Hoppa yfir valmynd
21. september 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Viðskiptaráð Íslands 100 ára

Forseti, fulltrúar Viðskiptaráðs Íslands, góðir gestir.

Það er einstaklega ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag á 100 ára afmælishátíð Viðskiptaráðs Íslands. Það er merkur áfangi að ná aldarafmæli og gott tilefni til að líta yfir farinn veg, skoða hvað hefur áunnist og horfa til framtíðar.
Líkt og Dominic Barton kom inn á hér áðan eru tímarnir að breytast – hraðar en nokkru sinni fyrr. Breyttri heimsmynd fylgja breyttar kröfur og huga þarf vandlega að uppbyggingu menntakerfisins svo það stigi í takt við kröfur nútíma samfélagins og sé í færum til að mæta síbreytilegum og fjölþættum þörfum samtímans og því sem við teljum á hverjum tíma búa í framtíð okkar.

Við Íslendingar erum atorkusöm og bjartsýn þjóð, land okkar er ríkt af náttúruauðlinum og í háskólum landsins er að finna dýrmæta auðlind í formi þekkingar og frumkvöðlakrafts. Hér er öflugt rannsóknarstarf á mörgum sviðum, mikið hugvit og við erum svo lánsöm að búa að gjöfulu alþjóðlegu vísindasamstarfi. Samfélagslegur ávinningur af alþjóðlegu rannsóknarstarfi verður seint ofmetinn og mikilvægt að vel sé að því hlúð
Íslenskir vísindamenn hafa náð afburðaárangri í alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi sem við megum vera hreykin af og nú eru tveir af háskólum okkar á meðal þeirra 500 bestu í heimi, og vísa ég þar í nýjasta lista The Times Higher Education World University Rankings yfir bestu háskóla heims.
Þetta er glæsilegur árangur sem ber að halda á lofti.

Vísindaleg þekking og hagnýting hennar er samtvinnuð daglegu lífi okkar og samfélagsgerð. Samlegðaráhrifin sem skapast þegar við samnýtum krafta okkar, þekkingu og fjármagn eru mikilvæg og með auknu samstarfi getum við tryggt og viðhaldið hér sterkum innviðum, hagþróun og velferð til framtíðar. Sigurður Pálsson skáld lést í fyrradag 69 ára að aldri, blessuð sé minning hans. Hann hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á Degi íslenskrar tungu á síðasta ári og sagði m.a. við það tækifæri :
Stundum heyrist kvartað yfir því að íslenskan sé hálfómerkilegt tungumál af því að það séu svo fáir sem nota það. Í raun er þetta mikil blessun eða getur verið það.
Sá sem á sér móðurmál sem fáir skilja er í þeirri eftirsóknarverðu stöðu að neyðast til þess að læra önnur tungumál. Sú nauðung er bæði ljúf og gefandi.
Að læra önnur tungumál skapar möguleika á fjölbreyttara viðhorfi til veraldarinnar og fjölbreytileiki vinnur gegn hvers kyns einsleitni.

Með því að berjast fyrir hinni skáldlegu vídd tungumálsins þannig að fólk verði virkir notendur, skapandi lesendur og túlkendur tungunnar og jafnframt með því að læra önnur mál, með öllu þessu erum við ekki bara að berjast gegn hinni eitruðu einsleitni heldur í raun beinlínis að hjálpa til við að byggja upp lýðræðislegt samfélag.

Fyrir fullvalda þjóð skiptir lykilmáli að standa vörð um þjóðtungu sína í samfélagi þjóðanna og sú ábyrgð og skylda hvílir á okkur núlifandi Íslendingum að tryggja að íslenskan verði fullgilt tungumál í hinum stafræna heimi. Sagan kennir okkur að þau tungumál sem ekki eru með í tæknibyltingunni eigi á hættu að deyja út. Því tel ég að leggja verði ríka áherslu á íslenska máltækni og að hún verði grunnþáttur í framkvæmd íslenskrar málstefnu næstu árin. Það er hlutverk okkar allra að búa svo um hnútana að móðurmál okkar lifi og dafni á komandi árum.
Í sumar kom út skýrsla starfshóps um stöðu og framtíð menntunar á sviði máltækni, ásamt fjárhags- og verkáætlun til fimm ára, sem varða leiðina. Það er ánægjulegt hversu gott samstarf var í allri þessari vinnu en að henni komu stofnanir, háskóla og samtök atvinnulífsins.

Bakhjarl menntunar
Frá stofnun hefur Viðskiptaráð Íslands verið bakhjarl menntunar með þátttöku í uppbyggingu íslensks menntakerfis. Má hér nefna aðkomu ráðsins að rekstri Verzlunarskóla Íslands og síðar uppbyggingu Háskólans í Reykjavík en báðir þessir skólar hafa verið eftirsóknaverðir valkostir og nemendur útskrifast þaðan með góða og hagnýta menntun á sviðum atvinnulífsins. Menntasjóður Viðskiptaráðs, sem gegnir því meginhlutverki að auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, hefur styrkt íslenska nemendur sem leggja stund á framhaldsnám við erlenda háskóla og veitt styrki til fjölda rannsóknarverkefna sem tengjast framþróun menntunar og eflingu íslensks atvinnulífs.
Það er fagnaðarefni að áhersla á menntun, rannsóknir og nýsköpun hefur verið rauður þráður í starfsemi Viðskiptaráðs frá upphafi.

Ágætu gestir,
Viðskiptaráð Íslands á sinn þátt í því hve vel hefur unnist í að tryggja áframhaldandi hagvöxt og uppbyggingu menntakerfisins hér á landi. Leiðin að aukinni hagsæld hefur verið mörkuð og þróun efnahagsmála undanfarin ár verið okkur í hag.
Að þessu sögðu vil ég óska Viðskiptaráði Íslands allra heilla í tilefni dagsins og snúa mér að vísindamönnum framtíðarinnar.

Hvernig verður Ísland tæknivæddasta þjóð í heimi árið 2030?

Í tilefni af 100 ára afmæli Viðskiptaráðs Íslands stóð ráðið fyrir verkkeppni (e. case competition) í fyrsta sinn. Keppnin gekk þannig fyrir sig að 4-5 manna lið fengu eina helgi til þess að móta hugmynd er snéri að spurningunni Hvernig verður Ísland tæknivæddasta land í heimi árið 2030?”.
Fyrri hluti dags fór í fyrirlestra um breytta framtíð, samkeppnishæfni Íslands og hvernig nálgast má flókin vandamál á skipulagðan hátt. Seinniparturinn var nýttur til hugmyndavinnu þar sem fjölmargir „leiðtogar“ úr atvinnulífinu litu við hjá hópunum til að aðstoða þá áfram í sinni vinnu.
Með stuðningi háskólanna; HÍ, HR og LHÍ voru valin 11 lið með 50 þátttakendur til að taka þátt í keppninni. Yngsti keppandi var tvítugur og elsti á fertugsaldri! Keppendur komu úr 16 mismundandi sérfræðigreinum. Hugmyndirnar voru því jafn frumlegar og fjölbreyttar og liðin voru mörg.
Hugmyndir sem fram komu voru allt frá rafvæðingu stjórnsýslunnar og byltingu í samgöngumálum með svokölluðum þythylkjum, til nútímalegrar íslenskukennslu með snjallsímaforriti og nútímavæðingu landbúnaðarkerfisins. Einnig komu fram hugmyndir um stofnunina Jaka sem eins konar orkuklasa fyrir nýsköpunarfyrirtæki, gagnavera “mekka“ með „Íslenska skýinu“,og notkun sýndarveruleika sem nálgun á samfélagslegar áskoranir.
Hefur dómnefnd nú komist að niðurstöðu en áður en ég opna umslagið þar sem nafn sigurliðsins er að finna ber þess að geta að vinningurinn er ekki af lakara taginu – en það er ferð til Kísildalsins þar sem framsæknustu fyrirtæki heims verða heimsótt. Fyrirtæki á borð við Facebook, Google, NASA, Uber, Tesla og fleiri.

Í dómnefnd sátu:
• Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir Ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
• Ari Kristinn Rektor Háskólans í Reykjavík
• Steinunn Gestsdóttir Aðstoðarrektor kennslumála- og þróunar í Háskóla Íslands
• Katrín Olga Jóhannesdóttir formaður Viðskiptaráðs Íslands
• Stefán Sigurðsson forstjóri Vodafone á Íslandi
Ég ætla hvorki að kvelja keppendur né tefja gesti lengur og vind mér í þetta.

Sigurliðið er það lið sem lagði fram hugmynd um gjörbyltingu í heilbrigðiskerfinu með því að nýta gervigreind. Áhersla er lögð á að fyrirbyggja sjúkdóma í stað þess að meðhöndla þá eftir að þeir koma fram. Þessi hópur er skipaður læknanemum á 6. ári ásamt tölvunarverkfræðingi. Með hugmynd sinni um fyrirbyggjandi heilbrigðiskerfi sem aftrar því að fólk veikist af algengustu lífstílssjúkdómum heims á borð við sykursýki og fleiru eru þeir að stuðla að aukinni framleiðni í heilbrigðismálum. Í gegnum tækninýjungar á borð við snjall-úr og síma setja þeir fram sannfærandi hugmynd um það hvernig Ísland geti orðið að fyrirmynd í heiminum um hvernig nýta megi gervigreind og tækni til þess að halda landsmönnum heilbrigðum. Tóku þeir dæmi um hvernig erlend fyrirtæki hafi nú þegar nýtt sér Ísland sem reynslu markað þegar lifrarbólgu C var útrýmt hérlendis. Hafa þeir hug á að tengjast beint þeim tæknifyrirtækum sem standa hvað fremst í þessum efnum og eru þau einmitt mörg hver að finna í Kísildalnum. Ég vil kalla hingað upp á svið lið nr. 7: Þá Daníel Alexandersson, Viðar Róbertsson, Davíð Þór Jónsson, Alexander Jósep Blöndal og Vilhjálm Pálmason.
Gefum þeim gott klapp!

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum