Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2021 Brussel-vaktin

Efnahagslífið réttir úr kútnum en ýmsar blikur á lofti

Að þessu sinni er fjallað um:

  • nóvemberfund fjármála- og efnahagsráðherra ESB þar sem m.a. var skipst á skoðunum við fulltrúa EFTA-ríkjanna
  • nýja efnahagsspá fyrir evrusvæðið
  • umsögn EES EFTA-ríkjanna um stafrænu markaðslöggjöfina
  • afstöðu ráðherraráðsins til breytinga á reglum um vegagjöld
  • fjórðu Covid-bylgjuna sem rís hratt

Nóvemberfundur fjármála- og efnahagsráðherra ESB – EFTA-ríkin ná sér fyrr á strik 

Fundur fjármála- og efnahagshagsráðherra ESB sl. mánudag hófst með sameiginlegum fundi þeirra með ráðherrum EFTA-ríkjanna þar sem farið var yfir stöðu efnahagsmála eftir að Covid-19 faraldurinn hefur staðið yfir í hálft annað ár. Jafnframt var rætt um framtíðarhorfur og hvaða áskoranir og tækifæri blasi við.  Ísland gegnir nú formennsku í ráðherrahópi EFTA. Eftir kynningu ESB fór Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri, sem sat fundinn í fjarveru fjármála- og efnahagsráðherra, almennt yfir stöðuna í aðildarríkjum EFTA og síðan á Íslandi. Því næst fóru EFTA ráðherrarnir yfir stöðu efnahagsmála hver í sínu heimalandi. Svo virðist sem að efnahagsbatinn hafi verið hraðari og meiri hjá EFTA ríkjunum en hjá aðildarríkjum ESB almennt.

Efnahagsbatinn og þróun fjármálareglna ESB

Fyrsta umræðuefnið voru horfur í efnahagsmálum aðildarríkja ESB í samhengi við fjármálareglur sambandsins (e. fiscal framework). Í febrúar 2020 var kynnt nauðsynleg endurskoðun á regluverkinu, en í mars skall Covid kreppan á sem gjörbreytti öllum forsendum. Reglunum var kippt úr sambandi og nú blasir við aðildarríkjunum að ákveða hvenær þær verði virkar í ný sem og hvernig eða hvort eigi að endurskoða þær frá því sem gilti fyrir Covid. Hér sýnist sitt hverjum, eins og sést af orðum slóvenska fjármálaráðherrans; „Today, we exchanged initial views on the future of fiscal policy. It is necessary to continue discussions and try and find common ground”.

Bjargráðasjóðurinn (Recovery and Resilience Facility)

Fjármögnun Bjargráðasjóðsins var næst á dagskrá. Fyrst var farið yfir stöðuna í skilum aðildarríkjanna á endurreisnaráætlunum sínum um uppbyggingu og fjárfestingar næstu árin sem sjóðnum er ætlað að styðja við með styrkjum eða lánum. 26 ríki hafa skilað áætlunum sínum, en Holland fékk frest vegna stjórnarskipta. Áætlanir 22 ríkja hafa verið samþykktar , og 17 þeirra hafa þegar fengið stuðning. Hann verður veittur í áföngum eftir því sem áætlunum vindur fram í hverju ríki undir vökulum augum framkvæmdastjórnar ESB. Fram kom að hafin væri útgáfa ESB skuldabréfa, þ.á m. grænna, í fyrsta sinn í sögu þess með góðum viðtökum á fjármálamörkuðum. Rifja má upp að endurgreiðslu þeirra á að vera lokið árið 2058.

Miklar hækkanir á orkuverði

Ráðherrarnir ræddu síhækkandi orkuverð að undanförnu og neikvæð áhrif þeirra hækkana á verðbólgu. Í október mældist verðbólgan í ESB ríkjunum 4,1%, sem er hæsta mæling síðan árið 1997. Þessi þróun hefur vitaskuld óæskileg áhrif á fyrirhugaðar efnahagsaðgerðir aðildarríkjanna og þá ekki síður á félagslegar aðstæður þeirra sem minna mega sín. Framkvæmdastjórnin var beðin um að smíða einskonar verkfærakistu (toolbox) með aðgerðum til varnar frekari hækkun orkuverðs. Nokkrum þeirra hefur þegar verið beitt til að styðja þá sem verst hafa orðið úti í hækkunum.

Fjármálamarkaðurinn

Einnig var rætt um innleiðingu Basel III. Um er að ræða safn af lagabreytingum sem ætlað er að styrkja viðnám evrópska bankageirans, auk þess að efla eftirlit hans og áhættustýringu. Ljóst er af umræðunni á fundinum að framundan er stöðugt streymi af nýjum og breyttum tilskipunum og reglugerðum á sviði fjármálamarkaðar sem EES/EFTA ríkin munu síðan þurfa að innleiða til viðbótar við þær sem nú þegar eru í vinnslu.

Ný efnahagsspá

Í gær, 11. nóvember 2021, kynnti framkvæmdastjórn ESB nýja efnahagsspá fyrir evrulöndin og ESB.  Þar er reiknað með að hagvöxtur á evrusvæðinu verði 5% í ár í staðinn fyrir 4.3% í vorspánni, en spáin 2022 stendur nær í stað eða verður 4,3% í stað 4,4 %. Þá var einnig birt spá fyrir 2023 upp á 2,4% hagvöxt. Sömu tölur er að finna í hagspá fyrir ESB í heild, nema fyrir árið 2023 þar sem hagvöxtur er talinn verða eilítið betri, eða 2,5%. Paolo Gentiloni, framkvæmdastjóri efnahagsmála sagði að þessu tilefni: "The European economy is moving from recovery to expansion," en við blasa þó þrjár meginhættur; 1. Aukinn fjöldi Covid – smita, en Evrópa er nú á ný orðin helsti suðupottur farsóttarinnar. 2. Aukin verðbólga vegna hækkunar orkuverðs og 3. Aukin röskun framleiðslu og flutninga á aðföngum, sem hefur veruleg áhrif á fjölda atvinnugreina.

Verðbólguspáin fyrir evrusvæðið fer úr 1,7% á þessu ári í 2,4%, en á árinu 2022 er spáð 2,2% verðbólgu samanborið við 1,3% í vorspánni. Fyrsta spáin fyrir 2023 er 1,4% sem er vel undir 2% markmiði evrópska Seðlabankans. Framkvæmdastjórnin með Dombrovskis í fararbroddi varar þó við að verðbólgan kunni að verða meiri vegna erfiðleika í aðfangakeðjunni og sömuleiðis er farið að bera á auknum launakröfum umfram framleiðni. Þessi blanda þrýstir á verðlag sem þarf að fylgjast vel með að fari ekki úr böndunum og grípa til aðgerða ef nauðsyn krefur.

Aukinn hagvöxtur ætti að draga úr hallarekstri ESB ríkjanna í heild, sem mældist 6,9% af VLF á árinu 2020. Spáin fyrir 2021 er nú 6,6%, en lækkar talsvert á árinu 2022, eða í 3,6% og enn frekar árið 2023 í 2,3%. Skuldahlutfall Evruríkjanna er talið verða 99% á þessu ári og ESB í heild 92%. Spáð er lækkun niður í 97% á Evrusvæðinu árið 2022 og 89% fyrir ESB í heild árið 23%.

Fyrirhuguð löggjöf um stafræna markaði – EES EFTA ríkin standa saman að umsögn

Ísland, Liechtenstein og Noregur sendu fyrr í vikunni inn sameiginlega umsögn um tillögu framkvæmdastjórnarinnar að löggjöf um stafræna markaði (e. Digital Markets Act). Sú löggjöf ásamt þeirri sem fjallar um stafræna þjónustu (e. Digital Services Act) eru burðarásar í viðleitni ESB til að auka öryggi neytenda í stafrænum heimi og jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja.

Tillögunni er fagnað í umsögninni því að óbreyttu séu stærstu aðilarnir á þessu sviði í aðstöðu til að takmarka aðgengi annarra inn á markaðinn. Jákvætt sé að gera ráð fyrir skyldu til að auðvelda lóðrétta samverkun á markaði. Skoða eigi til viðbótar aðgerðir til að stuðla að láréttri samverkun þannig að netþjónustuaðilar geti fengið aðgang að viðmóti hver annars. Loks er hvatt til þess að stjórnvöld í aðildarríkjunum verði gerð virkari í að fylgja reglum eftir en samkvæmt tillögunni verður framkvæmdastjórn ESB þar mjög ráðandi afl.

Ráðherraráðið samþykkir reglur um gjaldtöku á vegum

Ráðherraráðið, Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB hafa átt í þríhliða viðræðum um tillögu framkvæmdastjórnarinnar um breytingu á gildandi reglum um gjaldtöku á vegum, s.k. Eurovignette tilskipun. Tillagan var lögð fram í maí 2017 og var til umfjöllunar hjá ráðinu og þinginu fram á þetta ár. Skoðanir voru skiptar um efni tillögunnar sem birtist m.a. í afstöðu þingsins og ráðsins, en samkomulag náðist í þríhliða viðræðunum 15. júní sl. Ráðherraráðið samþykkti svo niðurstöðuna núna 9. nóvember sl. fyrir sitt leyti.

Núverandi kerfi byggir á tímagjaldi en markmið breytinganna er að hverfa frá því og nota aðra mælikvarða sem endurspegla betur umhverfisáhrif aksturs eins og vegalengd eða útblástur koldíoxíðs.

Helstu breytingar

Helstu breytingar á tilskipuninni eru að tímagjöld fyrir þungaflutningabifreiðar verða lögð niður innan átta til tíu ára frá gildistöku hennar eftir því hvernig núverandi fyrirkomulagi í einstökum ríkjum er hagað. Tilskipunin gildir um flutninga á vegum sem megin hluti alþjóðlegra þungaflutninga fer um. Hægt er að undanskilja vegi á strjálbýlum svæðum eða einstaka styttri veghluta. Aðildarríkin geta áfram notað tímagjöld á öðrum eigin vegum.

Aðildarríkin hafa einnig val um samsetta gjaldtöku fyrir þungaflutninga, t.d. tímagjald og fjarlægðargjald, þar sem annað gjaldið væri byggt á Euro eldsneytisnýtingarstaðlinum og hitt á CO2 losun ökutækisins.  Einnig hafa þau val um að ákveða þá flokka ökutækja sem verða gjaldskyld, geta t.d. sleppt því að innheimta gjöld af langferðabifreiðum. Miðað er við að í boði verði gjald fyrir einn dag og svo fyrir viku eða tíu daga aðgang að gjaldskyldum vegum.

Fram hefur komið að í undirbúningi eru leiðbeiningar um útreikning á breytilegu gjaldi byggðar á losunarstöðlum fyrir CO2 losun þungaflutningabifreiða. Í byrjun nær gjaldið einungis til þungaflutningabifreiða en verður smá saman yfirfært á fleiri tegundir ökutækja. Í reglunum eru einnig ákvæði sem ætlað er að koma í veg fyrir tvöfalda ívilnun vistvænna ökutækja.

Gjaldtaka vegna ytri kostnaðar

Gjaldtaka vegna loftmengunar frá þungaflutningum tekur gildi innan fjögurra ára frá gildistöku tilskipunarinnar. Hægt er að tilkynna undanþágu frá þessu ákvæði ef sýnt er fram á að gjaldtakan hafi óæskilegar afleiðingar í för með sér, t.d. ef hún beinir þungaflutningum af gjaldskyldum vegum á aðra sem ekki eru ætlaðir fyrir slíka umferð. 

Ráðstöfun tekna af gjaldtöku

Miðað er við að tekjum af valkvæðri gjaldtöku verði varið í að leysa úr umferðaálagi. Heimilt er að hækka gjöld um allt að 50% á vegum sem eru undir mjög miklu álagi að fengnu samþykki þeirra aðildarríkja sem eru háð þungaflutningum á viðkomandi vegum.

Loks eru í tilskipuninni nokkrar undantekningar frá reglum um gjaldtöku, s.s. á vegum sem eru byggðir og fjármagnaðir af veggjöldum í samvinnu við einkaaðila, fyrir ökutæki fatlaðra og umferð á dreifbýlum svæðum.

Næstu skref

Nú eftir samþykkt ráðsins fer samkomulagið í aðra umræðu Evrópuþingsins. Reglurnar taka svo gildi 20 dögum eftir birtingu í Stjórnartíðinum ESB og hafa aðildarríkin þá tvö ár til þess að innleiða þær í löggjöf sína.

Fjórða bylgjan rís hratt

Litakortið sem Sóttvarnastofnun Evrópu gefur út á hverjum fimmtudegi heldur áfram að verða rauðara. Víðast hvar eru smittölur búnar að vera á hraðri uppleið í nokkrar vikur og dauðsföllum fer hægt fjölgandi. Almennt eru þau lönd talin standa verst þar sem bólusetningar hafa gengið hægast. Staðan er álitin viðsjárverðust í Belgíu, Hollandi, Eistlandi, Grikklandi, Króatíu, Búlgaríu, Tékklandi, Póllandi, Ungverjalandi og Slóveníu. Best er staðan á Spáni, Möltu og í Svíþjóð.  Annars staðar á Norðurlöndum, þ. á m. á Íslandi, eru löndin öll í næstefsta áhættuflokki.

 

***

Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum