Hoppa yfir valmynd

Alþjóðastofnanir í Genf

Fastanefndin fer með fyrirsvar Íslands innan Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), gagnvart Alþjóðaviðskipastofnuninni (WTO), Sameinuðu þjóðunum og undirstofnunum þeirra, og Alþjóðarauðakrossinum (ICRC), auk annarra alþjóðastofnana í Genf, svo sem Alþjóðaheilbrigðis-stofnuninni (WHO), Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO) og Alþjóða- hugverkaréttarstofnuninni (WIPO).

Fríverslunarsamtök Evrópu

(European Free Trade Association - EFTA)

Samningurinn um Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) var undirritaður í Stokkhólmi 20. nóvember 1959 og tók gildi 3. maí 1960. EFTA, sem eru fríverslunarsamtök en ekki tollabandalag, var upphaflega samtök sjö ríkja í Vestur-Evrópu auk þess sem Finnland gerðist aukaaðili 1961. Ísland gerðist aðili að EFTA 1. mars 1970. Núverandi aðildarríki eru, auk Íslands, Liechtenstein, Noregur og Sviss.

Meginverkefni EFTA, á grundvelli Stokkhólmssamningsins, er fríverslun með iðnaðarvörur og sjávarafurðir og að vissu marki landbúnaðarvörur svo og samskipti EFTA/EES ríkjanna við Evrópusambandið á grundvelli Samningsins um evrópska efnahagssvæðið. Með aukinni fríverslun hefur samstarf um margvíslegar aðgerðir til að stuðla að frjálsum viðskiptum auk þess orðið veigamikill þáttur í starfi samtakanna.

Fríverslunarsamningar EFTA ríkjanna eru nú 16. Samstarfsríkin eru þessi: Tyrkland 1991, Ísrael 1992, Rúmenía 1992, Búlgaría 1993, Marokkó 1997, Palestína (sem tollsvæði undir heimastjórn) 1998, Makedónía 2000, Mexíkó 2000, Jórdanía 2001, Króatía 2001, Singapúr 2002, Chile 2003, Líbanon 2004, Túnis 2004, Suður-Kórea 2005 og samningur við Tollabandalag Suður-Afríku (Botsvana, Lesotho, Namibía, Suður-Afríka og Svasíland) 2006.

Til viðbótar þessum samningum höfðu EFTA ríkin gert fríverslunarsamninga við átta ríki sem nú hafa gengið í Evrópusambandið. EES samningurinn og tvíhliða samningar Sviss við ESB hafa því komið í stað þeirra. Þessi ríki eru: Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland.

EFTA ríkin eru sem stendur í fríverslunarviðræðum við Egyptaland, Kanada (viðræður hafa legið niðri frá 2000) og Taíland. Viðræður munu hefjast við Flóaráðið (GCC - Sádi Arabía, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Barein, Katar, Kúveit og Óman.) síðar á árinu, stefnt er að fríverslunarviðræðum við Alsír síðar á þessu ári auk þess sem könnunarviðræður fara nú fram við Indónesíu.

Til viðbótar framangreindum ríkjum má nefna að EFTA hefur gert samstarfsyfirlýsingar (sem eru oft undanfari fríverslunarviðræðna) við eftirtalin ríki: Albanía 1992, Úkraína 2000, Serbía og Svartfjallaland 2000, Mercosur (Argentína, Brasilía, Paragvæ og Úrúgvæ) 2000 og Perú 2006 auk þess stefnt er að undirritun samstarfsyfirlýsingar við Kólumbíu innan skamms.

Fastanefndin sinnir samningaviðræðum á vettvangi EFTA fyrir hönd utanríkisráðuneytisins og með liðsinni annarra ráðuneyta eftir því sem við á hverju sinni.

 EFTA Secretariat

Alþjóðaviðskiptastofnunin

(World Trade Organization - WTO)

Ísland gerðist aðili að GATT-samningnum 21. apríl 1968 og síðar stofnaðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) sem tók við af GATT. WTO var sett á laggirnar 1. janúar 1995 í kjölfar Úrúgvæviðræðnanna, sem var áttunda og umfangsmesta viðskiptalotan innan vébanda GATT-samningsins frá 1947.

WTO myndar lagalegan og stofnanalegan ramma utan um hið fjölþjóðlega viðskiptakerfi. Grundvallarmarkmið stofnunarinnar er að auka frjálsræði og tryggja réttaröryggi í heimsviðskiptum og stuðla þar með að hagvexti og efnahagslegri þróun.

Starfssvið WTO er ekki einskorðað við endurbættan GATT-samning um vöruviðskipti (GATT 1994). Alls eru 29 samningar í umsjá stofnunarinnar, þ.á.m. samningar um landbúnað, þjónustuviðskipti, hugverkaréttindi og lausn deilumála. WTO er ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd þessara samninga, vera vettvangur fjölþjóðlegra samningaviðræðna á viðskiptasviðinu, leysa viðskiptadeilur sem upp kunna að koma milli samningsaðila og taka viðskiptastefnu þeirra til skoðunar með reglubundnum hætti. Viðskiptastefna Íslands er tekin til athugunar á 6 ára fresti og er næsta fyrirtaka hennar ráðgerð í júní 2006.

Doha-samningalotan

Á ráðherrastefnu aðildarríkja WTO sem haldin var í Doha Katar í nóvember 2001 var samþykkt að hefja nýjar samningaviðræður um alþjóðaviðskipti í því skyni að draga enn frekar úr viðskiptahömlum og fella fleiri svið viðskipta undir alþjóðlegar reglur. Samningaviðræðurnar hafa dregist á langinn en að fyrirsögn ráðherrastefnu WTO sem haldin var í Hong Kong í desember 2005 var ákveðið að reyna til þrautar að ljúka viðræðunum á árinu 2006.

Samningaviðræðunum er stjórnað af aðalsamninganefnd WTO (Trade Negotiations Committee, TNC) en undir henni starfa níu samninganefndir sem fara með einstök samningssvið. Samninganefndirnar halda hittast nokkra daga í senn á þriggja til sex vikna fresti og sinnir fastanefndin hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd. Fulltrúar frá landbúnaðarráðuneyti taka virkan þátt í starfi samninganefndarinnar um landbúnað og fulltrúar frá sjávarútvegsráðuneytinu taka virkan þátt í starfi samninganefndarinnar um viðskiptareglur þar sem meðal annars er reynt að reisa skorður við skaðlegum ríkisstyrkjum í sjávarútvegi. Starfi samninganefndarinnar um markaðsaðgang annarra vara en landbúnaðarvara (Non Agricultural Market Access, NAMA) er sinnt eftir föngum og er meðal annars rétt að geta þess að fastafulltrúi Íslands gegndi formennsku í þeirri samninganefnd um tveggja ára skeið frá 2004 til ársbyrjunar 2006. Til viðbótar er rétt að geta sérstaklega samninganefndarinnar um þjónustuviðskipti sem fastanefnd fylgist grannt með.  Þar er unnið að því að auka frelsi á sviði þjónustuviðskipta með ferli sem felur í sér tilboð og kröfur aðildarríkjanna á hvert annað, auk samninga um regluverk og umgjörð þjónustuviðskipta.

World Trade Organization

Stofnanir Sameinuðu þjóðanna í Genf (UNOG)

Meginþungi starfs Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamstarfs almennt á sviði mannréttinda- og mannúðarmála fer fram í Genf, þar sem er að finna m.a. Mannréttindaskrifstofu S.þ., Flóttamannastofnun S.þ., Mannúðarskrifstofu S.þ. auk fjölda ráða og nefnda sem starfa undir Sameinuðu þjóðunum. Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna eru hins vegar í New York.

Fastanefnd sinnir fundarsókn og verkefnum sem tengjast þessum stofnunum. Hér að neðan er að finna tengla og stutta umfjöllun um nokkrar helstu stofnanir S.þ. í Genf.

United Nations Office at Geneva

Mannréttindastofnanir Sameinuðu þjóðanna

Mannréttindafulltrúi S.þ.
(Office of the High Commissioner for Human Rights - OHCHR)

Mannréttindaráðið
(Human Rights Council - HRC)

Office of the High Commissioner for Human Rights - OHCHR

Mannréttindastarf Sameinuðu þjóðanna fer aðallega fram á vettvangi allsherjarþingsins í New York, Mannréttindaráðsins í Genf, mannréttindanefndarinnar í New York svo og hjá embætti Mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna í Genf. Af hálfu Íslands starfa ýmsir aðilar að mannréttindamálum innan Sameinuðu þjóðanna, bæði ráðuneyti og stofnanir svo og ýmis samtök. Grundvöllur þess starfs er Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna, sem samþykkt var á allsherjarþinginu sem haldið var í París 1948.

Á allsherjarþinginu 1993 var sett á laggirnar embætti Mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna. Hann ber meginábyrgð á starfi samtakanna að mannréttindamálum og nýtur við það aðstoðar Mannréttindaskrifstofunnar (Human Rights Center) í Genf.

Á allsherjarþingi S.þ. haustið 2005 var ákveðið að í stað mannréttindaráðs sem stofnað var undir Efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna 1946 (ECOSOC), skyldi komið á fót nýju ráði, sem væri jafnsett ECOSOC. Með ályktun í mars 2006 var nýju Mannréttindaráði (Human Rights Council) komið á fót.  Í ráðinu sitja 47 fulltrúar og fyrsti fundur ráðsins var haldinn 19.-30. júní 2006, en ráðið fundar að jafnaði þrisvar sinnum á ári, að lágmarki í 10 vikur samanlagt.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur verið unnið að gerð margvíslegra mannréttindasamninga. Flestir mannréttindasamningar Sameinuðu þjóðanna gera ráð fyrir að kjörin sé nefnd eða ráð til þess að fylgjast með framkvæmd þeirra. Eftirlit er gjarnan í því formi að aðildarríki skila inn skýrslu til nefndarinnar og ríkinu er síðan gert að standa fyrir svörum. Ísland er nú aðili að öllum helstu alþjóðlegum mannréttindasamningum, og nefna má þá helstu hér:

Mannréttindanefndin (Human Rights Committee) tók til starfa 1947 og er skipuð 18 fulltrúum frá ríkjum sem samþykkt hafa alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (International Convenant on Civil and Political Rights), sem samþykktur var á allsherjarþinginu 1966 og öðlaðist gildi 1976. Samningurinn var undirritaður af Íslands hálfu 30. des. 1966 og fullgiltur ásamt valfrjálsum bókunum um kærurétt einstaklinga og um afnám dauðarefsingar.
Mannréttindanefndin hittist að jafnaði þrisvar á ári, ýmist í New York eða Genf, og fjallar þá um skýrslur aðildarríkja, kærumál einstaklinga og beiðnir um upptöku mála.

Alþjóðasamningurinn um afnám allrar kynþáttamismununar (Convention on the Elimination of All Forms of Racial Discrimination) gekk í gildi 1969. Í nefndinni eiga 18 fulltrúar sæti og nefndin fundar yfirleitt í Genf tvisvar á ári í þrjár vikur í senn.

Alþjóðasamningurinn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi (International Convention on Economic, Social and Cultural Rights) gekk í gildi 1976. Nefndin sem starfar á grundvelli samningsins kemur saman tvisvar á ári í Genf.

Samningurinn um réttindi barna (Convention on the Rights of the Child) var samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1989. Af Íslands hálfu var samningurinn fullgiltur 1992. Sameinuðu þjóðirnar standa nú að sérstakri framkvæmdaáætlun til eflingar samningsins um réttindi barnsins, sem Ísland hefur styrkt sérstaklega með fjárframlagi.

Samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum (Convention on the Eliminations of All Forms of Discrimination against Women) var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1979 og gekk í gildi 1981. Ísland fullgilti samninginn í júní 1985.

Alþjóðasamningur gegn pyntingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (Convention against Torture and Other Cruel, Inhuman or Degrading Treatment or Punishment) var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1984 og gekk í gildi 1987. Ísland fullgilti samninginn 1996.

Flóttamannastofnun S.þ.

(Office of the High Commissioner for Refugees - UNHCR)

Office of the High Commissioner for Refugees - UNHCR

Samningur um réttarstöðu flóttamanna var grundvöllurinn að embætti flóttamannafulltrúa S.þ. Ísland gerðist aðili að samningnum 1. mars 1956.  Flóttamannastofnun S.þ. sinnir vernd og aðstoð við flóttamenn  Verkefnin verða æ viðameiri með ári hverju. Árið 1976 töldust flóttamenn vera 2,8 milljónir en árið 2005 hafði UNHCR afskipti af 19,2 milljónum flóttamanna og fólki sem hafði flosnað upp vegna átaka heima fyrir. Flestir þeirra eru í þróunarríkjum. Skrifstofa flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna er rekin með frjálsum framlögum og hefur Ísland lagt þar sitt af mörkum.

Afvopnunarráðstefna S.þ.

(United Nations Conference on Disarmament - CD)

Afvopnunarráðstefna Sameinuðu þjóðanna var sett á laggirnar af allsherjarþingi SÞ árið 1978 og hefur þjónað sem helsti fjölþjóðlegi vettvangur samningaviðræðna um afvopnunarmál frá þeim tíma. Nú eru 65 aðildarríki, en Ísland hefur átt áheyrnaraðild að ráðstefnunni frá því í ársbyrjun 1996.

Afvopnunarráðstefnan og forverar hennar hafa gert fjölda mikilvægra alþjóðasamninga undanfarin ár, m.a. í því skyni að banna kjarnorkutilraunir, notkun jarðsprengja gegn fólki, lífefnavopn og eiturefnavopn.  Afvopnunarráðstefnan hefur undanfarið einbeitt sér að því að koma í veg fyrir kjarnorkustyrjaldir, vígbúnaðarkapphlaup á sviði kjarnaorku og slíkra efna og að takmarka vígbúnað í geimnum, auk kjarnorkuafvopnunar í víðu samhengi. 

Efnahagsnefnd Evrópu

(Economic Commission for Europe - UNECE)

Economic Commission for Europe - UNECE

Efnahagsnefnd Evrópu (Economic Commission for Europe - ECE) var sett á stofn 28. mars 1947 af Efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðannna (ECOSOC) og er hlutverk hennar að stuðla að hagvexti og samstarfi milli þeirra 55 ríkja sem aðild eiga að henni.  ECE er ein fimm svæðisbundinna nefnda innan S.þ. þar sem rædd eru málefni á sviði flutninga, viðskipta, umhverfis og unnið að samningum og samræmdum reglum um þau efni, auk þess að veita tölfræðilegar upplýsingar, greiningu á umhverfis- og efnahagsmálum.

Viðskipta- og þróunarráðstefna S.þ.

(United Nations Conference on Trade and Development - UNCTAD)

United Nations Conference on Trade and Development - UNCTAD

Grundvallarmarkmið UNCTAD er að tryggja hagsmuni þróunarríkja í alþjóðlegum viðskiptum og stuðla að efnahagslegri þróun þeirra. UNCTAD er helsti vettvangur SÞ fyrir umræður um viðskipti og þróunarmál.

Starfsáætlun fyrir UNCTAD er ákveðin á sérstökum þingum sem haldin eru fjórða hvert ár. Fyrsta þingið var haldið í Genf þegar UNCTAD var sett á laggirnar árið 1964. Þing þessi hafa tekið starfsemi UNCTAD til gagngerrar endurskoðunar á síðustu árum til að aðlaga hlutverk ráðstefnunnar að breyttum tímum. Hefur skilvirkni ráðstefnunnar sem vettvangur þróunarsamstarfs og frjálsræðis í viðskiptum þannig verið bætt til muna. Á milli þinga fer viðskipta- og þróunarráðið (Trade and Development Board - TDB) með æðstu völd UNCTAD og kemur það saman hálfsárslega. Ísland hefur átt aðild að UNCTAD frá upphafi en tók fyrst sæti í TDB á árinu 1996.

Alþjóðanefnd Rauða krossins

International Committee of the Red Cross (ICRC)

Alþjóðanefnd Rauða krossins er sjálfstæð og hlutlaus og vinnur að mannúðarstarfi og aðstoð til fórnarlamba stríðs og ofbeldis. Alþjóðanefndin hefur varanlegt umboð samkvæmt alþjóðalögum til að gæta hagsmuna fanga, særðra, sjúkra og almennra borgara sem verða fyrir áhrifum af stríðsátökum.

Höfuðstöðvar Alþjóðanefndar Rauða krossins eru í Genf og er alþjóðanefndin samræmingaraðili landsfélaga sem starfa víða um heim undir merkjum Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Fastanefnd fylgist með málefnum Alþjóðanefndarinnar og á jafnramt gott samstarf við fulltrúa Rauða krossins á Íslandi sem sækja fundi í Genf.International Committee of the Red Cross

Aðrar alþjóðastofnanir í Genf

ITU - Alþjóðafjarskiptasambandið

(International Telecommunication Union - ITU)

International Telecommunication Union - ITU

Alþjóðafjarskiptasambandið var stofnað árið 1865. Árið 1947 var sambandið gert að einni af sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna. Ísland varð aðili að því á alþjóðafjarskiptaráðstefnu í Atlantic City 2. október 1947. Fullgildingarskjal Íslands var afhent 1. janúar 1949. Alþjóðafjarskiptasambandið hefur starfað í Genf frá 1948.

Starfsumhverfi stofnunarinnar hefur breyst verulega á undanförnum árum. Kemur þar bæði til tenging tölvutækni og upplýsingamiðlunar við fjarskiptakerfi og aukin einkavæðing símaþjónustu. Nauðsyn alþjóðlegs samstarfs um úthlutun tíðnisviða í fjarskiptum, notkun gervihnatta og samræmingu tækjabúnaðar er þó síst minni nú en áður. Stofnunin hefur einnig veitt þróunarríkjum aðstoð og ráðgjöf í fjarskiptamálum.

Aðalráðstefna ITU er haldin á fjögurra ára fresti. Stofnunin stendur einnig fyrir ráðstefnum, málþingum og sýningum af ýmsu tagi. Umfangsmest er fjarskiptasýningin TELECOM, sem haldin er á fjögurra ára fresti og telst til meiri háttar viðburða sem dregur að tugþúsundir þátttakenda, bæði úr opinberri þjónustu og einkageiranum.

WHO - Alþjóðaheilbrigðisstofnunin

(World Health Organization - WHO)

World Health Organization - WHO

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) er sérstofnun Sameinuðu þjóðanna um heilbrigðismál. WHO var stofnuð 7. apríl 1948. Markmið WHO, samkvæmt stofnskrá stofnunarinnar, er gefa öllum þjóðum kost á sem bestu heilbrigði. Heilbrigði er skilgreint í stefnuyfirlýsingunni sem líkamleg, andleg og félagsleg velmegun, ekki aðeins það að vera laus við sjúkdóma og veikindi.

WHO er stjórnað af 192 aðildarríkjum. Alþjóðaheilbrigðisþingið (World Health Assembly), sem er árlegt, er sótt af fulltrúum aðildarríkjanna. Helstu verkefni Alþjóðaheilbrigðisþingsins eru að samþykkja framkvæmda- og fjárhagsáætlun næstu tveggja ára og ákveða meginstefnumarkmið. Heilbrigðis- og tryggingaráðuneyti tekur virkan þátt í starfsemi stofnunarinnar og átti ráðuneytisstjóri þess sæti í framkvæmdastjórn WHO 2003-2006 fyrir Íslands hönd.

WIPO - Alþjóðahugverkastofnunin

(World Intellectual Property Organization - WIPO)

World Intellectual Property Organization - WIPO

Alþjóðahugverkastofnunin á rætur sínar að rekja til Parísarsamningsins frá 1883 um vernd hugverka í iðnaði og Bernarsamningsins frá 1886 um vernd bókmennta og listaverka. Stofnsamningur í núverandi mynd gekk hins vegar ekki í gildi fyrr en 1970 og stofnunin telst til sérstofnana Sameinuðu þjóðanna frá 1974.

Hlutverk Alþjóðahugverkastofnunarinnar er að efla vernd hugverka og alþjóðlegt samstarf á því sviði. Stofnunin sér um rekstur fjölmargra alþjóðlegra samninga um hugverkaréttindi og skráningu hugverkaréttinda, jafnt á sviði uppfinninga og iðnhönnunar sem bókmennta og lista. Megintekjustofn er skráningargjöld og er stofnunin því rekin að mjög takmörkuðu leyti með framlögum aðildarríkja. Aðstoð og ráðgjöf til þróunarlanda hefur verið mjög vaxandi hluti starfsemi stofnunarinnar undanfarin ár.  Ísland er aðili að flestum þeim samningum sem WIPO hefur umsjón með og hefur á undanförnum árum staðfest marga þeirra, m.a. vegna skuldbindinga í EES samningnum. Einkaleyfastofa og menntamálaráðuneyti fara með málefni WIPO á Íslandi og fylgjast með starfinu á alþjóðavettvangi.

WMO - Alþjóðaveðurfræðistofnunin

(World Meteorological Organization - WMO)

World Meteorological Organization - WMO

Alþjóðaveðurfræðistofnunin var stofnsett árið 1950 og tók þá við af alþjóðlegum félagssamtökum um veðurfræði sem starfað höfðu frá 1873. Alþjóðaveðurfræðistofnunin varð ein af sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna 1951. Hlutverk stofnunarinnar er að greiða fyrir alþjóðlegu samstarfi um veðurfarsrannsóknir og auðvelda veðurstofum að skiptast á nauðsynlegum upplýsingum. Stofnunin hefur fengið margvísleg ný verkefni á undanförnum árum, m.a. þau að fylgjast með loftslagsbreytingum vegna gróðurhúsaáhrifa og mengunar.

Aðalráðstefna stofnunarinnar er haldin á fjögurra ára fresti. Veðurstofa Íslands fylgist með og tekur þátt í starfi stofnunarinnar.

ILO - Alþjóðavinnumálastofnunin

(International Labour Organization - ILO)

International Labour Organization - ILO

Alþjóðavinnumálastofnunin var stofnuð árið 1919 og varð fyrsta sérstofnun Sameinuðu þjóðanna árið 1946. Markmið stofnunarinnar um félagslegt réttlæti og alþjóðlega viðurkennd mann- og vinnuréttindi byggjast á stofnskrá samtakanna og Fíladelfíuyfirlýsingunni frá 1944. Meginviðfangsefni stofnunarinnar eru almenn samskipti atvinnurekenda og launþega sem og aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum. Stofnunin hefur aðsetur í Genf.

Í öllum nefndum og ráðum stofnunarinnar eiga sæti tveir fulltrúar stjórnvalda, einn fulltrúi atvinnurekenda og einn fulltrúi launþega. Þessi skipan um samstarf fulltrúa ríkisstjórna og aðila vinnumarkaðarins skapar Alþjóðavinnumálastofnuninni sérstöðu meðal annarra stofnana innan Sameinuðu þjóða kerfisins. Starf hennar byggist á alþjóðasamþykktum (conventions) og tillögum (recommendations). Sérstök nefnd alþjóðavinnumálaþingsins fylgist með framkvæmd ofangreindra samþykkta og tillagna og að aðildarríkin standi við skuldbindingar sínar samkvæmt samþykktunum.

Meðal meginviðfangsefna Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í dag er barátta gegn vaxandi atvinnuleysi, aðgerðir til fjölgunar starfa, réttindi heimavinnandi fólks, aðbúnaður og heilsugæsla námuverkamanna, aðgerðir gegn nauðungarvinnu, félagafrelsi, stefnan í atvinnumálum, öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi svo og afnám nauðungarvinnu barna.

Á vettvangi stofnunarinnar hafa íslensk stjórnvöld lagt áherslu á aðgerðir gegn atvinnuleysi jafnframt því að vekja athygli á breytingum á vinnumarkaði í kjölfar skipulagsbreytinga í atvinnulífinu. Auk áherslunnar á aukna efnahagssamvinnu hafa íslensk stjórnvöld stutt stofnunina í baráttu gegn vinnuþrælkun barna, nauðungarvinnu og mismunun til vinnu og starfa.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Veldu tungumál

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira