Hoppa yfir valmynd
23. maí 2017 Matvælaráðuneytið

Ræða ráðherra á fundi SFS um tæknibreytingar í sjávarútvegi, 23. maí 2017

Kæru gestir 

Takk fyrir að bjóða mér, sem ráðherra iðnaðar og nýsköpunar, að ávarpa þennan mjög svo áhugaverða fund, þar sem fjallað er um þær áskoranir og tækifæri sem sífellt örari tæknibreytingar hafa í för með sér fyrir sjávarútveginn. Ég held að það sé óhætt að segja að það hafi verið vel til fundið hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi að fá ráðgjafafyrirtæki á borð við Aton til að gera skýrslu um þetta efni, draga saman hvað gerst hefur á undanförnum árum og teikna upp líklega framtíðarþróun og helstu verkefni sem sú framtíð kallar á að við ráðumst í.

Þetta er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem hagsmunaaðilar í sjávarútvegi standa frammi fyrir svipuðu verkefni. Ég þurfti ekki að leita lengi í atvinnuvegaráðuneytinu að sögulegri hliðstæðu. Hér er ég með merkilega skýrslu frá „Rannsóknarráði ríkisins“ sem ber titilinn: „Tæknibreytingar í fiskiðnaði – knýjandi nauðsyn fyrir fiskvinnsluna, tækifæri fyrir íslenskan iðnað.“

Þessi skýrsla var gefin út árið 1987. Árið sem ég fæddist.

Í skýrslunni er lýst miklum breytingum sem orðið höfðu á skipulagi og starfsháttum í sjávarútvegi á þeim tíma. Hæst bar auðvitað kvótakerfið, en einnig hafði vinnsla um borð orðið algengari með tilkomu frysti- og verksmiðjutogara, og eftirspurn eftir ferskum fiski hafi aukist mjög erlendis sem olli því að afli kom síður að landi hér.

Allt þetta – bæði sjálft kvótakerfið og þær ytri aðstæður sem grófu undan vinnslu í landi – kallaði á sérstakt átak í að auka nýtingu og samkeppnishæfni, ekki síst með tækninýjungum.

Ein megintillaga skýrslunnar var að leggja þyrfti aukna áherslu á sjálfvirkni í fiskvinnslu, sem þá var ekki sérlega langt á veg komin. Svo vitnað sé orðrétt í plaggið eru þarna nefnd tæki sem geti skynjað ástand hráefnis, legu og lögun fisks, orma og beina á svipaðan hátt og mannsaugað, sjálfvirk flokkunar- og skurðarkerfi, sjálfvirk snyrting og hreinsun flaka … og marg  fleira í þessum dúr.

Fjórum árum fyrr höfðu tuttugu og tveir aðilar, meðal annars mörg fiskvinnslufyrirtæki, sameinast um að stofna fyrirtækið Marel.

Allir hér þekkja hvílík bylting hefur orðið í sjálfvirkni og bættri nýtingu afurða í sjávarútvegi á þeim þrjátíu árum sem liðin eru frá því að skýrsla Rannsóknarráðs ríkisins kom út.

Byltinguna má draga saman í sex orð: Miklu minni afli – miklu meiri verðmæti.

Það er óhætt að segja að Íslendingar hafi gripið tækifærin sem bent var á í skýrslunni … og gott betur.

Sumpart voru þetta hrein viðbrögð við kvótakerfinu, sem breytti sjávarútvegi úr því sem hefur stundum verið kallað „ólympískar veiðar“, þar sem allt var mælt í hraða og magni, yfir í fágaðri viðleitni til að hámarka nýtingu, gæði og virðisauka.

Við Íslendingar erum nú nánast alveg sér á báti á heimsvísu hvað varðar arðbærar og sjálfbærar veiðar. Við megum vera ákaflega stolt af því og við eigum að halda áfram vinnu á alþjóðavettvangi við að auka vitund um þessa staðreynd og viðurkenningu á henni.

Á sama tíma státum við einnig af glæsilegum íslenskum þekkingar- og hugvitsiðnaði sem hefur drifið áfram tæknibyltinguna í greininni, eins og til dæmis Skagann 3X sem við heyrum meira um hér á eftir. Sjávarklasinn hefur áætlað að veltan í tæknigeiranum í sjávarútvegi sé á bilinu 60 til 65 milljarðar króna á ári, og að vöxtur tæknifyrirtækja innan sjávarklasans hafi verið um 10-15% á ári undanfarin fjögur til fimm ár.

Ég vil ekki tala af neinni léttúð um að vera á heimsmælikvarða en það er svo sannarlega raunhæft markmið fyrir okkur að ná þeim stað hvað varðar nýsköpun sem tengist sjávarútvegi, séum við ekki hreinlega komin þangað nú þegar.

Á stjórnvöldum hvílir sú skylda að horfa fram á veginn og reyna að tryggja forsendur fyrir áframhaldandi bættum lífskjörum í landinu fyrir komandi kynslóðir. Í því sambandi skiptir miklu að hlúa vel að umhverfi nýsköpunar og sprotafyrirtækja. Margt hefur áunnist, ekki síst á liðnu kjörtímabili með breyttum nýsköpunarlögum og stórauknum framlögum í Tækniþróunarsjóð, svo að aðeins séu nefnd tvö dæmi. En við getum enn gert betur, meðal annars þegar kemur að því að koma sprotafyrirtækjum út af fæðingardeildinni og inn á leikskóla. Við höfum líka verið hvött til að hækka þakið á endurgreiðslum fyrir rannsóknar- og þróunarkostnað og hljótum að skoða það alvarlega þegar við forgangsröðum verkefnum, sem eru óneitanlega mörg.

Ýmsir hafa einnig ráðlagt okkur að leggja skýra áherslu á tiltekin svið atvinnulífsins í rannsóknum, þróun og nýsköpun, og að nærtækt sé í þeim efnum að horfa tilundirstöðuatvinnuvega þar sem Íslendingar hafa með einhverjum hætti samkeppnisforskot á aðrar þjóðir. Þetta eru jafnframt atvinnuvegir af þeirri stærðargráðu að þeir hafa náð krítískum massa sem styður við klasamyndun. Um þetta munum við eiga samtal við þá sem gerst þekkja.

Ég verð að fá að nefna það í lokin hversu mikil forréttindi það eru fyrir nýjan ráðherra að fá tækifæri til að eiga þátt í því að gera Ísland enn betra. Á Iðnþingi fyrr á árinu sýndi Almar Guðmundsson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins áhrifamikla ljósmynd þar sem við sjáum aftan á unga stúlku sem horfir upplitsdjörf fram á veginn. Ég tek undir þau orð Almars að okkar starf verður að vera unnið í þágu þessarar ungu stúlku. Verkefnið er að tryggja að hæfileikar allra nýtist til fulls. Við stöndum okkur býsna vel hvað það varðar. Ef hægt væri að reikna „nýtta hæfileika“ sem hlutfall af heildar-hæfileikum í samfélaginu held ég að fá lönd fengju út hærri prósentu en Ísland. Og það er aðal-ástæðan fyrir því að við náum oft ótrúlegum árangri á alþjóðavettvangi, hvort sem er í tónlist, íþróttum eða nýsköpun. Íslenski draumurinn er ekki „einn á móti milljón“ heldur innan seilingar fyrir langflesta, líka þá sem dreymir um að taka þeim tækifærum sem felast í fjórðu iðnbyltingunni opnum örmum og nýta þau til að skapa nýja þekkingu, nýjar lausnir, ný verðmæti.

Markmiðið er að eftir þrjátíu ár getum við rifjað upp þá skýrslu sem kynnt er hér í dag og sagt: Já, við gripum tækifærið … og gott betur.

Takk.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum