Hoppa yfir valmynd
27. maí 2022 Brussel-vaktin

Dregur úr hagvexti og verðbólga eykst

Að þessu sinni er fjallað um:

  • horfur í efnahagsmálum
  • fund EES-ráðsins
  • gagnrýni umboðsmanns á leyndarhyggju í tengslum við bóluefnasamninga
  • lagabreytingar í Póllandi sem ætlað er að koma til móts við ESB

Þriðja árið í röð eru bremsur á ríkisútgjöld teknar úr sambandi

Áhrif stríðsins í kjölfar Covid-19. Helstu umræðuefni fjármála- og efnahagsráðherra ESB, sem hittust í Brussel í byrjun vikunnar, voru efnahagsleg áhrif stríðsins milli Rússlands og Úkraínu á hagkerfi aðildarríkjanna. Þó að hagvöxtur þeirra hafi verið fremur hægur í byrjun árs benti allt til þess að hann yrði styrkari þegar líða tæki á árið. Bjartsýni ríkti almennt um efnahagsþróunina framundan þrátt fyrir að enn væru til staðar flöskuhálsar sem takmörkuðu framboð á nauðsynlegum hrávörum og að verðbólga léti á sér kræla vegna verðhækkana á orku, enda mat manna  að hér væru einungis um skammtímaáhrif að ræða. Batamerki efnahagslífsins í upphafi árs stöfuðu meðal annars af sterkum vinnumarkaði með lágum atvinnuleysistölum, auknum sparnaði og hagstæðum skilyrðum á fjármálamörkuðum. Stríðið milli Rússlands og Úkraínu kollvarpaði hins vegar þessari mynd. Áhrifa þess verður eðlilega fyrst vart á meginlandi Evrópu vegna nálægðar við umrædd ríki, auk þess sem mörg aðildarríkja ESB eru mjög háð Rússlandi með innflutning á orku, bæði gasi og olíu. Sama á við um ýmsar hrávörur, einkum til matvælaframleiðslu. Ofan á þau  neikvæðu áhrif bætist síðan stöðugur straumur flóttamanna frá Úkraínu, eða kringum 5 milljónir manna síðan stríðið hófst, sem kallar á endurskipulagningu og samræmingu innviða í mörgum ESB ríkjum með tilheyrandi kostnaði fyrir þau. Einnig þarf að horfa til þess að þó að Covid-krísan sé að mestu um garð gengin  í Evrópu er hún enn grasserandi í Kína, sem sér Evrópubúum fyrir mikilvægum hrávörum. Sama má segja um Indland.

Hagvöxtur og verðbólga. Allir þessir þættir hafa neikvæð áhrif á þær forsendur sem nú eru lagðar til grundvallar efnahagsspám ESB til næstu ára. Þau birtast í lægri hagvexti og hærri verðbólgu en áður var spáð í nær öllum aðildarríkjum ESB, sérstaklega á árinu 2022. Þannig er því spáð að hagvöxtur á ESB ríkjunum verði 2,7% í stað 4% árið 2022 og 2,3% í stað 2,8% á næsta ári. Þá er talið að verðbólgan verði 6,8% í ár en lækki síðan niður í 3,2% árið 2023. Í fyrri spá voru samsvarandi tölur 3,5% árið 2022 og 1,7% á næsta ári. Meginskýring vaxandi verðbólgu innan ESB er hærra orkuverð. Þau áhrif og ýmis fleiri, eins og minni útflutningur á korni, jurtaolíu og landbúnaðarvörum frá Rússlandi og Úkraínu, þrýsta upp matvælaverði til viðbótar við þau sem koma til vegna tafa í flutningum víðsvegar um heiminn. Þau verðáhrif, sem hér hefur verið lýst, koma síðan aftur fram í formi óbeinna áhrifa í hækkandi verðum á margvíslegri vöru og þjónustu. Sem dæmi er undirliggjandi verðbólga, þ.e. verðbólga að frátöldum skammtímasveiflum í orkuverði og matvælaverði, talin vera kringum 3% um þessar mundir samkvæmt spám ESB.

Lægri kaupmáttur og minni neysla. Hærri verðbólga dregur óhjákvæmilega úr kaupmætti heimilanna, sérstaklega hjá þeim efnaminni sem eyða hlutfallslega meiru í kaup á mat og orku en þeir sem meira hafa milli handanna. Tvennt vegur þó á móti. Annars vegar aukinn sparnaður heimilanna á Covid-19 árunum og hins vegar góð staða á vinnumarkaði. Jafnframt hafa stjórnvöld víða reynt að sporna gegn hækkandi verði á nauðsynjum með sértækum aðgerðum, eins og tímabundinni lækkun á virðisaukaskatti o.fl. Stóra spurningin er aftur á móti sú hvort heimilin treysti sér til að ganga frekar á sparnað á þessum óvissutímum. Jafnframt á eftir að koma í ljós hvaða áhrif sá mikli fjöldi flóttamanna, sem kemur frá Úkraínu til Evrópu, hefur á heildarneyslu ESB, en sú neysla er að mestu fjármögnuð með styrkjum sem greiddir eru af viðtökuríkjum þeirra.

Staðan á vinnumarkaði ESB. Staðan á evrópskum vinnumarkaði batnaði verulega á síðasta ári. Til urðu 5,2 milljónir ný störf á sama tíma og einungis 3,5 milljónir launþega kom inn á markaðinn. Atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki og vinnuaflsskortur hefur víða gert vart við sig, þó síst hjá ófaglærðum. Þrátt fyrir þessa þróun hefur vinnutími ekki lengst og er raunar enn undir því sem hann var fyrir Covid-19. Ekki er búist við jafnmikilli aukningu nýrra starfa á næsta ári eins og á þessu og síðasta ári og áfram mun verða vinnuaflsskortur þrátt fyrir að búist sé við að hluti flóttamanna frá Úkraínu komi hægt og bítandi inn á markaðinn. Þau áhrif koma þó ekki að fullu fram fyrr en á árinu 2023. Atvinnuleysistölur eru því taldar lækka enn frekar, eða niður í 6,7% á þessu ári og 6,5% á árinu 2023. Spáð er að laun hækki um 3,9% á mann í ár og 3,6% árið 2023. Kaupmáttur launa mun því falla verulega á yfirstandandi ári og rétt halda í horfinu á árinu 2023. Það þýðir að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila mun minnka um 2,8% árið 2022 en batna um 1% á næsta ári.

Minni fjárfesting árið 2022. Aðstæður eins og að framan hefur verið lýst draga óhjákvæmilega úr vexti fjárfestinga, bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Það skýrist meðal annars af minni hagnaði fyrirtækja vegna áhrifa verðhækkana á framleiðslukostnað, en líklega ekki síður af þeirri óvissu sem nú ríkir um framvinduna á heimsvísu. Vaxtaþróunin er einnig þáttur sem miklu ræður þegar fjárfestingaákvarðanir eru teknar, en vextir hafa víða verið hækkaðir á undanförnum vikum. Nú virðist aðeins tímaspursmál hvenær Evrópski Seðlabankinn tilkynnir um hækkun vaxta. Af þessu leiðir að spá ESB um aukna fjárfestingu á þessu ári er mjög varfærin, eða einungis 3,1%, þar sem kringum 2% eru í raun yfirfall frá árinu 2021. Spáin fyrir árið 2023 sýnir aftur á móti mikinn vöxt, eða um 3,6%.

Staða opinberra fjármála. Á árinu 2021 var hallarekstur hins opinbera (e. general government) í aðildarríkjum ESB 4,7% sem hlutfall af VLF (e. GDP). Samsvarandi áætlun fyrir yfirstandandi ár nemur 3,6%. Þannig munu ýmsar Covid-19 stuðningsaðgerðir renna sitt skeið á næstu mánuðum auk þess sem aukinn hagvöxtur mun styrkja stöðuna. Á móti vega aðgerðir stjórnvalda til að draga úr áhrifum af hærra orkuverði og til að mæta flóttamannastraumnum frá Úkraínu. Þær síðarnefndu ná þó ekki að vega upp fyrri áhrifin þannig að hallinn minnkar milli ára. Fyrir árið 2023 er því spáð að hallinn verði 2,5% sem hlutfall af VLF. Miðað við að framangreind spá gangi eftir mun skuldahlutfall hins opinbera fyrir ESB ríkin í heild (e. debt-to-GDP ratio) verða kringum 85%. Það er hærra hlutfall en fyrir Covid-19 krísuna. Í ljósi þess hefur framkvæmdastjórn ESB lagt til að fjármálaregla sambandsins um skuldahlutfallið verði áfram óvirk, eða til loka árs 2023. Áfram verði unnið að endurskoðun fjármálareglnanna með það fyrir augum að ná niðurstöðu á næsta ári. Þá heyrist æ oftar að eðlilegra sé að horfa á vöxt útgjalda hins opinbera sem meginviðmið fremur en afkomu eða skuldahlutfall. 

ESB

Ísland

Árleg breyting, %

2021

2022

2023

2021

2022

2023

VLF

5,4

2,7

2,3

4,3

3,4

3,3

Fjármunamyndun

4,2

3,1

3,6

13,6

4,4

5,3

Atvinnuleysi

7,0

6,7

6,5

6,0

5,5

5,3

Verðbólga

2,9

6,8

3,2

4,4

5,6

3,8

Afkoma hins opinbera

-4,7

-3,6

-2,5

-8,9

-4,4

-2,8

Skuldahlutfall hins opinbera

89,7

85,2

53,2

53,3

51,6

 

Er líklegt að nýbirt spá ESB gangi eftir? Sú spá sem hér hefur verið reifuð er svokölluð grunnspá (e. baseline forecast) fyrir ESB ríkin í heild. Fram kom í kynningu á henni að spáin væri mikilli óvissu háð, ekki síst vegna stríðsins margumtalaða. Ef eitthvað þá er hún talin of bjartsýn. Í umræðunni heyrist jafnvel að spáin sé beinlínis óraunhæf. Sem sagt, sitt sýnist hverjum í því hversu áhættusöm spáin er og í rauninni engin leið fær önnur en sú að bíða og sjá hvernig þróun verður á næstu mánuðum. Til fróðleiks eru helstu hagtölur spárinnar dregnar saman í töflunni  hér að framan, auk sambærilegra hagtalna fyrir Ísland, sem birtar voru á fundi utanríkisráðherra ESB og EFTA í vikunni.  

Aðfanga- og orkuöryggi á EES-ráðsfundi

Mikilvægi grænna umskipta og aðfanga- og orkuöryggi voru á meðal umræðuefna á fundi EES-ráðsins 23. maí sl. sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sótti. Rætt var um framkvæmd EES-samningsins og meðal annars lögð áhersla á mikilvægi þess að auka þekkingu á EES-samningnum á öllum stigum. Í því augnamiði þyrfti að koma betur til skila kostum samningsins fyrir borgara og fyrirtæki. Í annað skipti í röð var ekki afgreidd ályktun um sameiginlegar niðurstöður fundarins. Í tilefni af fundinum gáfu EES/EFTA-ríkin hins vegar út sína eigin yfirlýsingu um EES-samstarfið: https://www.efta.int/sites/default/files/documents/eea/eea/EEA-EFTA-Statement_23-May-2022.pdf.

Þá átti Þórdís Kolbrún vinnuhádegisverð með Maros Šefčovič, varaforseta framkvæmdastjórnar ESB sem fer meðal annars með málefni EES-samningsins, ásamt utanríkisráðherrum Noregs og Liechtenstein.

Í lok dags var nýja EFTA húsið formlega opnað með viðhöfn að viðstöddum ráðherrum EES-EFTA ríkjanna þriggja og fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB.

Umboðsmaður gagnrýnir leyndarhyggju í tengslum við bóluefnasamninga

Viðbrögð Evrópusambandsins við Covid-19 hafa verið jafnvægislist milli þess að bregðast skjótt við og gæta að gagnsæi. Þetta segir Emily O‘Reilly umboðsmaður sem gætir að góðri stjórnsýslu innan Evrópusambandsins.

Í viðtali við Euractiv vefsíðuna segir hún að fjarvinna hafi gert það að verkum að ýmsir vinnufundir og fundir með hagsmunavörðum hafi ekki verið skráðir eins og vera ber. Það átti líka við um tilurð bóluefnasamninga. Þá hafi framkvæmdastjórnin í fyrstu neitað að upplýsa hvaða sjö aðildarríki hefðu tekið þátt í samingagerð með framkvæmdastjórninni. Það hafi komið á óvart því það hefði nokkuð augljóslega getað hjálpað framkvæmdastjórninni að upplýsa málið og auka þannig traust á innkaupaferlinu, hún stæði sem sagt ekki ein í samningagerð heldur hefði nokkur lykilríki með sér.

Eftir að samningar voru gerðir var framkvæmdastjórnin gagnrýnd fyrir að birta þá ekki. Þeir voru síðan birtir með herkjum en þá höfðu ýmsir kaflar verið strikaðir út. Umboðsmaðurinn gagnrýnir þá menningu sem sé við lýði innan framkvæmdastjórnarinnar að gleyma of oft gagnsæissjónarmiðum. Það sama eigi við um stjórnsýslu hjá aðildarríkjunum eins og hún þekki úr fyrri störfum.

Í síðustu ársskýrslu umboðsmanns kemur einnig fram gagnrýni á að framkvæmdastjórnin hafi ekki litið á sms-skeyti sem gögn sem féllu undir opinbera stjórnsýslu. Snerist það m.a. um aðgang að smáskilaboðum sem höfðu gengið milli forseta framkvæmdastjórnar ESB, Ursulu von der Leyen, og forráðamanna lyfjafyrirtækja.

Pólsk stjórnvöld koma til móts við ESB

Pólska þingið samþykkti fyrr í vikunni að leggja niður umdeilda aganefnd innan Hæstaréttar landsins. Nefndin hefur verið sökuð um að vera handbendi stjórnvalda til að þagga niður í dómurum sem eru þeim ekki að skapi. Með þessu vonast pólsk stjórnvöld til að framkvæmdastjórn ESB losi um pyngjuna en styrkir til Póllands hafa verið frystir vegna deilna um hvort réttarríkið sé í hávegum haft í Póllandi.

Stjórnarandstaðan lagðist gegn lagabreytingum og sagði þær ekki ganga nógu langt.

 

***

Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum