Hoppa yfir valmynd
30. október 2020 Brussel-vaktin

Covid-19 efst á baugi en stefnumótun á öðrum lykilsviðum tekin að skýrast

Stefnumótun hjá Evrópusambandinu og starf fastanefndarinnar í Brussel við að gæta hagsmuna Íslands.

Vonir bundnar við skyndipróf og bóluefni

Í ljósi þess að farsóttin hefur verið á uppleið hvarvetna í álfunni síðustu vikur ákvað framkvæmdastjórn ESB að gefa út tilkynningu, 28. okt. sl., þar sem gefið er yfirlit yfir fyrirhugaðar aðgerðir sambandsins á þessu sviði. Fram kom í máli Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnarinnar, að aðildarríkin glímdu ekki einungis við farsóttina heldur einnig minnkandi langlundargeð almennings. En nú væri ekki rétt tíminn til að slaka á. Búast mætti við miklum vexti í farsóttinni á næstu vikum, önnur bylgjan væri risin af miklum krafti. Ljóst er að mikilvægustu ákvarðanirnar á þessu sviði eru teknar af stjórnvöldum í hverju ríki en framkvæmdastjórnin getur stuðlað að samhæfingu og gagnkvæmri aðstoð.

Á blaðamannafundi í kjölfar leiðtogafundar 29. október sl. sem fram fór með fjarfundabúnaði, staðfesti Charles Michel, forseti ráðherraráðsins, að umræðan þar hefði einkum snúist um samræmdar aðgerðir tengdar sýnatöku og rakningu annars vegar og dreifingu bóluefnis hins vegar. Hann sagði ríkan vilja vera meðal leiðtoganna að vinna samhent og einhuga að því að vinna bug á aðsteðjandi vanda. Í því skyni væru þeir reiðubúnir að fjalla áfram um tillögu framkvæmdastjórnarinnar að stefnumörkun um sýnatöku (Recommendation on Covid-19 testing strategies, including the use of rapid antigen tests), gagnkvæma viðurkenningu sýnatökuvottorða, samvirkni rakningarappa, samræmt form fyrir skráningu farþega og samræmda lengd sóttkvíar.

Varðandi bóluefni sagði Michel leiðtogana einnig vera einhuga um að vinna áfram að viðmiðum um jafnræði við dreifingu bóluefnis, skiptast á upplýsingum um forgangsröðun í hverju ríki um sig og undirbúa viðeigandi aðstæður og aðbúnað fyrir flutning og miðlun efnisins.

Von der Leyen gerði nánar grein fyrir næstu skrefum á eftirfarandi hátt:

  • að öflun og miðlun þeirra upplýsinga sem aðildarríkin láti Evrópsku sóttvarnastofnuninni í té (ECDC) verði samræmd,
  • að komið verði upp vettvangi þar sem sérfræðingar stjórnvalda í aðildarríkjunum og Evrópusambandsins geti skipst á upplýsingum,
  • að hraðað verði eins og kostur er að votta og samræma hraðvirku sýnatökuna (antigen testing), með því móti verði gagnkvæm viðurkenning vottorða möguleg og greitt verður fyrir nauðsynlegum ferðum milli landa, en framkvæmdastjórnin hefur þegar fest kaup á skyndiprófum fyrir 100 milljónir evra sem útdeilt verður til aðildarríkjanna,
  • að greiða fyrir að mismunandi rakningaröpp verði samvirk og gagnist til rakningar yfir landamæri. Að svo stöddu séu eingöngu 3 öpp af 22 samstillt en stefnt verði að því hin 19 verði einnig stillt saman í næsta mánuði.
  • að farþegaskráning verði samræmd (passenger locator form). Í því skyni verði sett af stað tilraunaverkefni í nóvember en fyrir lok árs verði öll form orðin samræmd. Að svo stöddu séu 11 mismunandi form í gangi.

Varðandi bóluefni sagði Von der Leyen:

  • Að löggildingu þeirra verði hraðað eins og kostur er án þess að slegið verði af kröfum til nákvæmni og öryggis. Áður hafði komið fram hjá henni að í besta falli væri hægt að byrja bólusetningu í stórum stíl í apríl 2021.
  • Að dreifing þeirra lúti sjónarmiðum um jafnræði þannig að allir fái bóluefni á sama tíma og með sömu skilyrðum. Jafnframt þurfi aðildarríkin að huga að innviðum í samræmi við blueprint sem framkvæmdastjórnin láti í té.
  • Framkvæmdastjórnin hafi þegar gert forkaupssamninga við þrjú lyfjafyrirtæki og samningar við þrjú önnur séu í burðarliðnum. Einnig sé von á einu til viðbótar. Bóluefnin munu koma í áföngum og ekki öll á sama tíma.

Tillaga framkvæmdastjórnarinnar um samræmda nálgun á ferðatakmarkanir

Ráðherraráð Evrópusambandsins samþykkti 13. október síðastliðinn tilmæli um samræmda nálgun á ferðatakmörkunum (e. Council Recommendation on a coordinated approach to the restriction of free movement in response to the COVID-19 pandemic). Tilmælin byggjast á tillögu framkvæmdastjórnar ESB frá 4. september sl. sem greint var frá í síðasta fréttabréfi.

Tilmælin, sem ekki eru bindandi, byggja á því að forræði á sóttvarnaaðgerðum er fyrst og fremst hjá aðildarríkjunum. Hins vegar beri að leitast við að samræma nálgun til að hefta ferðafrelsi sem minnst.

Í tilmælunum er kveðið á um tiltekin lykilviðmið þegar ákvörðun er tekin um að hefta frjálsa för vegna COVID-19 faraldursins: a) 14 daga nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa; b) hlutfall jákvæðra sýna af heildarfjölda tekinna sýna undanfarna viku; c) svonefnt „sýnatökuhlutfall“, þ.e. fjöldi sýna sem tekinn er á hverja 100.000 íbúa undanfarna viku.

Á grundvelli upplýsinga frá aðildarríkjunum birtir Sóttvarnastofnun Evrópu vikulega sérstakt marglitt kort yfir aðildarríkin, sundurgreint eftir svæðum, þar sem fram kemur hversu mikil smithætta er á hverju svæði fyrir sig. Kortið byggi einnig á upplýsingum frá Íslandi, Liechtenstein og Noregi.

Þær meginreglur gilda síðan samkvæmt tilmælunum að ekki sé heimilt að beita takmörkunum (t.d. sóttkví eða sýnatöku) á för einstaklinga frá „grænum“ svæðum og sóttkví skuli ekki beitt gagnvart einstaklingum sem ferðast í nauðsynlegum tilgangi. Þá er gert ráð fyrir gagnkvæmri viðurkenningu á niðurstöðum sýnatöku vegna Covid-19 sem framkvæmd er af vottuðum aðilum og að þróað verði evrópskt forskráningarform (e. Passenger Locator Form).

Þá er gert ráð fyrir að aðildarríkin taki tillit til sérstöðu tiltekinna svæða, m.a. vegna landfræðilegrar einangrunar.

Næstu skref

EFTA ríkin þrjú eru nú að skoða hvort ástæða sé til að tilmælin verði hluti af EES-samningnum. Einnig er ráðherraráð ESB að athuga hvort eðlilegt sé að líta á tilmælin sem þróun á Schengen-regluverkinu. Við undirbúning tilmælanna var þeirri afstöðu íslenskra stjórnvalda komið á framfæri að aukið samstarf í þessu efni væri æskilegt, til dæmis að því er varðar miðlægt áhættumat ECDC, gagnkvæma viðurkenningu vottorða og forskráningu farþega. Nálgunin á Íslandi nú væri hins vegar að sumu leyti önnur en tilmælin ganga út frá. Þannig lytu nú allir komufarþegar til landsins sömu reglum óháð því hvaðan þeir koma og óháð tilgangi farar. Endanlegt forræði yfir sóttvörnum væri hjá hverju ríki og hafa þyrfti í huga mismunandi aðstæður, t.d. landfræðilega legu.

Peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Nýverið bárust þau gleðitíðindi að Ísland yrði fjarlægt af hinum svokallaða „gráa lista“ FATF, en það eru alþjóðleg samtök ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem Ísland hefur átt aðild að frá 1992. Samtökin hafa m.a. eftirlit með eftirfylgni og framkvæmd reglna sem ætlað er að uppræta og koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverka með peningaþvætti. Til að þrýsta á um tilteknar umbætur á Íslandi var það sett á gráan lista í september í fyrra og hefur því setið þar í liðlega ár, eftir að samtökin komust að þeirri niðurstöðu að þrjár aðgerðir stæðu enn út af hvað úrbætur varðaði. Þær voru:

Aðgangur að upplýsingum um raunverulega eigendur. Skrá hjá ríkisskattstjóra.

Upplýsingakerfi og fleiri starfsmenn á skrifstofu fjármálagreininga hjá lögreglu.

Eftirlit með eftirfylgni við þvingunaraðgerðir og yfirsýn yfir starfsemi almannaheillafélaga.

Í kjölfar vettvangsathugunar FATF í lok september var það staðfest af hálfu sérfræðinga samtakanna að þær aðgerðir sem Íslandi var gert að grípa til í því skyni að komast af umræddum lista væru fullnægjandi og ríkur pólitískur vilji hjá íslenskum stjórnvöldum til að halda áfram vinnu við að styrkja varnir Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Íslensku lögin um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, með síðari breytingum, byggja að meginstofni til á fjórðu tilskipun ESB um sama efni og að hluta á þeirri fimmtu (the Fourth and Fifth Anti- Money Laundering Directive). Sú síðarnefnda tók gildi í byrjun ársins í aðildarríkjum ESB og var síðan tekin upp í EES-samninginn um mitt þetta ár.

Markmið hennar er að auka enn frekar á gagnsæi reglnanna sem um eftirlit með peningaþvætti gilda, auk þess að herða á sektarákvæðum þeirra. Þá er í fyrsta sinn komið inn ákvæði um rafmyntir og eigendur þeirra sem þurfa að lúta sömu skyldum og eftirliti og hefðbundnar myntir. Reglur og eftirlit með fyrirframgreiddum debit- og kreditkortum eru líka hertar og mega nú ekki vera hærri en 150 evrur í stað 250 evra. Ljóst er af þessu að ESB er full alvara með að herða eftirlit með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og loka þeim götum (loopholes) sem í ljós hafa komið, m.a. með nýrri tækni, auk þess að hækka verulega viðurlög við slíkum brotum. Mikil ábyrgð og auknar skyldur í formi upplýsingagjafar til eftirlitsaðila eru lagðar á þau fyrirtæki sem sýsla með fjármuni, ekki bara hefðbundin fjármálafyrirtæki, heldur einnig ýmsar fagstéttir eins og endurskoðendur, lögfræðinga, fasteignasala o.fl. Reynsla síðustu ára með tilheyrandi óánægju almennings hefur leitt í ljós að veruleg þörf var á að breikka eftirlitssviðið og sömuleiðis að samræma betur aðgerðir milli ríkja.

Aðgerðum ESB á þessu sviði er þó engan veginn lokið. Í maí sl. birti framkvæmdastjórn ESB áætlun sína um frekari aðgerðir, einkum gegn þriðju ríkjum þar sem hætta á peningaþvætti er mikil (e. high-risk) https://ec.europa.eu/info/publications/200507-anti-money-laundering-terrorism-financing-action-plan_en. ESB birtir „svartan“ lista yfir þessi ríki en ekki gráan lista eins og FATF. Nokkur munur getur verið á þessum listum en þeir eru í sífelldri endurskoðun. Sama gildir um aðferðafræðina að baki þeim.

Það sem helst er talið hamla í baráttunni gegn peningaþvætti innan ESB er ósamræmi í framkvæmd regluverksins. Það vandamál hefur m.a. komið í ljós í Covid-19 faraldrinum á undanförnum mánuðum þar sem glæpasamtök hafa verið að nýta sér ástandið. Framkvæmdastjórn ESB hefur því verið falið það hlutverk að kortleggja hvað megi betur fara varðandi frekari samræmingu framkvæmdar, betra eftirlit og samstilltari aðgerðir aðildarríkjanna, m.a. með nánara samstarfi aðila sem eru að eiga við efnahagsbrot (Financial Intelligence Units (FIUs). Jafnframt mun ESB efla tengsl sín innan FATF enn frekar. Fastlega er búist við að tillögur að lagabreytingum muni sjá dagsins ljós fyrri hluta árs 2021.

Sérfræðingar sendiráðsins/fastanefndarinnar í Brussel munu fylgjast grannt með þróuninni á þessu mikilvæga sviði næstu misserin, en það fellur undir vinnuhóp um fjármálaþjónustu (WG on financial services). Málaflokkurinn er hins vegar á forræði dómsmálaráðuneytisins á Íslandi.

Tillaga að tilskipun um lágmarkslaun

Framkvæmdastjórn ESB lagði 28. október sl. fram tillögu að tilskipun um lágmarkslaun.  Framkvæmdastjórn ESB lítur á kórónuveirufaraldurinn sem enn frekari ástæðu til þess að halda áfram að vinna að áætlun um evrópsk lágmarkslaun til þess að draga úr launabili og fátækt. Vinnumálaráðherrar Norðurlandanna hafa í tvígang skrifað bréf til framkvæmdastjórnar ESB – nú síðast í júnímánuði í kjölfar ráðherrafundar til að undirstrika að hugsanleg evrópsk lágmarkslaun mættu ekki brjóta í bága við norræna líkanið. Norrænu vinnumálaráðherrarnir lögðu áherslu á að ESB verði að styðja við samfélagslega umræðu og ákvörðun launa með kjarasamningum en ekki setja lög um lágmarklaun sem ná til landa sem þegar eru með kjarasamningakerfi sem virkar. Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt áherslu á að tillagan muni ekki hafa áhrif á kerfi þeirra landa sem byggja á kjarasamningum. Þess má geta að tillagan er ekki auðkennd svo af hálfu framkvæmdastjórnarinnar að hún varði EES.

Verkáætlun framkvæmdastjórnarinnar fyrir 2021

Framkvæmdastjórn ESB birti 19. október sl. verkáætlun sína fyrir árið 2021. Leiðarljósið er heilbrigðara og réttlátara samfélag og umbreyting þess til lengri tíma í grænna hagkerfi sem er reiðubúið fyrir stafræna öld. Þar má finna áform um löggjöf á þeim sex málefnasviðum sem tilgreind voru í pólitísku leiðarstefi framkvæmdastjórnarinnar sem forseti hennar, von der Leyen, kynnti fyrir ári síðan.  Á meðan fyrsta ár framkvæmdastjórnarinnar fór í að marka stefnu er nú boðað að tími sé kominn til að leggja fram beinharðar tillögur til útfærslu hennar.

Græni sáttmálinn

Í síðasta fréttabréfi var greint frá stefnuræðu von der Leyen í september þar sem hún fór ítarlega yfir næstu skref undir merkjum græna sáttmálans. Til stendur á næsta ári að leggja fram tillögur sem miða að 55% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030. Áhersla verður á endurnýjanlega orkugjafa, orkunýtni bygginga, landnotkun, orkuskatta, bindandi markmið um samdrátt losunar hjá hverju ríki og viðskipti með losunarheimildir. Fyrirkomulag til að bregðast við svokölluðum kolefnisleka yfir landamæri er í bígerð. Þá eru boðaðar tillögur um hringrásarhagkerfið, líffræðilega fjölbreytni og stefnuna um „frá býli til matar“.

Stafræna starfsskráin

Framkvæmdastjórnin einsetur sér að kynna á næsta ári vegvísi með markmiðum sem ná beri fyrir 2030 og varða nettengingar íbúanna, stafræna hæfni og stafræna opinbera þjónustu. Áhersla verður lögð á friðhelgi einkalífs, rétt til fjarskiptatenginga, tjáningarfrelsi, frjálst flæði gagna og netöryggi. Boðuð er löggjöf um öryggi, ábyrgð, grundvallarréttindi og gervigreind. Boðuð er tillaga um evrópskt stafrænt auðkenni. Þá er gert ráð fyrir að evrópska iðnaðarstefnan verði uppfærð í ljósi Covid-19 faraldursins og að gerð verði tillaga að löggjöf til að bæta starfsskilyrði þeirra sem vinna hjá stórum netþjónustufyrirtækjum.

Framtíðarþróun Schengen-samstarfs verður í deiglunni

Margt fleira er á dagskránni. Má þar nefna stefnu í málefnum Norðurskautsins og nýja stefnu um framtíð Schengen-samstarfsins. Útlendingamál, peningaþvætti, kynbundið ofbeldi og fjármögnun evrópskra stjórnmálaflokka eru einnig meðal málefna þar sem tillögur munu koma fram á næsta ári.

Endurnýjun bygginga til að auka orkunýtni

Framkvæmdastjórn ESB birti 14. október sl. stefnu um endurnýjun bygginga til að auka orkunýtni þeirra (e. Renovation Wave Strategy).  Markmiðið er að tvöfalda tíðni endurnýjunar bygginga í sambandinu á næstu 10 árum. Gert er ráð fyrir að allt að 35 milljónir bygginga muni ganga í endurnýjun lífdaga og að 160 þúsund græn störf verði til. Í stefnunni er sjónum fyrst beint að þremur þáttum: Brotthvarf frá kolefniseldsneyti til hitunar og loftkælingar, átak til hagsbóta þeim sem ekki hafa efni á húshitun og varðandi þær byggingar þar sem orkunýtni er lökust og loks endurnýjun opinberra bygginga. Þá er endurskoðun tilskipunar um endurnýjanlega orku á döfinni og þá einkum að herða á markmiðum um húshitun og loftklælingu með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Nýtt evrópskt Bauhaus

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB kynnti fyrir skemmstu nýtt metnaðarfullt verkefni sem á að stuðla að nýsköpun í byggingarlist og hönnun. Byggingariðnaðurinn sé ábyrgur fyrir 40% af losun gróðurhúsalofttegunda. Hefðbundin byggingarefni, steinsteypa og stál, séu gríðarlega óumhverfisvæn. Nýja verkefnið er kennt við Bauhaus sem átti uppruna sinn í Weimar 1919.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum