Hoppa yfir valmynd
23. desember 2021 Brussel-vaktin

Jól í skugga omicron

Að þessu sinni er fjallað um:

  • jólahald í skugga nýs afbrigðis veirunnar
  • gildistíma bólusetningarvottorða
  • tillögur að breytingum á Schengen-reglum
  • stöðuna varðandi loftslagsmál í árslok

 

Betra að hafa vaðið fyrir neðan sig

Þrátt fyrir miklar umræður og skoðanaskipti undanfarnar vikur náðist ekki samstaða innan vébanda Evrópusambandsins um hertar aðgerðir á landamærum vegna omicron afbrigðis veirunnar. Þótt sérfræðingar sóttvarnastofnunar Evrópu og framkvæmdastjórn ESB legðu til að almennt yrði gerð krafa um PCR-vottorð fyrir brottför töldu mörg aðildarríkin að þar með væri fótum kippt undan ferðafrelsi sem þó væri takmarkað við núverandi aðstæður. Að auki væri mikilvægt að draga ekki úr hvata til bólusetningar en hingað til hefur hún dugað í stórum dráttum til að geta ferðast um EES-svæðið án frekari skilmála.

Umræðu um útfærslu á svokallaðri neyðarbremsu vegna nýja afbrigðisins hefur því verið slegið á frest. Sama á við um breytingar á tilmælum ráðherraráðs Evrópusambandsins um för yfir innri landamæri annars vegar og ytri landamæri hins vegar.

Staðan er því sú að á landamærum haga ríkin hlutunum hvert með sínum hætti. Írar gengu snemma hvað lengst og gerðu kröfu um að allir komufarþegar hefðu neikvætt próf meðferðis og tækju að auki daglega heimapróf í 5 daga eftir komuna.

Innanlands hafa mörg ríki einnig gripið til hertra aðgerða vegna nýrrar bylgju sem farin er að rísa vegna omicron afbrigðisins. Hollendingar, sem hingað til hafa verið frjálslyndari en margir aðrir, gengu nú hvað lengst og lokuðu öllum veitingahúsum fram í miðjan janúar. Á Spáni, þar sem bólusetning hefur gengið afbragðs vel, var samt ákveðið að allir skyldu vera með grímur á almannafæri. Hraðastur hefur vöxtur smita verið í Danmörku og þar hafa orðið alger umskipti í aðgerðum stjórnvalda frá því lýst var yfir í haust að Covid 19 væri ekki lengur samfélagsleg ógn.

Hveitibrauðsdagar nýju stjórnarinnar í Þýskalandi stóðu ekki lengi. Þar þurfti strax að takast á við erfiðar ákvarðanir um aðgerðir. Niðurstaðan varð herðing aðgerða en þó ekki fyrr en eftir jól!

Viðbrögð stjórnvalda markast að sjálfsögðu af því að óvissan er mikil um eiginleika omicron. Fyrstu áreiðanlegu tölur eru þó farnar að berast frá Suður-Afríku, þar sem omicron greindist fyrst, og Bretlandi, sem varð fyrst Evrópuríkja fyrir barðinu á afbrigðinu. Þar eru jákvæð teikn um að þótt bylgjan rísi hratt þá hnígi hún líka fljótt. Eins virðast veikindi síður alvarleg en í fyrri bylgjum.

Bólusetningarvottorð gilda í 9 mánuði

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gefið út nýjar reglur sem fela í sér að bólusetningarvottorð gilda í 9 mánuði ef þau eru notuð á ferðalögum milli landa. Þegar reglur voru settar sl. sumar um samræmd Covid-19 vottorð var ekki kveðið sérsaklega á um gildistíma bólusetningar. Síðan hafa komið fram áreiðanlegar upplýsingar um að áhrif bólusetningar dvína eftir u.þ.b. 6 mánuði. Til þess að gefa svigrúm fyrir einstaklinga að nálgast örvunarskammt varð niðurstaðan sú að miða við 9 mánuði. Þar að auki mun breytingin nú ekki taka gildi fyrr en 1. febrúar næstkomandi.

Ekki hefur verið fastákveðinn gildistími fyrir örvunarbólusetningu enda liggur ekki enn fyrir hvenær áhrif hennar fjara út.

Tekið mið af farsóttarreynslu við endurskoðun Schengen-reglna

Hinn 14. desember 2021 lagði framkvæmdarstjórn ESB fram tillögu að uppfærðri reglugerð um för yfir landamæri (e. Schengen Borders Code). Breytingunum er ætlað að auðvelda aðildarríkjum að takast á við nýjar áskoranir þegar kemur að eftirliti, jafnt á ytri sem og innri landamærum Schengen svæðisins.  Með tillögunni er leitast við að tryggja að upptaka eftirlits á innri landamærum verði einungis þrautavaraúrræði. Í tillögunni má einnig finna nýjar heimildir til að styrkja stjórn á ytri landamærum Schengen svæðisins, standi aðildarríki frammi fyrir ógn gegn almannaheilbrigði. Þar er byggt á þeirri reynslu sem hefur skapast vegna Covid 19.

Auk tillögu að breytingum á Schengen Borders Code leggur framkvæmdarstjórnin fram viðbótartillögu að reglugerð um hvernig bregðast megi við misnotkun á farandfólki í pólitískum tilgangi (e. Regulation on situations of instrumentalization in the field of migration and asylum) og er þar vísað til nýlegrar stöðu á landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands. Umrædd reglugerð er ekki talin þróun á Schengen samstarfinu en talin ákvæðum Schengen Borders Code til fyllingar í þessum tilteknu aðstæðum.

Helstu fyrirhugaðar breytingar á Schengen reglunum eru þessar:

  • Standi aðildarríki frammi fyrir ógn gegn almannaheilbrigði fær ráðið heimild til setja bindandi reglur með skjótum hætti um tímabundnar takmarkanir á ónauðsynlegum ferðum yfir ytri landamæri svæðisins.
  • Nýr „Schengen safeguard mechanism“ kynntur til leiks sem mun heimila aðildarríkjum að bregðast við, með samræmdum hætti, þegar kemur að upptöku eftirlits á innri landamærum standi meirihluti aðildarríkja frammi fyrir sameiginlegri ógn.
  • Ríkari kröfur verða gerðar til aðildarríkja við gerð áhrifamats og skýrsluskila tilkynni þau um áframhaldandi upptöku eftirlits á innri landamærum.
  • Auka á heimild til eftirlits lögreglu (e. police checks) á landamærastöðvum og er þar vísað til heimildar í nýrri reglugerð um lögreglusamvinnu (e. Police Cooperation Code).
  • Takast á við ólögmæta för einstaklinga innan svæðisins með ríkari lögreglusamvinnu á milli aðildarríkja auk þess sem aðildarríki fá auknar heimildir við gerð tvíhliða endurviðtökusamninga sín á milli.

Fyrirvörum gagnvart nýja loftslagspakkanum fer fækkandi

Fundur umhverfisráðherra ríkja ESB var haldinn í Brussel 20. desember sl. Dagskrá fundarins var fjölbreytt en þau þrjú mál sem upp úr stóðu og rædd voru á fundinum eru tillögupakki framkvæmdastjórnar ESB „Fit for 55“ sem kom út í júlí sl., tillaga að reglugerð er varðar meðhöndlun rafhlaða, sem framkvæmdastjórn ESB lagði fram í desember 2020, og jarðvegsáætlun ESB til ársins 2030 (e. EU Soil strategy) sem framkvæmdastjórn ESB gaf út 17. nóvember sl.

„Fit for 55“

Í umræðum um „Fit for 55“ pakkann var farið almennt yfir stöðu á vinnu við tillögurnar í ráðinu. Áhersla var á endurskoðun ETS tilskipunar sambandsins (viðskipti með losunarheimildir), endurskoðun ESR reglugerðar (e. Effort sharing regulation), endurskoðun LULUCF reglugerðar og endurskoðun á reglugerð um staðla er varða losun CO2 frá bifreiðum (e. Setting CO2 emission performance standards for new passenger cars and for new light commercial vehicles). Einnig var fjallað um reglugerð sambandsins er varðar stofnun á „Social Climate Fund“.

Slóvenska formennskan hefur nýlega gefið út skýrslu um stöðu umfjöllunar á „Fit for 55“ í ráðinu. Ríkin voru á fundinum almennt sammála um að hraða þyrfti umræðum um tillögurnar í ráðinu. Fjallað var um innbyrðis tengingu tillagnanna og um hversu mikið ríkin þyrftu að leggja af mörkum til umræðna um þær til að skila árangri. Fram kom að taka þyrfti tillit til mismunandi stöðu aðildarríkja sambandsins og lögðu ráðherrarnir áherslu á mikilvægi réttlátrar umbreytingar (e. just transition). Ráðherrarnir létu einnig í ljós skoðanir sínar á því hvað þeir telja vera viðkvæmasta hluta tillagnanna. Ljóst er að sum ríki hafa áhyggjur af nýju ETS-kerfi er varðar vegasamgöngur og byggingar sem framkvæmdastjórn ESB hyggst setja á fót. Áhyggjurnar snúa að íþyngjandi áhrifum á almenning. Á blaðamannafundi sem haldinn var í kjölfar fundarins benti umhverfisráðherra Slóveníu á að ef taka eigi eitthvað út úr tillögupakkanum þá verði eitthvað annað að koma í staðinn. Einnig benti hann á að aðildarríkin væru orðin meðvitaðri um mikilvægi tillögupakkans í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og að fækkað hefði þeim fyrirvörum sem ríkin hefðu haft gagnvart pakkanum.

Reglugerð er varðar meðhöndlun rafhlaða

Reglugerðin er ein af lykilgerðum er varðar umskipti í hreinorku en búist er við mikilli framleiðsluaukningu á rafhlöðum fyrir árið 2023. Á ráðherrafundinum kynnti slóvenska formennskan skýrslu um framvindu viðræðna í ráðinu um tillöguna

Í skýrslunni er að finna samantekt á þeirri umfjöllun sem farið hefur fram í tíð slóvensku formennskunnar og tiltekin þau atriði sem kalla á frekari umræður. Ráðherrarnir lögðu áherslu á að reglugerðin yrði sveigjanleg hvað varðar meðferð á úrgangsrafhlöðum og að reglugerðin yrði samþykkt sem fyrst. Fram kom í máli Virginijus Sinkevicius úr framkvæmdastjórn ESB á blaðamannafundi eftir ráðherrafundinn að hann væri bjartsýnn á að þríhliða viðræður framkvæmdastjórnar, ráðsins og þingsins gætu hafist í vor. Hann benti einnig á mikilvægi reglnanna fyrir einkageirann þar sem þeim væri ætlað að jafna aðstöðumun og samkeppnisstöðu fyrirtækja á rafhlöðumarkaði innan aðildarríkja ESB.

Jarðvegsáætlun ESB til ársins 2030

Ráðherrarnir skiptust á skoðun um áætlunina sem framkvæmdastjórnin gaf út 17. nóvember sl. Í áætluninni er lagður til rammi um áþreifanlegar aðgerðir til verndunar, endurheimtu og nýtingu jarðvegs með sjálfbærum hætti. Í áætluninni eru lagðar til ýmsar aðgerðir, bæði lögbundnar og ólögbundnar. Markmið áætlunarinnar er að auka jarðvegs kolefni (e. soil carbon) í landbúnaðarlandi, berjast gegn eyðimerkurmyndun, endurheimta rýrt (e. degraded) land og jarðveg og að tryggja að fyrir árið 2050 verði allt vistkerfi jarðvegs í heilbrigðu ástandi. Í áætluninni kemur fram að stefnt er að nýrri löggjöf er varðar heilbrigðan jarðveg á árinu 2023. Almennt lýstu ráðherrarnir ánægju sinni með framkomna áætlun. Margir ráðherranna bentu á að jarðvegur og ástand hans væri misjafn milli aðildarríkjanna og einnig hafi nokkur aðildarríki nú þegar sína eigin löggjöf er varðar meðhöndlun jarðvegs. Taka þurfi tillit til alls þess í tilvonandi löggjöf.

 

***

Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum