Hoppa yfir valmynd

OECD og UNESCO

Sendiráðið er fastanefnd Íslands gagnvart Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) og Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) .
Efnahags- og framfarastofnunin

Ísland var meðal stofnríkja Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) árið 1961. 

Photo: OECD/ Andrew Wheeler
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Ángel Gurría, aðalframkvæmdastjóri OECD í mars 2018. Photo: OECD/ Andrew Wheeler


Markmið OECD er þríþætt:

  • Að ná sem mestum og varanlegustum hagvexti og sem hæstu atvinnustigi í aðildarríkjunum.
  • Að stuðla að almennri efnahagsþróun jafnt í aðildarríkjunum sem utan þeirra.
  • Að leggja sitt að mörkum til vaxtar og þróunar heimsviðskiptanna.

Þátttaka Íslands nær til um 200 ólíkra efnisþátta innan stofnunarinnar. Fastanefnd Íslands hjá OECD hefur einn starfsmann í fullu starfi við stofnunina en um 50 starfsmenn, þar af um helmingur frá fjármálaráðuneyti og Seðlabankanum, taka reglulega þátt í störfum stofnunarinnar, þar á meðal við greiningu á stöðu efnahagsmála á Íslandi. Meðal annarra efnisþátta sem Ísland tekur þátt í eru samskipti á sviði verslunar, fiskvinnslu, vísinda og tækni, stjórnsýslu, landbúnaðar, umhverfismála og samgangna. Frá árinu 2004 hefur Ísland beitt sér enn frekar í þróun samstarfsins við OECD. Sem dæmi má nefna útgáfu á OECD Economic Survey ICELAND 2017.

www.oecd.org

Um Ísland: www.oecd.org/iceland

Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna

Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, var komið á fót árið 1945, en Íslendingar gerðust aðilar árið 1964 og var Pétur Thorsteinsson fyrsti fastafulltrúi Íslands þar.


Árin 1983-87 átti Ísland fulltrúa í framkvæmdastjórn UNESCO, Andra Ísaksson, og átti á ný fulltrúa árin 2001-2005, Svein Einarsson. Frá árinu 1998 hefur Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, verið velgjörðarsendiherra tungumála hjá stofnuninni og var um tveggja ára skeið formaður alþjóðaráðs um siðferði í vísindum og tækni (COMEST).  

Í júní 2013 var und­ir­ritaður í Par­ís samn­ing­ur um að Vig­dís­ar­stofn­un - alþjóðleg miðstöð tungu­mála og menn­ing­ar við Há­skóla Íslands starfi und­ir for­merkj­um UNESCO.

Guðlaugur Þór Þórðarsson, utanríkisráðherra, og Audrey Azoulay, aðalframkvæmdastjóri UNESCO, í október 2018. Ljósmynd: UNESCO/Christelle ALIX 


Hlutverk UNESCO er skilgreint í stofnskrá með þeim hætti, að stuðla beri að friði og öryggi með því að efla samvinnu þjóða í mennta-, vísinda- og menningarmálum og efla þannig almenna tiltrú og virðingu fyrir réttlæti, lögum og mannréttindum, án tillits til trúarbragða, kynþáttar, kynferðis eða tungumála, eins og tekið er fram í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna sjálfra.

UNESCO er opið öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna. Markmiðum sínum hyggst UNESCO ná meðal annars með því að efla almannafræðslu og stuðla að því að allir eigi jafnan rétt til náms. Ennfremur með samvinnu þjóða um útbreiðslu þekkingar og skilnings manna á meðal og með því að aðstoða aðildarlönd við að byggja upp menntakerfi, sem henta á hverjum stað. UNESCO hefur einnig forystu um verndun menningararfleifðar heimsbyggðarinnar.

Vigdís Finnbogadóttir, fv. forseti Íslands, og Irina Bokova, aðalframkvæmdastjóri UNESCO, við undirritun á samkomulags, í júní 2013, um að Vigdísarstofnun, alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar, starfi undir formerkjum UNESCO. Ljósmynd: UNESCO


Íslenska UNESCO nefndin

Ísland gerðist aðili að UNESCO – Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna – þann 8. júní 1964. Hinn 23. maí 1966 ákvað ríkisstjórnin að stofna íslenska UNESCO-nefnd. Nefndin kom saman til fyrsta fundar hinn 5. október 1966. Í fyrstu nefndinni sátu 15 fulltrúar samtaka og stofnana auk formanns sem skipaður var af menntamálaráðherra. Nefndin starfaði samkvæmt starfsreglum sem menntamálaráðherra setti á grundvelli ákvæða í stofnskrá UNESCO.

Hinn 17. janúar 1990 voru settar nýjar starfsreglur fyrir Íslensku UNESCO-nefndina og nefndarmönnum fækkað í 5. Þær voru endurskoðaðar í október 1997, en þá var ákveðið að skipa nefndina fulltrúa fyrir málefni ungs fólks. Nefndin starfar nú skv. starfsreglum frá 18. febrúar 2003.

Hlutverk Íslensku UNESCO-nefndarinnar er að vera ríkisstjórninni og sendinefnd Íslands á aðalráðstefnu UNESCO til ráðuneytis í málum er varða UNESCO og tengiliður á milli UNESCO og íslenskra mennta-, vísinda- og annarra menningarstofnana. Nefndin annast upplýsingastarfsemi um málefni UNESCO á Íslandi og hefur samvinnu við aðrar íslenskar nefndir sem starfa að málefnum Sameinuðu þjóðanna og sérstofnana þeirra.


Ísland hefur samþykkt eftirtalda sáttmála UNESCO:

18.9.1956: Alþjóðasáttmála um höfundarrétt, Genf 6.9.1952
2.12.1977: Sáttmáli um alþjóðlega mikilvæg votlendi, Ramsar-sáttmálinn, Ramsar í Íran 2.2.1971
11.6.1986: Bókun vegna Ramsar-sáttmála, París 3.12.1982
18.6.1993: Bókun vegna Ramsar-sáttmála, Regina, Kanada, 28.5.1987
15.3.1994 Samningur um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana, Róm 26.10.1961
19.12.1995 Sáttmáli um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsins, París 16.11.1972
9.2.2005 Sáttmáli um ólöglegan innflutning, útflutning eða aðra ólögmæta tilfærslu á eignarrétti menningarverðmæta, París 14.11.1970
5.10.2005 Sáttmáli um varðveislu menningarerfða, París 17.10.2003.

Undirritanir:
11.4.1997 Sáttmáli um viðurkenningu prófgráða í æðri menntun innan Evrópu, 11.4.1997
2.7.2004 Þingvellir skráðir á heimsminjaskrá
7.7. 2008  Surtsey skráð á heimsminjaskrá

www.unesco.org

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Veldu tungumál

Veldu tungumál

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira