Hoppa yfir valmynd
04. febrúar 2022 Brussel-vaktin

Rýmkaðar reglur um ferðalög innan Evrópu

Að þessu sinni er fjallað um:

  • endurskoðaðar reglur um ferðalög innan Evrópu
  • flokkun á kjarnorku og gasi sem grænna orkugjafa
  • yfirlýsingu um stafræn réttindi
  • hvernig stemma megi stigu við auknum úrgangi
  • EFTA-umsögn um væntanlegar reglur um peningaþvætti
  • nýja skýrslu sem unnin var fyrir gervigreindarnefnd Evrópuþingsins

Einstaklingsbundin nálgun í stað svæðisbundinnar

Ráðherraráð Evrópusambandsins hefur gefið út endurskoðuð tilmæli um samræmdar sóttvarnaaðgerðir til að greiða fyrir frjálsri för innan Evrópu á tímum heimsfaraldursins. Reglurnar gengu í gildi 1. febrúar, sama dag og breyttar reglur um stafræna Covid-19 vottorðið þar sem nú er kveðið á um 9 mánaða gildi bólusetningar. Þetta þýðir að sá sem fékk seinni (eða eina) skammt bóluefnis í apríl 2021 eða fyrr er ekki lengur með gilt vottorð til ferðalaga nema hann hafi fengið örvunarskammt í millitíðinni.

Samkvæmt nýju tilmælunum eiga aðgerðir að miðast við stöðu einstaklingsins í stað stöðu þess svæðis sem hann kemur frá (e. person-based approach). Undantekning er þó ef komið er frá svæði þar sem smit breiðast mjög hratt út.

Vottorðin eiga að duga

Tilmælin þýða að sá sem er með gilt stafrænt Covid-19 vottorð á ekki að þurfa að sæta neinum takmörkunum á landamærum. Vottorðið fá þeir sem 1) eru fullbólusettir, enda séu ekki liðnir meira en 9 mánuðir frá því bólusetningu lauk, en gildi vottorðs framlengist ótímabundið 14 dögum eftir að menn hafa fengið örvunarskammt; 2) geta framvísað neikvæðu PCR-prófi sem tekið var í síðasta lagi 72 klst. fyrir brottför eða neikvæðu hraðprófi (antigen prófi) sem tekið var í síðasta lagi 24 klst. fyrir brottför; 3) eru með vottorð um fyrri sýkingu sem ber með sér að ekki hafa liðið meira en 180 dagar frá fyrsta jákvæða prófi.

Aðra má skylda til að gangast undir sýnatöku fyrir eða eftir komu. Það á þó ekki við um börn undir 12 ára og þá sem eru í nauðsynlegum erindagjörðum.

Litakortið

Þessi breyttu tilmæli þýða að litakort Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar hefur minna vægi. Það sýnir stöðu faraldursins miðað við nýja mælikvarða þar sem tilkynnt smit síðustu 14 daga eru vegin með bólusetningarhlutfalli viðkomandi svæðis. Nýtt er að staða bólusetninga á viðkomandi svæði hefur vægi. Kortið verður þó áfram birt vikulega enda er gert ráð fyrir að sérstökum takmörkunum megi beita gagnvart þeim sem koma frá dökkrauðum svæðum. Þá skal ferðalöngum einnig ráðið frá því að ferðast til slíkra svæða.

Neyðarhemill

Reglur um svokallaðan neyðarhemil hafa einnig verið endurskoðaðar. Grípa má til sérstakra takmarkana ef fram koma ný afbrigði sem valda áhyggjum, en þær verður að endurskoða reglulega.

Ljóst er að núgildandi reglur á Íslandi, þar sem bólusetningarvottorð dugir ekki eitt og sér, eru töluvert frábrugðnar þessum endurskoðuðu tilmælum. Íslensk stjórnvöld eru aðilar að tilmælunum í þeim skilningi að þau tóku þátt í undirbúningi þeirra og gengið er út frá að þau gildi á öllu Schengen-svæðinu. Tilmælin eru hins vegar ekki lagalega bindandi.

Kjarnorka og gas viðurkenndir orkugjafar?

Í síðustu Vakt var fjallað um þá tillögu sem fram var komin af hálfu framkvæmdastjórnar ESB að kjarnorka og gas yrðu viðurkenndir grænir orkugjafar í skilningi taxonomy flokkunarkerfisins. Tillagan mætti mikilli gagnrýni fyrir að ganga of langt og sumir töluðu jafnvel um að óbreytt myndi hún eyðileggja orðspor ESB sem leiðandi aðila í umræðunni um umhverfis- og loftlagsmál á heimsvísu.

Síðastliðinn miðvikudag kynnti framkvæmdastjórnin hina umdeildu tillögu opinberlega, en hún hefur tekið þó nokkrum breytingum frá fyrstu útgáfu. Mairead McGuinness, framkvæmdastjóri á sviði fjármálaþjónustu, kynnti tillöguna. Hún sagði við það tækifæri að framkomin tillaga væri ekki fullkomin, en hún færði Evrópu nær markmiðinu um kolefnishlutleysi. Markmið breytinganna var að reyna að takmarka “græn”-flokkun þessara orkugjafa með því að binda hana við tiltekin skilyrði. Gagnrýnendur hennar segja nýja tillögu hafa gagnstæð áhrif; hún gangi lengra en upprunalega tillagan. Þá heyrist hugtakið “grænþvottur (e. greenwashing)” æ oftar í umræðunni um nýju tillöguna. Eftir kynningu hennar heyrðust t.d. eftirfarandi ummæli frá talsmanni Græningja: “I’d like to report an attempted robbery, please. Someone is trying to take billions of euros away from renewables and sink them into technologies that either do nothing to fight the climate crisis, like nuclear, or which actively make the problem worse, like fossil gas."

Rétt er að taka fram að framkvæmdastjórnin náði ekki samstöðu um framkomna tillögu. Austurríki hótar framkvæmdastjórninni jafnvel málsókn og sama má segja um Lúxemborg. Nýr kanslari Þýskalands, Olaf Scholz, bendir hins vegar á að ráðherraráðið hafi enn tíma til að komast að sameiginlegri niðurstöðu í málinu. Þess má geta að Þjóðverjar ná sínu fram varðandi notkun gass í aðlögunarferlinu samkvæmt tillögunni, en hafa hingað til verið svarnir andstæðingar þess að kjarnorkan verði talin græn. Mikil gagnrýni heima fyrir beinist nú að Scholz sem þykir ekki hafa staðið sig sem skyldi í málinu.

Þá virðist ríkja mikil óánægja með tillöguna í Evrópuþinginu sem á eftir að taka hana fyrir. Flestir eru þó á því að ekki takist að fella tillögu framkvæmdastjórnarinnar, en til þess að það gerist þurfa a.m.k. 20 aðildarríki með 65% af heildaríbúafjölda ESB að vera á móti henni. Þá þurfa 353 þingmenn af samtals 705 að vera á móti til að tillagan falli. Aðildarríkin sjálf og Evrópuþingið hafa til loka næstu viku til að gefa álit sitt á tillögunni, en áform framkvæmdastjórnarinnar eru þau að afgreiða hana fyrir lok febrúar.

Yfirlýsing um stafræn réttindi borgaranna

Þann 26. janúar kynnti framkvæmdastjórnin orðsendingu til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um tillögu að yfirlýsingu um réttindi borgaranna og meginreglur til leiðsagnar fyrir stafræna umbreytingu sambandsins. Stafræn umbreyting samfélagsins er eitt af sex forgangsverkefnum framkvæmdarstjórnarinnar 2019-2024. 

Yfirlýsingin veitir hinu opinbera og fyrirtækjum leiðsögn við þróun nýrrar tækni og þjónustu. Réttindi, frelsi og evrópsk gildi sem liggja til grundvallar löggjöf ESB almennt skulu jafnrétthá í stafrænum heimi og utan hans. Jafnframt er henni ætlað að senda skýr skilaboð til alþjóðasamfélagsins um forsendur stafrænnar umbreytingar í Evrópu.

Réttindi og meginreglur á stafrænni öld

Helstu skilaboð yfirlýsingarinnar eru að fólk og réttindi þessi verði í fyrirrúmi við þróun stafrænna lausna, að stafrænar lausnir tryggi samheldni sambandsins með jöfnum aðgangi íbúa að þjónustu, valfrelsi á netinu sé tryggt, öryggi stafrænna lausna verði aukið, stafrænar lausnir styðji við vernd einstaklinga gagnvart ólögmætum aðgerðum, styðji við valdeflingu einstaklinga og stuðli að sjálfbærri stafrænni framtíð.

Nánar tiltekið setja drögin að yfirlýsingunni fram eftirfarandi megin markmið fyrir stafræna þróun og réttindi fyrir borgarana: háhraða netaðgangur á viðráðanlegu verði fyrir alla hvar sem er, aðgangur að vel búnum kennslustofum og kennurum með stafræna færni, aðgangur fyrir alla að opinberri þjónustu, öruggt stafrænt umhverfi fyrir börn, gagnsæjar upplýsingar um umhverfisáhrif stafrænna vara, skýr yfirráð yfir persónuupplýsingum, þ.m.t. hvort þær séu nýttar, af hverjum og hvar.

Yfirlýsingin á rætur sínar að rekja til sáttmála ESB um grundvallarréttindi borgaranna, dómaframkvæmd og reynslu af  evrópskri yfirlýsingu um  félagsleg réttindi. Lagt er til að fylgst verði með framvindu markmiða yfirlýsingarinnar í ársskýrslu um "Stöðu stafræna áratugarins" og aðgerðir endurskoðaðar með hliðsjón af árangri.

Næstu skref

Drögin að yfirlýsingunni fara nú til meðferðar í Evrópuþinginu og ráðherraráðinu og búist er við að þau verði afgreidd í sumar.

Endurskoða þarf reglur um úrgang í takt við hringrásarhagkerfið

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hafið samráðsferli vegna mögulegrar endurskoðunar á rammatilskipun um úrgang. Markmiðið er að draga úr úrgangi í takt við aðgerðaáætlun um hringrásarhagkerfið. Núgildandi markmið um samdrátt í úrgangsmyndun hafa ekki gengið eftir, úrgangsmyndun virðist bara hafa aukist. Gert er ráð fyrir að tillögur verði lagðar fram vorið 2023. Tilskipunin var síðast endurskoðuð árið 2018 og voru þær breytingar teknar upp í EES-samninginn 2021.

Því má bæta við að von er á tveimur tillögupökkum frá framkvæmdastjórninni á þessu ári er varðar hringrásarhagkerfið. Hinn 30. mars nk. er von á tillögupakka I (Circular economy package I). Þar verður m.a. að finna tillögu að stefnu um sjálfbærar vörur, m.a. endurskoðun reglugerðar um visthönnun (e. Sustainable products policy initiative, including a revision of the Ecodesign Directive), endurskoðun á reglugerð er varðar markaðssetningu byggingavara (e. Review of the Construction Product Regulation), áætlun er varðar sjálfbærni textíliðnaðar (e. Strategy on sustainable textiles) og valdeflingu neytenda til grænna umskipta (e. Empowering consumers for the green transitition).

Gert er ráð fyrir að tillögupakki II (Circular economy package II) verði lagður fram 20. júlí nk. Það sem verður í þeim pakka er rammastefna um meðhöndlun á lífgrunduðu, lífbrjótanlegu og niðurbrjótanlegu plasti (e. Policy framework for bio-based, biodegradable and compostable plastics), endurskoðun á tilskipun um umbúðir og umbúðarúrgang (e. Review of the Packaging and packaging waste directive to reinforce the essential requirements for packaging and establish EU level packaging waste prevention measures and targets) og endurskoðun á tilskipun er varðar meðhöndlun á fráveituvatni (e. Review of the Urban Wastewater Treatment directive).

Umsögn EFTA-ríkjanna  um fyrirhugaða löggjöf um peningaþvætti

Hinn 24. janúar síðastliðinn sendu Ísland, Liechtenstein og Noregur frá sér sameiginlega EFTA-umsögn um fyrirliggjandi löggjafartillögur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í umsögninni er tillögunum almennt vel tekið en þær miði að því að styrkja regluverk á þessu sviði. Einnig sé jákvætt að tillögurnar nái nú til þess þegar rafmyntir ganga kaupum og sölum.

Lýst er stuðningi við þau áform framkvæmdastjórnar ESB að auka samstarf milli eftirlitsstjórnvalda. Hins vegar eigi að einskorða beint eftirlit á Evrópuvísu við þau tilvik þegar eftirlit á landsvísu hrekkur augljóslega of skammt. Þá koma fram áhyggjur af stjórnskipulagi nýrrar eftirlitsstofnunar á sviði peningaþvættis (AMLA). Finna þurfi leiðir til að EFTA-ríkin geti tekið þar þátt í störfum í samræmi við tveggja stoða kerfið.

Stjórnskipun hins stafræna þjóðfélags í mótun: Huga þarf að samræmi og einföldun

Grundvallarlöggjöf sem varðar ýmsar hliðar stafrænnar umbyltingar er nú til meðferðar hjá Evrópusambandinu. Sérstök þingnefnd Evrópuþingsins sem fjallar um gervigreind fékk óháða sérfræðinga til að gera úttekt á samspili þessara mismunandi tillagna. Samanlagt er um nokkurs konar stjórnarskrá hins starfræna þjóðfélags að ræða sem mun hafa áhrif langt út fyrir landamæri Evrópusambandsins. Í skýrslunni er gefið yfirlit yfir allar löggjafartillögur á þessu sviði og þær settar í samhengi við gildandi rétt. Ein af niðurstöðunum er að töluvert vanti upp á heildarsamræmi og flækjustigið sé einnig óþarflega hátt.

***

Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum