Hoppa yfir valmynd
24. september 2020 Brussel-vaktin

Farsóttin aftur í vexti

Stefnumótun hjá Evrópusambandinu og starf fastanefndarinnar í Brussel við að gæta hagsmuna Íslands.

Tillaga framkvæmdastjórnarinnar um samhæfingu aðgerða á landamærum

Þróun mála síðsumars hefur fært Evrópubúum heim sanninn um að baráttan við farsóttina er langt í frá að baki. Vorið hafði einkennst af ákveðinni bjartsýni vegna þess að harðar aðgerðir höfðu náð að draga mjög úr smitum og ferðalög milli landa gátu hafist á ný. En þegar leið á sumarið tók faraldurinn sig víðast hvar upp að nýju. Aftur var farið að grípa til takmarkana á för milli EES-ríkja.

Framkvæmdastjórn ESB hefur gefið tóninn um að nú þurfi að samræma betur aðgerðir á landamærum til að varðveita ferðafrelsi eins og hægt væri. Tillaga hennar í þessu efni kom fram 4. september sl., ec.europa.eu/commission/presscorner/detail/en/IP_20_1555. Þar er lagt til að Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) fái það hlutverk að framkvæma sameiginlegt áhættumat fyrir aðildarríkin. Gefa beri út kort með litum sem endurspegli stöðu farsóttarinnar í hverju landi eða á hverju svæði. Horft verði þar til smittíðni undanfarna 14 daga, fjölda sýna sem tekin eru og hlutfalls jákvæðra sýna af heildarfjölda rannsakaðra sýna. Aðgerðir aðildarríkjanna sem hefti för milli landa þurfi að taka mið af þessu þannig að í grunninn verði einungis gerð krafa um sóttkví eða sýnatöku hjá farþegum sem koma frá rauðmerktum löndum.

Tillagan hefur fengið stuðning meðal annars frá samtökum í ferða- og flutningageiranum: aci-europe.org/downloads/content/Joint%20Industry%20Letter%20to%20EC%20President%2017%20September%202020%20-%20final.pdf

Ráðherraráðið fjallar um tillögu framkvæmdastjórnarinnar

Tillaga framkvæmdastjórnarinnar hefur síðan verið til umfjöllunar hjá ráðherraráðinu. Efnisleg umræða fer fram í sérfræðingahópi sem kallast Integrated Political Crisis Arrangements (IPCR) en reglulega eru línur einnig lagðar á fundum fastafulltrúa ESB ríkjanna auk Íslands, Noregs, Liechtenstein og Sviss. Ákveðið var í upphafi að nálgast málið skref fyrir skref og byrja á því sem væntanlega væri auðveldara að ná samkomulagi um, þ.e. gagnasöfnun og áhættumati ECDC, áður en farið yrði að ræða aðgerðir aðildarríkjanna á grundvelli áhættumats.

Ljóst er að það er langt í land að samstaða náist um aðgerðir á grundvelli áhættumats enda leggja mörg ríki áherslu á forræði sitt á sóttvarnaráðstöfunum. Sum ríki eru hins vegar þegar farin að laga sína stefnu að tillögum framkvæmdastjórnarinnar, sbr. belgísk stjórnvöld, sem tilkynntu 22. september sl. að ekki yrði lengur bannað að ferðast til rauðmerktra svæða þótt sterklega væri varað við því, sjá brusselstimes.com/news/belgium-all-news/132385/how-belgium-lifting-its-travel-ban-for-red-zones-impacts-travellers/.

Sýnatökustefna vegna Covid-19

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf 17. september sl. út tilmæli um sameiginlega nálgun á sýnatökur vegna Covid-19 ec.europa.eu/health/sites/health/files/preparedness_response/docs/common_testingapproach_covid-19_en.pdf. Skjalið er byggt á svörum aðildarríkjanna auk Noregs, Bretlands, Sviss, Bosníu-Herzegóvínu og Úkraínu við spurningalista heilsuöryggisnefndar Evrópusambandsins. Þar kemur meðal annars fram að fimm ríki geri kröfu um að komufarþegar forskrái sig líkt og gildir á Íslandi. Þetta eru Belgía, Frakkland, Írland, Ítalía og Lettland. Á Írlandi gildir að þeir sem sleppa því að fylla út slíkt eyðublað eigi yfir höfði sér sektir allt að 375.00 kr. eða fangelsi í allt að sex mánuði.

Þá er mælt með því að Evrópuríki hugi að því á haustmánuðum að þörf muni verða á því að taka sýni vegna inflúensu. Það kunni að kalla á aukna forgangsröðun við sýnatöku vegna Covid-19. Jafnframt sé hyggilegt að nota sem mest fjölþætt PCR-próf sem geti greint ýmsar öndunarfærasýkingar í sama sýninu, þar á meðal Covid-19 og inflúensu.

Í upphafi faraldursins voru mörg ríki að glíma við skort á búnaði til að anna sýnatöku í samræmi við eftirspurn. Það breyttist þegar leið á árið þótt enn sé mikill munur milli landa á því hversu auðvelt aðgengi að sýnatöku er. Upp á síðkastið er aftur farið að bera á því að flöskuhálsar séu að koma upp og biðtími eftir niðurstöðum úr sýnatöku að lengjast.

Evrópska sóttvarnastofnunin hefur líka nýlega gefið út leiðbeiningar um sýnatökustefnu, sjá www.ecdc.europa.eu/en/publications-data/covid-19-testing-strategies-and-objectives.

Evrópuþingið ályktar um frjálsa för

Evrópuþingið ályktaði 17. september sl. um samhæfingu áhættumats vegna Covid-19 og afleiðingar fyrir Schengen-samstarfið og innri markaðinn (www.europarl.europa.eu/doceo/document/TA-9-2020-0240_EN.html). Lýst er yfir áhyggjum af því að ólík viðbrögð aðildarríkjanna við aukningu smita upp á síðkastið og takmarkanir á frjálsri för milli landa skerði verulega grundvallarréttindi almennings og raski innri markaðinum. Sum ríki hafi lokað landamærunum að mestu, önnur krefjist sóttkvíar við komu til landsins sem sé mismunandi löng, í einhverjum tilvikum sé krafa um neikvætt PCR-próf, en mismunandi hve gamalt það megi vera, forskráning, þar sem hennar er krafist, sé mismunandi, mat á áhættu frá ólíkum svæðum álfunnar sé ósamræmt og engin sameiginleg nálgun varðandi notkun á grímum.  Kallað er eftir því meðal annars að ein sameiginleg stefna ríki um sýnatökur og að niðurstöður séu viðurkenndar af öllum aðildarríkjum. Þá sé æskilegast að sýnataka fari fram fyrir brottför og ríkin þurfi að koma sér saman um lista yfir stjórnvöld sem geti staðfesta áreiðanleika vottorða. Lýst er yfir stuðningi við frumkvæði framkvæmdastjórnarinnar í þessum efnum, sbr. hér fyrir ofan.

Stefnuræða von der Leyen

Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen flutti stefnuræðu í Evrópuþinginu 17. september. Tæpt ár er liðið frá því hún tók við embætti og setti strax umhverfismál og stafrænu umskiptin rækilega á dagskrá sem tvo höfuðása í starfsáætlun framkvæmdastjórnarinnar. Óhætt er að slá því föstu að báðir þessir pólar standi óhaggaðir í stefnu forsetans enda áréttaði hún að heimsfaraldurinn hefði í raun ljáð þeim báðum aukið vægi. „Ímyndið ykkur hvernig það hefði verið að takast á við faraldurinn áður en upplýsingatæknin kom til," brýndi hún fyrir þingheimi og nýtti samhengið til að árétta að fylgja þyrfti fast eftir stefnumörkun um þróun upplýsingasamfélagsins. Faraldurinn hafi í raun hraðað stafrænni nýsköpun og brýnt sé að auka fjárfestingu í geiranum. Lagði hún til að 8 milljörðum evra verði varið til að þróa nýja kynslóð ofurtölva og að næsti áratugur verði helgaður stafrænni framþróun: Europe's digital decade.

Sama eigi við um loftslagsvána þar sem afleiðingarnar af því að bregðast ekki við náttúruvá í tæka tíð blasi þegar við í heimsfaraldrinum. Með skírskotun til þess lagði hún til að dregið verði úr losun gróðurhúslofttegunda hraðar en áður var stefnt að eða um 55% í stað 40% fyrir árið 2030. Jafnframt lagði hún til að 37% af 750 milljarða evra Bjargráðasjóði ESB myndi renna til að fjármagna Græna sáttmálann. Það er og í takt við það sem þingið hefur kallað eftir og leiðtogafundurinn í júlí tók undir. 

Nánar um loftslagsmálin

Í ræðu von der Leyen kom fram að meginmarkmiðið sé að Evrópa verði fyrsta kolefnishlutlausa heimsálfan fyrir árið 2050. Eftir nánari skoðun, sem fram fór m.a. með víðtæku mati á áhrifum og samráði, legði framkvæmdastjórn ESB til að markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 yrði hækkað í að lágmarki 55%. Ljóst væri að hækkun markmiðs úr 40% í 55% væri mjög stórt stökk fyrir sum ríki ESB en ekki nægjanlega stórt stökk fyrir önnur ríki ESB. Mat á áhrifum sýndi hins vegar að efnahagur og iðnaður sambandsins gæti tekið á sig og væri tilbúinn til þess að hækka markmið um samdrátt. Í því sambandi vísaði VDL til þess að henni hefði borist bréf frá u.þ.b. 170 forkólfum í viðskiptalífi og iðnaði sem kalli á að markmið um samdrátt í losun verði sett í a.m.k. 55% (www.corporateleadersgroup.com/reports-evidence-and-insights/pdfs/business-and-investor-ceo-letter-on-eu-2030-ghg.pdf/view ).

Þá greindi hún frá því að innan ESB sé unnið að gerð fyrirkomulags til að mæta „kolefnisleka“ út fyrir Evrópusambandið. Fyrirkomulaginu er ætlað að bregðast við þeim aðstæðum að eftir því sem sambandið dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda er meiri hætta á að skaðleg starfsemi flytjist út fyrir Evrópusambandið eða að vörur sem eru framleiddar innan sambandsins lúti í lægra haldi fyrir innfluttum vörum með meira kolefnisspor. Við þessu má bregðast með því að leggja gjald á innflutning til þess að tryggja að verð á innfluttri vöru endurspegli kolefnisspor hennar. 

Með því að ná markmiði um a.m.k. 55% samdrátt í losun fyrir árið 2030 verði markmið um kolefnishlutlausa Evrópu fyrir árið 2050 raunhæfari auk þess sem skyldum Parísarsáttmálans verði frekar mætt. Ef önnur ríki heims feta í fótspor ESB þá mun verða mögulegt að halda hækkun hitastigs jarðar undir 1,5 °C. 

Öll löggjöf ESB er varðar lofslags- og orkumál verður að sögn forseta framkvæmdastjórnarinnar endurskoðuð fyrir næsta sumar (sumar 2021) þannig að hún verði „í formi fyrir 55“ ( e. fit for 55). ESB mun auka viðskipti með losunarheimildir, auka notkun endurnýjanlegrar orku ásamt því að bæta orkunýtni og endurskoða orkuskatta.

Ný stefna framvæmdastjórnar ESB í útlendingamálum

Ný stefna framkvæmdarstjórnar ESB var birt 23. september 2020 og fylgja stefnunni alls 11 tillögur.  Ber þar helst til tíðinda að lagt er til að fyrirliggjandi tillaga að breytingum á Dyflinnarreglugerðinni verði dregin til baka og að tekið verði upp nýtt kerfi fyrir meðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Nýtt kerfi á að stuðla að sanngjarnri samábyrgð aðildarríkja á umsóknum um alþjóðlega vernd, skilvirkari málsmeðferð við meðferð umsókna og brottvísanir og forskoðun umsókna um alþjóðlega vernd á ytri landamærum Schengen-svæðisins svo tryggja megi þeim alþjóðlega vernd sem þurfa á henni að halda fljótt og örugglega. Nýja stefnu framkvæmdarstjórnarinnar og tillögur henni tengdar má sjá hér: ec.europa.eu/commission/presscorner/detail/en/ip_20_1706

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum