Hoppa yfir valmynd
21. september 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Rannsóknarþing 2017

Góðir gestir
Þann 12. júní síðastliðinn samþykkti Vísinda- og tækniráð nýja stefnu og aðgerðaáætlun fyrir árin 2017-2019. Vinnan við stefnuna fór fram í góðu samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytis, annarra ráðuneyta og undirnefnda ráðsins. Leiðarstef stefnunnar eru gæði og árangur – og miða aðgerðirnar að því að efla umhverfi þekkingarstarfsemi og auka samfélagslegan ávinning af rannsóknum og nýsköpun hér á landi til framtíðar.
Leiðarljós í stefnunni er að fjárfesting í rannsóknum og þróun nái 3% af vergri landsframleiðslu fyrir árið 2024.

Yfirskrift þessa rannsóknaþings er „heimur örra breytinga“. Ljóst er að komandi kynslóðir munu þurfa að glíma við margar krefjandi spurningar sem snúa meðal annars að umhverfismálum, heilbrigði, tækni og samfélagsþróun. Um er að ræða flókin verkefni sem krefjast þess að við byggjum brýr milli fólks og fagsviða, þvert á hefðbundin mörk á milli greina og geira. Það er markmið Vísinda- og tækniráðs að stuðla að aukinni forgangsröðun í rannsóknum og nýsköpun, meðal annars með því að skilgreina hinar helstu áskoranir framtíðarinnar þar sem við viljum nýta rannsóknir og nýsköpun með markvissum hætti til að bæta lífsskilyrði og velferð og skila þannig samfélagslegum ávinningi.
Skýrari forgangsröðun gefur okkur auk þess meiri slagkraft í alþjóðlegu samstarfi um rannsóknir og þróun og styður við markmið um eflingu rannsóknarinnviða. Forgangssviðin verða skilgreind í samráði við almenning og hagsmunaaðila. Markáætlun á sviði vísinda og tækni og Innviðasjóður verða nýtt til að fjármagna verkefni í samræmi við forgangssviðin. Við munum áfram standa vörð um opna fjármögnun án sérstakrar forgangsröðunar í gegnum Rannsóknasjóð.
Meginvinna við að skilgreina forgangssviðin er ekki enn hafin, en í stefnunni fórum við þó þá leið að tilgreina strax eitt af þessum sviðum og er það tunga og tækni.
Þegar kemur að framtíð íslenskrar tungu blasa við okkur fjölmargar áskoranir. Ljóst er að tækni skipar æ stærri sess í daglegu lífi og samskiptum fólks og búast má við að þessi þróun muni færast í aukana á næstu árum. Því er spáð að tungumálið verði sífellt meira notað í samskiptum við tæki og tækni, til að mynda með aukinni notkun þýðingarvéla og ýmiss samskiptahugbúnaðar og er gert ráð fyrir að í náinni framtíð komi á markað tölvur sem geti skilið og brugðist við flóknum fyrirskipunum.
Á síðustu árum hefur íslenskan því miður dregist aftur úr á mörgum sviðum upplýsingatækninnar. Mikið af hugbúnaði sem notaður er dags daglega er eingöngu notaður á ensku eða öðrum erlendum tungumálum. Ég tel það skipta okkur afar miklu máli að tryggja að íslenskan verði fullgilt tungumál í hinum stafræna heimi, eigi hún að vera lífvænleg þjóðtunga til framtíðar. Því munum við, á næstu vikum, auglýsa sérstaka markáætlun um tungu og tækni sem hefur það markmið að efla stöðu íslenskunnar í tækni og efla nýliðun í rannsóknum á tungunni í okkar tæknivædda heimi.
Öflugari forgangsröðun mun gera okkur kleift að ná meiri slagkrafti í fjárfestingu í rannsóknarinnviðum. Uppbygging og rekstur rannsóknarinnviða geta krafist töluverðrar fjárfestingar, til langs tíma. Það skiptir því miklu máli að við beinum kröftum okkar þangað þar sem líklegt er að við náum mestum árangri. Í samræmi við stefnuna er nú unnið að undirbúningi að gerð vegvísis um rannsóknarinnviði, þar sem við ætlum að efla alþjóðlegt samstarf á sviði innviða og markvissa innviðafjárfestingu. Munum við þar skipa okkur bekk með Evrópuþjóðum sem hafa nær allar unnið slíkan vegvísi um rannsóknarinnviði á síðastliðnum árum.
Önnur aðgerð snýr einnig að innviðamálum en það er markmið um að vinna stefnu um opinn aðgang að gögnum. Á síðustu árum hefur magn þeirra gagna sem aflað er við rannsóknir aukist til muna og skilningur okkar á verðmæti slíkra gagnasafna hefur vaxið. Ég tel mikilvægt að samfélagið njóti sem best þeirra þekkingar
Því markmiði má ná með því að gera kröfu um opinn aðgang að rannsóknargögnum. Þannig verður tryggð markviss nýting gagna sem aflað hefur verið fyrir opinbert fé og tenging gagnasafna getur orðið mikilvæg uppspretta nýrrar þekkingar og nýsköpunar.
Stefna og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs tekur einnig til fjármögnunar háskólanna en um hana hefur mikið verið rætt undanfarin misseri. Í stefnunni eru sett fram skýr markmið um fjármögnun háskólakerfisins á næstu árum. Ég tel að fram þurfi að fara samtal við háskólana um það hvernig unnt verði að ná settum markmiðum, samhliða því sem mótuð verður skýrari framtíðarsýn fyrir háskólakerfið allt, og leitað leiða til að efla það. Vinna við endurskoðun reiknilíkans háskóla hefur þegar hafist í ráðuneytinu og verður hún unnin í góðu samráði við hagsmunaaðila. Markmiðið með endurskoðuninni verður að tryggja að reiknilíkanið styðji betur við markmið okkar um aukin gæði.
Í stefnunni er ennfremur getið um aukin gæði í stjórnsýslunni og í kerfinu öllu með áherslu á grundaða stefnumótun (e. evidence-based policy making). Þetta er í samræmi við markmið nýrra laga um opinber fjármál þar sem lögð er áhersla á gildi eins og sjálfbærni, festu og gagnsæi. Við viljum meta með markvissari hætti, en við erum kannski vön að gera, árangurinn af þeim aðgerðum sem gripið er til. T.d. er ætlunin í aðgerð 7 að gera úttekt á skattalegu umhverfi rannsókna og nýsköpunar hér á landi og leggja mat á áhrif nýlegra lagabreytinga. Með aðgerð 8 ætlum við að leggja mat á stuðningskerfi atvinnulífs og stofnanaumhverfi til að skoða hvernig við getum aukið árangur og bætt samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Í aðgerð 6 ætlar Vísinda- og tækniráð að fjalla um niðurstöður sérfræðingahóps um mannafla- og færnispár á íslenskum vinnumarkaði. Allt þetta miðar að auknum gæðum innan stjórnsýslunnar.
Við viljum miðla árangri af vísinda- og nýsköpunarstarfi til almennings og skóla. Eitt af einkennum svokallaðs þekkingarsamfélagsins er að rannsóknir og nýsköpun eru samofin samfélaginu öllu. Það skiptir því verulegu máli að efla skilning á mikilvægi rannsóknar- og nýsköpunarstarfs. Aðgerð 3 fjallar um að gera áætlun um miðlun á vísindum og tækni til almennings, allra skólastiga og stjórnvalda og hrinda slíkri áætlun í framkvæmd.

Góðir gestir
Við stjórnarskiptin í vetur tók mennta- og menningarmálaráðherra við formennsku í Vísinda- og tækniráði af forsætisráðherra. Þótt ýmsir hafi gagnrýnt þessa breytingu, tel ég sterk rök fyrir henni. Frá því að ráðið var sett á stofn árið 2003 hefur aðkoma mennta- og menningarmálaráðuneytis að starfi ráðsins verið mikil, mun meiri en nokkurra annarra ráðuneyta, enda ber mennta- og menningarmálaráðherra ábyrgð á stefnu stjórnvalda í háskóla- og vísindamálum, a.m.k. að megninu til. Með breytingunni starf Vísinda- og tækniráðs fært nær þeim fagráðuneytum þar sem þekking á rannsóknum, háskólum og nýsköpun er mest. Það hefur verið markmið mitt sem formanns Vísinda- og tækniráðs að efla samtal starfsnefnda ráðsins við þau ráðuneyti sem að því koma, og vinna að því að stefna þess endurspeglist með skýrum hætti í fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Með þessu móti vil ég stuðla að því að Vísinda- og tækniráð nái þeim markmiðum sem það setur sér.
Framundan er áhugaverð dagskrá. Líkt og fyrri ár verða hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs veitt þeim vísindamanni sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað framúr á sínu sviði og er talin líklegur til afreka í rannsóknum og nýsköpun í íslensku samfélagi. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1987 og eru til þess ætluð að hvetja vísindamenn til dáða og vekja athygli almennings á gildi rannsókna og starfi vísindamanna.

Með þessum orðum lýsi ég því að Rannsóknarþing 2017 er sett. Njótið dagsins.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum