Hoppa yfir valmynd
18. júní 2017 Dómsmálaráðuneytið

Löggæsla á tímamótum - grein í Morgunblaðinu 18. júní​

Störf lögreglu hafa breyst mjög undanfarinn áratug. Sú sérstaða sem lögreglan hefur haft í störfum sínum í samanburði við lögreglu erlendis hefur smám saman verið að minnka. Verkefni sem fyrir nokkrum árum heyrði til undantekninga að rötuðu inn á borð lögreglu eru sum orðin hluti af daglegri löggæslu. Mest áberandi breytingin var án efa í kjölfar bankahrunsins þegar fjöldamótmæli kölluðu á löggæslu af öðru tagi en áður þekktist. Engum duldist að álag á almenna lögregluþjóna var mikið og að menn væru að fóta sig í nýjum aðstæðum. Lögreglu fór verkið vel úr hendi, hún las í aðstæður og átti að mínu mati stóran þátt í því að mótmælin leiddu ekki til upplausnar.

En þau eru einnig mörg verkefnin sem ekki eru jafn áberandi og almenningur getur síður lagt mat á. Á heimilum og á götum úti þarf lögreglan oft að kljást við fólk í ástandi sem varla þekktist á árum áður. Lögreglan er einnig skuldbundin í margvíslegu alþjóðasamstarfi sem stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um og leiðir til nákvæmari greininga á ógn og hættu sem steðjar að borgurunum. Þá hefur Ísland skyldum að gegna gagnvart erlendum ríkisborgurum sem hingað leita í ýmsum tilgangi, lögmætum og ólögmætum. Jafn ánægjuleg og fjölgun útlendinga getur verið hefur hún leitt til nýrra verkefna löggæslunnar og annarra vinnubragða en áður tíðkuðust.

Þótt menn kunni að greina á um hlutverk ríkisins almennt þá er það óhjákvæmilega eitt af grunnhlutverkum stjórnvalda að tryggja öryggi almennings. Það er einfaldlega þáttur í mannréttindum sem land eins og Ísland stendur vörð um. Lögreglan hefur ekki annað að leiðarljósi í störfum sínum. Undanfarið hefur verið reynt að gera störf hennar tortryggileg í kjölfar þess að hluti lögreglunnar vopnum búinn hafi sést á almannafæri. Er það þá talið til marks um einfeldni að líta út fyrir heimahagann og vilja draga lærdóm af óförum annars staðar. Sömu gagnrýnisraddir segja að það að færa sérsveitina nær almenningi komi ekki í veg fyrir glæpi. Það kann að vera og síst hefur lögreglan haldið slíku fram heldur hinu að mikilvægt sé að vera sem best í stakk búinn til að bregðast við komi til áfalla.

Ég hef nefnt að ógn af hryðjuverkum eða tilviljanakenndum árásum verður ekki mætt með einstökum aðgerðum heldur samstilltu átaki löggæslu og árvekni borgara. Hnökralaus almenn löggæsla skiptir mestu máli til lengri tíma. Enginn vilji er hjá lögreglu eða stjórnvöldum til þess að sú löggæsla verði vopnum búin. Mat á því hvenær ástæða er til að styrkja þá löggæslu með sértækum aðgerðum er og verður í höndum þeirra sem best til þekkja.

Ég hef í nokkur ár ritað pistla á þessum vettvangi mér til ánægju. Ég læt nú af því, að minnsta kosti um sinn. Ég þakka blaðinu og lesendum samfylgdina, ekki síst þeim sem hafa verið svo vinsamlegir að senda mér nokkur orð í kjölfar pistla.

Eftir niðurskurð fjárheimilda til löggæslu eftir bankahrun hefur Sjálfstæðisflokkurinn beitt sér fyrir viðsnúningi. Það hefur verið gert með auknu fé frá árinu 2013 um ríflega 4,7 milljarða (34% aukning).

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 18. júní 2017.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum