Hoppa yfir valmynd
04. ágúst 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Unglingalandsmót UMFÍ

Góðir gestir.
Unglingalandsmót UMFÍ fer nú fram í 20. sinn. Fyrsta mótið var haldið á Dalvík að frumkvæði heimamanna undir forystu Jóns Sævars Þórðarsonar og hefur sannað sig síðustu ár sem ein umfangsmesta og best sótta hátíð unglinga á hverju ári.

Það sem unglingalandsmótið hefur fram yfir margar aðrar hátíðir er samvera fjölskyldunnar og það sem mest er um vert þá fer hér fram vímulaus samvera unglinga og foreldra. Hjá mörgum fjölskyldum um land allt er landsmótið orðið að ómissandi viðburði á hverju ári og er það jákvætt því slík samvera treystir fjölskyldubönd og stuðlar jafnframt að því að framtíð unglinga byggi á traustum grunni. Sá árangur sem rannsóknir segja að náðst hafi í því að draga úr neyslu tóbaks og annarra vímuefna meðal unglinga hér á landi hefur vakið athygli á alþjóðavísu. Ég tel það engum vafa undirorpið að sú hugmyndafræði sem hér er unnið eftir vera einn af hornsteinunum sem sá árangur byggir á og vil hrósa Ungmennafélagi Íslands fyrir allt það starf sem það hefur staðið fyrir s.l. 110 ár. 

Líkt og flestir vita þá er Vilhjálmsvöllur nefndur eftir Vilhjálmi Einarssyni sem vann mikil afrek á frjálsíþróttavellinum á sínum tíma. Fyrir utan það að fá silfurverðlaun í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne árið 1956 þá setti hann Íslandsmet í greininni árið 1960 sem enn hefur ekki verið slegið en þá stökk hann 16,70 metra. Að því ég best veit þá er þetta elsta núgildandi Íslandsmet í grein sem enn er keppt í í frjálsum íþróttum.

Íþróttastarf á Íslandi hefur hlotið verðskuldaða athygli á síðustu misserum. Ástæðuna má rekja til nokkurra samverkandi þátta og hefur Viðar Halldórsson, lektor við Háskóla Íslands, rannsakað hvað það er sem hugsanlega gæti skýrt þann góða árangur. Það gengur gegn líkindalögmálum að við náum jafn góðum árangri og raun ber vitni. Hér langar mig sérstaklega að vitna í niðurstöður Viðars og nefna þrennt sem þar kemur fram: Þáttur þjálfara vegur þungt en hér á landi starfa hlutfallslega margir menntaðir þjálfarar við þjálfun yngri barna á meðan margar aðrar þjóðir byggja þjálfun barna fyrst og fremst á framlagi foreldra. Í öðru lagi virðist sem sterk liðsheild og samkennd einkenni okkar afreksíþróttafólk og íþróttastarf almennt. Sú samkennd og samheldni á væntanlega rætur sínar að rekja til þess öfluga barna og unglingastarfs sem unnið er um allt land. Öflugt íþróttastarf meðal barna og unglinga byggir fyrst og fremst á sjálfboðaliðastarfi. Þrátt fyrir að þróun undanfarinna ára sýni að sífellt verði erfiðara að fá fólk til að leggja sitt af mörkum í starfi með börnum og unglingum þá er sá þáttur enn mjök sterkur og allt til þess vinnandi að viðhalda honum. Þriðji og síðasti þátturinn sem mig langar að nefna er þáttur foreldra. Við þurfum sífellt að hafa augun á því markmiði að með íþróttastarfi er verið að þjálfa og ala upp eiginleika sem skapa farsæld í lífi fólks.

Íþróttir hafa verið og munu verða mikilvæg stoð í uppeldi barna og unglinga. Með íþróttaiðkun gefst tækifæri til að þroska með sér bæði líkamlega og andlega færni sem styrkir hvern einstakling á þroskabrautinni. Hin mikla þátttaka barna og ungmenna í íþróttum sýnir vel hug þjóðarinnar til þeirra. Stuðningur ríkis og sveitarfélaga og ekki síður fyrirtækjanna í landinu við uppbyggingu aðstöðu og grasrótarstarfs íþróttahreyfingarinnar mynda grundvöllinn að henni.

Unglingalandsmótið er íþróttakeppni þar sem skemmtun er í fyrirrúmi en kappið og viljinn til að sigra er á sínum stað, þannig á það líka að vera. Ég fyllist bjartsýni á framtíðina þegar ég horfi yfir þennan fríða hóp keppenda. Ég vona að íþróttir verði stór partur í ykkar lífi til framtíðar og að þið gerið hreyfingu að viðvarandi þætti í ykkar lífi alla ævi. Mín hvatningarorð til ykkar eru: Keppið af ákafa og gleði en sýnið öðrum, keppendum og dómurum, tillitssemi og virðingu eða líkt og Friðrik Friðriksson stofnandi Knattspyrnufélagsins Vals sagði fyrir rúmum hundrað árum: „Látum ekki kappið bera fegurðina ofurliði.“ Friðrik sagði jafnframt við vígslu fyrsta Valsvallarins og áminnti alla „ um heiðarleika í leik og starfi og að friður, kærleikur, samheldni, fegurð og atorka ætti að ríkja í starfinu og aldrei ætti að þrífast neitt ósæmilegt og ljótt.“

Enn í dag eru þessi orð í fullu gildi og með þeim fylgja mínar bestu óskir ykkur til handa. Njótið samverunnar, keppninnar, gleðinnar sem fylgir því að taka þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ árið 2017.
Góða vímulausa skemmtun.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum