Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2020 Brussel-vaktin

Vonarglæta í viðureign við Covid-19

Stefnumótun hjá Evrópusambandinu og starf fastanefndarinnar í Brussel við að gæta hagsmuna Íslands.

Samningar um bóluefni

Þær jákvæðu fréttir hafa verið að berast undanfarnar vikur að bóluefni gegn Covid-19 sé í augsýn og verði komið í gagnið á næstu mánuðum. Framkvæmdastjórn ESB hóf snemma undirbúning að samræmdri stefnu og viðbrögðum við útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins og birti í júní sl. evrópsk markmið tengd bóluefni við sjúkdóminum (https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?qid=1597339415327&uri=CELEX%3A52020DC0245). Í ljósi þess að ekki var vitað hvaða bóluefni myndu standast kröfur um virkni og öryggi ákvað ESB að hafa vaðið fyrir neðan sig og hefja viðræður við nokkra aðila. Þessir lyfjaframleiðendur eru:

  • AstraZeneca
  • Janssen
  • Sanofi
  • CuraVac
  • Moderna
  • Pfizer/BioNTech
  • Reithera
  • Valneva
  • Novavax

Framkvæmdastjórn ESB hefur nú þegar undirritað samninga við sex framleiðendur, AstraZeneca, Janssen, Sanofi, Pfizer/BioNTech, CuraVac og Moderna.

Vinnuhópur undir forystu heilbrigðisráðuneytisins tók til starfa í byrjun september 2020 og hefur sinnt undirbúningi og framkvæmd á kaupum á bóluefni gegn COVID-19 sjúkdómnum. Kaup á bóluefnum fyrir Íslands hönd fara fram á grundvelli samninga Evrópusambandsins við lyfjaframleiðendur. Nánar tiltekið er það Svíþjóð sem annast samskiptin við Ísland, Noreg og Sviss (fyrir sína hönd og Liechtenstein) og mun tryggja þessum ríkjum aðgang að bóluefni með sömu skilmálum og ríkjum ESB. Svíar fá í sinn hlut skerf sem samsvarar fólksfjölda í ríkjunum fimm.

Þegar ESB hefur náð samningum við lyfjaframleiðendur taka íslensk stjórnvöld afstöðu til þess hvort gengið verði inn í þá samninga í hverju tilviki.

Fjarfundur EES-ráðsins

Kristján Andri Stefánsson sendiherra (fyrir miðju) með starfssystkinum sínum frá Noregi og Liechtenstein.

Samstarf ríkja Evrópska efnahagssvæðisins á tímum kórónuveirufaraldursins var í brennidepli á fjarfundi EES-ráðsins 18. nóvember sl. EES-ráðið kemur saman til fundar tvisvar á ári en það er skipað utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan og fulltrúum framkvæmdastjórnar og ráðherraráðs ESB. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra lagði á fundinum áherslu á að samstarf ríkjanna á Evrópska efnahagssvæðinu hafi haft mikla þýðingu í kórónuveirufaraldrinum. Það hafi m.a. náð til aðgangs að hlífðarbúnaði fyrir heilbrigðisstarfsfólk, aðgangs að lyfjum og að bóluefni í nánustu framtíð sem og samvinnu hvað varðar för yfir landamæri. Þá kom hann inn á áskoranir vegna útgöngu Breta, landbúnaðarsamning Íslands og ESB og tollfrelsi fyrir íslenskar sjávarafurðir. Sjá nánar frétt á vef utanríkisráðuneytisins.

Á myndinni er Kristján Andri Stefánsson sendiherra (fyrir miðju) með starfssystkinum sínum frá Noregi og Liechtenstein.

Efling sameiginlegs viðbúnaðar í heilbrigðismálum

Framkvæmdastjórnin kynnti 11. nóvember sl. áform um bættan viðbúnað í heilbrigðismálum í ljósi reynslunnar af Covid-19. Til stendur að styrkja Evrópsku sóttvarnastofnunina og Lyfjastofnun Evrópu. Einnig er að vænta tillögu um að komið verið fót nýrri stofnun (EU Health Emergency Response Authority).

Tilmæli vegna ferðatakmarkana verða hluti Schengen

Tilmæli ráðherraráðs Evrópusambandsins um samræmda nálgun á ferðatakmarkanir hafa nú verið tekin upp sem þróun á Schengen-regluverkinu. Ísland  á eftir að staðfesta þetta formlega fyrir sitt leyti. Þetta breytir því ekki að tilmælin eru ekki lagalega bindandi. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og ráðherraráðið vinna engu að síður áfram í því að hvetja aðildarríkin til að fara eftir þeim til dæmis að því er varðar flokkun ríkja og svæða eftir áhættu. Miðað við nýjustu kort frá Evrópsku sóttvarnastofnuninni (ECDC) er staðan á Covid-19 faraldrinum nú skást á Íslandi, Írlandi, Noregi og í Finnlandi. Nýjustu tölur benda til að daglegur fjöldi nýsmita í álfunni hafi náð hámarki í þessari bylgju en ráðamenn hafa þó áhyggjur af jólunum.

Ljóst er að lykilþáttur í viðbúnaði aðildarríkjanna eru sýnatökur og skimanir. PCR-prófin svokölluðu eru þar enn talin áreiðanlegust en þau eru ekki aðgengileg hverjum sem er og oft getur tekið nokkra daga að fá niðurstöður. Vonir eru því bundnar við þróun hraðvirkari prófa. Framkvæmdastjórnin hefur gefið leiðbeiningar í því efni og Evrópska sóttvarnastofnunin sömuleiðis. Í síðarnefnda skjalinu kemur fram að enn sem komið er ekki mælt með skyndiprófum á farþegum sem eru á leið til landa þar sem útbreiðsla smita er lítil.

Fjárhagsáætlun og bjargráðasjóður í uppnámi

Ekki hefur tekist að ljúka afgreiðslu fjárhagsáætlunar og bjargráðasjóðs ESB vegna andstöðu Pólverja og Ungverja við að greiðslur úr sjóðnum yrðu bundnar skilyrði um að viðtakendur virði meginreglur réttarríkisins. Frekar óljóst orðað skilyrði um þetta var hluti samkomulags sem tókst á fjögurra nátta fundi leiðtogaráðsins í júlí og ljóst að því var ætlað að styðja viðleitni framkvæmdastjórnarinnar að halda þessum ríkjum við ákveðnar grundvallarreglur réttarríkisins (s.s. sjálfstæði dómstóla og frjáls félagasamtök). Einnig er ljóst að ekki hafði dregið úr þýðingu þessa skilyrðis eftir meðferð málsins í Evrópuþinginu og í þríhliða samningum framkvæmdastjórnarinnar, ráðsins og Evrópuþingsins um afgreiðslu pakkans. Pólland og Ungverjaland geta reyndar ekki stöðvað að skilyrðið verði hluti pakkans og greiðslur til þeirra þannig komnar undir mati framkvæmdastjórnarinnar og ráðsins. Ákvörðun um að sækja lánsfé til að fjármagna bjargráðasjóðinn á markaði krefst hins vegar samþykkis allra (e. unanimity). Þar náðu ríkin tvö tangarhaldi á öllum pakkanum og halda því afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar og bjargráðasjóðsins upp á samtals 1.82 milljarða evra í heljargreipum á meðan.

Í yfirlýsingu sem forsætisráðherrar Ungverjalands og Póllands sendu frá sér 26. nóvember sl. kemur fram að þeir standi þétt saman í þessu efni og hvorugt ríkið muni fallast á lausnir sem hinu mislíki. Er því útlit fyrir átakafund þegar leiðtogar ESB hittast 10. og 11. desember næstkomandi.

Ný lyfjastefna

lyfjastefna Evrópusambandsins sem var kynnt 25. nóvember sl. hvílir á fjórum stoðum. Í fyrsta lagi að tryggja sjúklingum aðgang að lyfjum á viðráðanlegu verði og ráða bót á skorti á úrræðum á tilteknum sviðum (sjaldgæfir sjúkdómar og sýklalyfjaónæm). Í öðru lagi að styðja við samkeppnishæfni, nýsköpun og lífvænleg skilyrði evrópsks lyfjaiðnaðar og þróun umhverfisvænni gæðalyfja. Í þriðja lagi að auka viðbúnað í lyfjamálum þegar upp kemur neyð, til dæmis að því er varðar aðgang að lyfjum og dreifingu þeirra. Í fjórða lagi að Evrópusambandið láti til sín taka á heimsvísu með því að stuðla að metnaðarfullum gæða- og öryggisviðmiðum fyrir lyf. Stefnan gerir ráð fyrir breytingum á núverandi löggjöf á þessu sviði sem fellur undir EES-samninginn. Tillagan var kynnt í sérfræðinganefnd ráðsins 27. nóvember.

Tillaga að reglugerð um aukið aðgengi að gögnum

Framkvæmdastjórn ESB birti 25. nóvember sl. nýja tillögu að reglugerð um stýringu gagna (e. data governance). Er þetta fyrsti áfangi í að framfylgja nýrri gagnastefnu sem á að auðvelda nýtingu upplýsinga í verðmætasköpun. Í tillögunni, sem gert er ráð fyrir að verði hluti af EES-samningnum, er stungið upp á fyrirkomulagi sem stuðlar að því að hægt sé að endurnota opinbert gögn sem hafa hingað til hafa verið undanþegin vegna réttinda annarra (persónuauðkennanleg gögn, gögn sem lúta viðskiptaleynd eða höfundarétti). Aðildarríkin munu þurfa að koma á fót miðstöð til að styrkja nýsköpunarfyrirtæki, vísindamenn og opinberar stofnanir í að finna leiðir til að nýta gögn án þess að vega að lögmætum verndarhagsmunum. Þá er lagt til að hlutlausir gagnamiðlarar verði settir á fót til að stuðla að flæði gagna milli fyrirtækja. Sérstakt stjórnvald á síðan að hafa eftirlit með slíkri miðlunarþjónustu. Loks er hvatt til þess að gögn séu í auknum mæli gerð aðgengileg í almannaþágu. Samtök sem vinna að slíku geta fengið opinbera skráningu til þess að öðlast aukið traust samfélagsins. Evrópsk sérfræðinganefnd á síðan að aðstoða framkvæmdastjórnina við að framfylgja nýju reglugerðinni. Tillagan verður kynnt í sérfræðingahópi ráðherraráðsins 30. nóvember. Málefnið fellur undir stafrænu starfsskrána sem er á forgangslista ríkisstjórnarinnar.

Aðgerðaáætlun um hugverkarétt

Framkvæmdastjórnin kynnti nýja aðgerðaáætlun um hugverkaréttindi 25. nóvember sl. Þar eru meðal annars boðaðar aðgerðir til að einfalda aðgengi að vernd hugverka og hvetja lítil og meðalstór fyrirtæki til dáða, en einungis 9% fyrirtækja bera sig eftir því að tryggja sér vernd hugverka sem verða til í starfsemi þeirra. Þá vill framkvæmdastjórnin skoða betur að handverk fái vernd tengda uppruna líkt og landbúnaðarvörur hafa fengið (dæmi kampavín og feta-ostur). Þannig megi nýta evrópska menningararfleifð til aukinnar verðmætasköpunar.

Áhyggjur af litlum og meðalstórum fyrirtækjum

Á árlegri ráðstefnu sem kallast European Business Summit og fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins á sendiskrifstofunni í Brussel sótti var fjallað um endurreisn efnahagslífs í álfunni. Ráðstefnan fór fram 16. og 17. nóvember sl. og þar voru samankomnir framkvæmdastjórar ESB, þingmenn, fulltrúar atvinnulífs og fræðimenn af ýmsu tagi.

Mikið var rætt um að það væru lítil og meðalstór fyrirtæki (e. Small and Medium Enterprises) sem væru í mestri þörf fyrir fjármögnun í stöðunni í dag. Þar skipti stafræn þróun höfuðmáli. Talsmaður Google í Evrópu hélt því fram að fyrirtækið hefði sína sérstöku stafrænu dagskrá sem miðaði að því að gera fyrirtækið kolefnishlutlaust á árinu 2030. Stefnan væri sett á að skapa 2.000 græn störf í Evrópu á næstu árum. Jason Warner framkvæmdastjóri hjá drykkjaframleiðandanum Anheuser-Busch flutti mjög áhugavert erindi. Staðan nú væri einfaldlega „economic disaster“. Fyrirtækið væri í því að halda viðskiptavinunum á floti í stað þess að selja þeim framleiðslu sína. Engin leið væri að sjá fyrir endann á því (we can´t take the world for granted). Fjöldi starfsmanna hjá fyrirtækinu væri samtals 7.500 í Evrópu. Lagði hann ofuráherslu á nauðsyn þess að hraða allri stafrænni uppbyggingu.

Stjórnandi umræðunnar spurði hvaða aðgerðir væru brýnastar fyrir evrópsk fyrirtæki. Svarið var stuðningsaðgerðir eins og þegar hefði verið ráðist í, en það mætti ekki hætta þeim of snemma. Slíkt gæti leitt til viðbótarkreppu. Nefndi hann í því samhengi Basel III; það megi alls ekki skerða möguleika lítilla og meðalstórra fyrirtækja til að ná sér í viðbótarfjármagn eins og ástandið er. Þau eru að glíma við samanlögð áhrif frá Covid 1 og Covid 2. Þau þurfa á stuðningsfjármagni að halda, m.a. með sveigjanlegri ríkisstyrkjareglum. Einn þátttakandi tók svo sterkt til orða að 60% af öllum litlum og meðalstórum fyrirtækjum í Evrópu þyldu tæpast nema örfáar vikur í viðbót. Ferðaþjónustan hefði orðið verst úti. Útgáfa ferðatékka (e. tourist voucher) var nefnd sem ein aðgerð til að koma atvinnugreininni í gang aftur.

Sumir þátttakendur vísuðu til að draga þyrfti lærdóm af fyrri kreppu, þ.e. fjármálakreppunni. Valdis Dombrovskis sem fer með viðskiptamál í framkvæmdastjórn ESB varaði sterklega við því að ganga of langt í þeim samanburði, því í þeirri kreppu hefði „fjármálakerfið eða – markaðurinn verið vandamálið, en í þeirri sem nú gengi yfir væri fjármálakerfið hluti af lausninni“ (e. the banking sector is a part of the solution not the problem). Greiður aðgangur að fjármagni væri nauðsynlegur til að ráðast í viðbótarfjárfestingar. Jafnframt lagði hann áherslu á mikilvægi þess að vinna saman og að leysa þyrfti alþjóðleg vandamál á alþjóðavettvangi. Lokaorð hans voru að nú þyrfti að einblína á að hrinda aðgerðum í framkvæmd (e. implementation; put things in action). Það ætti að gera með framtíðina, en ekki fortíðina í huga.

Forgangslisti samþykktur í ríkisstjórn

Ríkisstjórnin samþykkti 3. nóvember lista yfir forgangsmál hagsmunagæslu Íslands gagnvart Evrópusambandinu 2020-21. Á listanum eru einkum mál sem eru í undirbúningi á vettvangi ESB og þar sem íslenskir hagsmunir eru sérstaklega í húfi. Þó eru sum málin eru lengra komin og bíða upptöku í EES-samninginn.

Tvö stærstu málefnin sem framkvæmdastjórn ESB hefur sett á oddinn eru hinn svokallaði Græni sáttmáli og Stafræna starfsskráin. Þetta endurspeglast í forgangslistanum. Aðrir málaflokkar á listanum eru matvælaöryggi, orkumál, samgöngumál, jafnréttismál, fjármálaþjónusta, peningaþvætti, rannsóknir og nýsköpun, lyfjamál, vinnumarkaðurinn, almannatryggingar og samspil sóttvarna og ferðafrelsis.

Sjá nánar frétt á vef Stjórnarráðsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum