Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2022 Brussel-vaktin

Enn skýrist lagaramminn um stóru netfyrirtækin ​

Að þessu sinni er fjallað um:

  • tímamótasamkomulag um nýjar reglur um ábyrgð á efni á netinu
  • athugasemdir EFTA-ríkjanna við drög að reglum um öryggi vöru
  • samkomulag um þorskveiðar við Svalbarða
  • fund sameiginlegu EES-nefndarinnar sem nú var haldinn í fyrsta sinn í Berlaymont

Samkomulag um reglur um stafræna þjónustu

Allra augu munu nú beinast að framkvæmdastjórn ESB og hvernig henni muni ganga að framfylgja nýjum reglum um ábyrgð á efni á netinu sem samkomulag náðist um 21. apríl sl. Lykilatriði í því samkomulagi er að framkvæmdin verði í Brussel fremur en hjá aðildarríkjunum. Það hefur einmitt þótt helsti veikleiki persónuverndarreglugerðarinnar að þar er ábyrgðin á framkvæmd dreifðari.

Valdheimildirnar sem fylgja nýju reglunum (e. Digital Services Act) eru umtalsverðar. Í fyrsta skipti, ef undan er skilið svið samkeppnisreglna, verður framkvæmdastjórninni heimilt að leggja á sektir sem nema allt að 6% af veltu fyrirtækja eins og Facebook, Google, Twitter og Amazon á heimsvísu ef þau fjarlægja ekki falsfréttir eða gróft ofbeldisefni, svo dæmi séu tekin.

Eftir að uppljóstrarinn Frances Haugen afhjúpaði hvernig fyrirtæki eins og Meta, móðurfélag Facebook, lét sér í léttu rúmi liggja þótt skaðlegt efni breiddist út með ægihraða jókst pólitískur vilji innan ESB til að láta málið til sín taka. Segja má að fregnir af því að auðkýfingurinn Elon Musk hafi eignast Twitter undirstriki þau átök sem kunna að vera fram undan en hann hefur boðað að dregið verði úr „ritskoðun“ á þeim miðli.

Gert er ráð fyrir að nýju reglurnar taki gildi á næsta ári. Framkvæmdastjórnin hefur því einungis nokkra mánuði til að ráða u.þ.b. 150 sérfræðinga í lögfræði, tölvunarfræði og gervigreind til að mynda teymi sem á að vera nógu öflugt til að ráða við að framfylgja reglunum andspænis mörgum af stærstu fyrirtækjum heims.

Reglurnar fela í sér m.a. að

  • til staðar þarf að vera leið fyrir notendur að flagga ólöglegu efni,
  • notendur þurfa að hafa úrræði til að hnekkja ákvörðunum netþjónustufyrirtækja um hvort efni skuli aðgengilegt eða ekki,
  • vísindamenn fá aðgang að gögnum um starfsemi stærstu netþjónustufyrirtækjanna,
  • krafa er gerð um gagnsæi eins og varðandi algóriþma sem notaðir eru til að mæla með efni eða vöru við notendur,
  • stærstu fyrirtækjunum verður gert skylt að viðhafa áhættumat til að koma í veg fyrir að kerfi þeirra séu misnotuð,
  • fyrirtækjum verður skylt að bregðast skjótt við ef ógn steðjar að almannaöryggi eða lýðheilsu,
  • börn njóti aukinnar verndar og að auknar hömlur verði settar á notkun viðkvæmra upplýsinga í þágu hnitmiðaðra auglýsinga.

Það má segja að það sé skammt stórra högga á milli hjá Evrópusambandinu þegar kemur að reglum um stóru netfyrirtækin. Fyrir mánuði náðist samkomulag um samkeppnisreglur á stafræna sviðinu, e. Digital Markets Act.

Stuðningur EFTA-ríkjanna við aukið öryggi neytendavöru

EFTA-ríkin þrjú, Ísland, Liechtenstein og Noregur, sendu 11. apríl sl. frá sér athugasemdir við drög að reglugerð um öryggi neytendavöru.  Framkvæmdastjórnin hafði birt tillögu sína 30. júní 2021. Þar er lagt til að fella brott tilskipun um þetta efni frá 2001 enda sé hún orðin úrelt. Tekist er á við áskoranir sem fylgja nýjustu tæknivörum, markaðseftirlit með hættulegri vöru aukið og gert auðveldara að innkalla vöru.

EFTA-ríkin fagna þessari tillögu og styðja meginmarkmiðið sem þar býr að baki. Tekið er undir að herða þurfi ábyrgð markaðstorga á netinu í ljósi þess að þar fara viðskipti fram í auknum mæli. Þá hafi það einnig gefið góða raun að leggja fyrirtækjum skyldur á herðar að vera með öflugt innra eftirlit.

Samkomulag milli Noregs og ESB um fiskveiðar við Svalbarða

Eftir að Bretland gekk úr ESB ákváðu Norðmenn að skipta þorskkvóta við Svalbarða milli aðila. ESB var ekki sátt við þá nálgun. Nú hefur náðst samkomulag um þetta efni.

Þegar Bretar gengu úr ESB var þeim úthlutað 5.500 tonna árskvóta á svæðinu en kvóti ESB lækkaður samsvarandi í 17.885 tonn. ESB svaraði með því að ákveða sinn kvóta upp á 28.431 tonn. Jafnframt gagnrýndi ESB almennt framgöngu Norðmanna á svæðinu og að þeir tækju sér vald sem þeir hefðu ekki með réttu.

Samkvæmt nýja samkomulaginu fær ESB kvóta upp á 19.636 tonn á ári.

Sameiginlega EES-nefndin: Fundað með gömlu sniði á nýjum stað

Sameiginlega EES-nefndin kom saman til fundar í Brussel í dag. Það er í fyrsta skipti frá því kórónuveirufaraldurinn hófst sem nefndarmenn koma saman í eigin persónu. Jafnframt var þetta í fyrsta skipti sem nefndin kemur saman í höfuðstöðvum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Berlaymont, eftir að fyrirsvar gagnvart samningnum innan ESB fluttist til almennu skrifstofu framkvæmdastjórnarinnar frá utanríkisþjónustu ESB um áramót.

Á fundinum voru teknar upp í EES-samninginn samtals 134 nýjar gerðir, en með því fer upptökuhallinn undir 500 gerðir í fyrsta skipti í langan tíma. Meðal markverðra gerða sem nú voru teknar upp í samninginn er gerð um orkunýtni bygginga, upprunareglur, gerð sem setur samræmdar reglur um hvernig upplýsingar sem krafist er við komu skipa í höfn eru veittar og reglur um flokkun sjálfbærra fjárfestinga. Hin síðastnefnda er mikilvægur liður til að ná markmiðum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55% árið 2030.  Áður hefur verið fjallað um sjálfbæra flokkun fjárfestinga í Vaktinni 4. febrúar 2022. 

Nánar er sagt frá fundinum á vefsíðu EFTA.

***

Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum