess og tímamörk, en ég er viss um að þar sem þið hafið sett ykkur þetta sem leiðarljós, muni það efla rannsóknar- og vísindastarf við sjúkrahúsið á komandi árum, líkt og metnaður ykkar og vilji stendur til og það er svo sannarlega af hinu góða.

Það er svolítið skemmtilegt í þessu samhengi að rifja upp þegar Háskólinn á Akureyri var stofnaður árið 1987 – og þótti víst mörgum nokkuð hátt seilst þegar sú hugmynd kom fyrst fram og ekki endilega víst að hún væri raunhæf. Fyrsta starfsárið var kennt í teimur deildum; heilbrigðis- og rekstrardeild, fastráðnir starfsenn voru fjórir og nemendurnir þrjátíu og einn. Metnaðarfullt markmið varð þannig að veruleika, þótt upphafið væri hógvært.

Nú er háskólinn ómissandi máttarstoð í samfélaginu með yfir 1.500 nemendur víðsvegar af landinu, bæði í staðnámi og fjarnámi. Heilbrigðisvísindasvið skólans er öflugt með grunnnám í hjúkrunarfræðum og iðjuþjálfun og þverfaglegt framhaldsnám í heilbrigðisvísindum.

Háskólinn á Akureyri og SAk tengjast sterkum böndum, m.a. með sameiginlegum vettvangi innan Heilbrigðisvísindastofnunar Háskólans sem hefur að markmiði að efla kennslu, þjálfun og rannsóknir í heilbrigðsivísindum og að miðla þekkingu og kynningu á rannsóknum starfsmanna. Þessar tvær stofnanir styðja og efla hvor aðra með samstarfi og samstarfssamningur þeirra á milli sem verður einmitt undirritaður hér á eftir er til marks um það.

Sjúkrahúsið á Akureyri gegnir mikilvægu hlutverki í heilbrigðisþjónustunni sem sérhæft sjúkrahús og sem kennslusjúkrahús og staðsetning þess hér í höfuðstað Norðurlands vegur einnig þungt.

Vegna stærðar sinnar og sérhæfingar sinnir SAk ýmsum stærri verkefnum miðlægt og tekur þátt í ýmis konar þróunarverkefnum sem eru mikilvæg fyrir landið allt. Miðstöð sjúkraflugs og rekstur sjúkraflutningaskólans eru dæmi um þetta. Þátttaka sjúkrahússins í átaki um styttingu biðlista eftir tilteknum aðgerðum fellur einnig hér undir. Eins vil ég geta hér um þá vinnu sem nú er í gangi um að nýta þá sérþekkingu og sérhæfingu í líknar- og lífslokameðferðar sem sem SAk býr yfir og það góða samstarf milli SAk og heimahlynningar á Akureyri til að styðja með markvissum hætti við við fagfólk á starfssvæði Heilbrigðisstofnananna á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi.

------------------------------------------

Góðir gestir.

Ég hef talað um mikilvægi þess að vinna á grundvelli skýrrar stefnu og tel það algjöra lykilforsendu fyrir árangri, einkum þegar við er að eiga stór og vandasöm viðfangsefni þar sem mikið er í húfi.

Ég lít á það sem eitt mikilvægasta verkefnið framundan hvað varðar embætti mitt sem heilbrigðisráðherra að móta heildstæða stefnu sem skýrir betur hver eigi að vera markmið heilbrigðisþjónustunnar, hvaða þjónusta skuli veitt, hvar og af hverjum og enn fremur hvernig skuli hátta samvinnu milli hinna ýmsu þjónustuveitenda. Undirbúningur að þessari stefnumótun er hafinn í ráðuneytinu.

Með heildstæðri stefnumótun á ég við að allt er undir, jafnt grunnþjónustan í heilsugæslunni, sérfræðiþjónustan, opinbera stofnanaþónustan, sérhæfða sjúkrahúsþjónustan, endurhæfingarstarfsemin og heilbrigðisþjónusta fyrir aldraða.

Það þarf að skerpa línur, skýra betur verkaskiptingu og skapa meiri sátt um heilbrigðiskerfið og skipulag þess. Góð samvinna sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana um landið styrkist með skýrari stefnumörkun og með nýtingu mismunandi úrræða svo sem fjarheilbrigðisþjónustu.

Með skýrri stefnu og sýn erum við betur í stakk búin til að nýta á bestan hátt þá þekkingu og þau úrræði sem eru fyrir hendi á hverjum tíma. Þannig stuðlum við að markvissri nýtingu fjár á ábyrgan hátt í þágu þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustunni að halda.

Við þurfum að jafna aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu mun betur en nú er. Til þess eigum við að styðja heilbrigðisstofnanir um landið, m.a. með því að gera þeim kleift að taka að sér verkefni sem nýta sem best mannafla, tæki og húsnæði sem fyrir er á hverjum stað.

Mikilvæg forsenda fyrir góðu samspili milli kerfa, samvinnu og samfelldri þjónustu eru samtengd upplýsingakerfi og þar með talin rafræn sjúkraskrá. Á þessu sviði er þróunin ör og ný tækifæri sífellt að opnast.

Með aðgengilegum upplýsingum um þjónustu sem í boði er, t.d. hjá heilsugæslunni, og með upplýsingum í rauntíma um bið eftir aðgerðum og annarri þjónustu má bæta álagsstýringu, stytta biðtíma og auka skilvirkni heilbrigðisþjónustunnar á landsvísu sem er í allra þágu.

-------------------------------------------

Góðir gestir.

Fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar í landinu er viðvarandi umfjöllunarefni og þannig hefur það verið lengi. Það verða aldrei allir á eitt sáttir um það hvernig fjármununum er dreift og alltaf mun það verða svo að einhverjir telja sig bera skarðan hlut frá borði.

Við verðum að skoða þessi mál í víðu samhengi og sætta okkur við það að það er ekki skynsamlegt að stórauka framlög til málaflokks af þessari stærðargráðu nema samkvæmt markvissri áætlun og skipulagi sem er í takt við efnahagsstjórn landsins. Heildarframlög hins opinbera til heilbrigðismála í ár eru um 200 milljarðar króna og það er um fjórðungur af heildarútgjöldum ríkisins!

Í tillögu að fimm ára fjármálaáætlun stjórnvalda sem nú liggur fyrir Alþingi kemur fram að heilbrigðismálin verða í forgangi á komandi árum, líkt og kveðið er á um í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það eru aðhaldsmarkmið í áætluninni fyrir næsta ár, en síðan er gert ráð fyrir raunaukningu ár hvert til loka gildistíma hennar.

Landspítalinn er grunnstoð sjúkrahússþjónustunnar og allt kapp er lagt á að styðja við það hlutverk um leið og starf heilbrigðisstofnana um landið er styrkt.

Sjúkrahúsinu hér er ætlað að eflast með byggingu nýrrar legudeildar samkvæmt framlagðri fimm ára fjármálaáætlun svo þar með má segja að langþráð verkefni sé komið í sjónmál.

--------------------------------------------

Um leið og við leggjum okkur fram um að efla og bæta heilbrigðisþjónustuna þarf líka að vinna skipulega að forvörnum og bættri lýðheilsu.

Í stefnu ríkisstjórnarinnar er sérstök áhersla á forvarnir og lýðheilsu og í fjármálaáætlun til næstu fimm ára er gert ráð fyrir aðgerðum sem lúta sérstaklega að offitu og geðheilbrigði.

Aðgerðirnar snúa til dæmis að því að styrkja starf heilsugæslunnar með aukinni áherslu á þverfaglega þjónustu sem snertir geðheilbrigði og heilbrigðan lífsstíl.

Trúlega er fátt sem skilar meiri ávinningi fyrir heilbrigðiskerfið en árangursríkt forvarnar- og lýðheilsustarf. Um samfélagslegan ávinning þarf ekki að fjölyrða.

Góðir gestir.

Ég hef komið víða við enda af mörgu að taka þegar heilbrigðismál eru til umræðu.

Eins og fram er komið er heildstæð stefnumótun í heilbrigðismálum mér hugleikin. Þar tel ég liggja ýmis tækifæri til að gera enn betur, þótt ég vilji líka taka skýrt fram að í stærstum dráttum er heilbrigðiskerfið okkar íslenska gott og ástæða til að lofa það mikla og góða starf sem unnið er á öllum stigum þjónustunnar um land allt.

Ég hyggst ekki bylta því kerfi sem við höfum, hvorki varðandi skipulag né rekstrarform.

Stefnumótunarvinnan verður ekki fyrst og fremst frumkvöðlastarf, heldur tel ég blasa við að nýta fyrirliggjandi greiningarskýrslur og tillögur nefnda og faglega skipaðra vinnuhópa sem fjallað hafa um mörg viðfangsefni heilbrigðisþjónustunnar. Við höfum á mörgu að byggja.

Hér verður á eftir kynnt framtíðarsýn og stefna SAk. Það verður áhugavert og ég hlakka til að heyra hvernig þið hafið skipulagt vinnu ykkar við stefnumótunina.

Mér hugnast vel yfirskrift hennar, þ.e. SAk fyrir samfélagið, því hún endurspeglar jöfnum höndum metnað, hógværð og viljann til að þjóna. Til þess erum við víst hér, það er rétt að hafa það hugfast.

Þetta verða lokaorð mín hér að sinni.

Þakka ykkur fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum