Hoppa yfir valmynd
21. október 2018 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra tekur þátt í Hringborði norðurslóða

Ráðherra flutti stutt ávarp í móttöku fyrir ráðstefnugesti - mynd

Hringborð norðurslóða, sem nú stendur yfir í Hörpu, er stærsti umræðuvettvangur heims um málefni norðurslóða. Utanríkisráðuneytið tekur virkan þátt í umræðunum sem þar fara fram og stóð meðal annars fyrir hliðarviðburði um loftslagsmál á norðurslóðum sem Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ávarpaði. Utanríkisráðherra tók einnig þátt, ásamt utanríkisráðherrum Færeyja og Grænlands, í hliðarviðburði sem Vestnorræna ráðið skipulagði um sviptingar í alþjóðastjórnmálum og áhrif þeirra á vestnorræna svæðið í gær.

Guðlaugur Þór átti einnig fundi með nokkrum þeirra fjölmörgu gesta sem hingað voru komnir til að sækja Hringborð norðurslóða. Á föstudag hitti hann utanríkisráðherra Japans, Taro Kono, og þá Michael J. Murphy og Thomas Goffus, vararáðherra í utanríkis- og varnarmálaráðuneytum Bandaríkjanna þar sem varnar- og öryggissamstarf ríkjanna var meðal umræðuefna. Hann átti einnig fundi með Sam Tan, fyrsta ráðherra í forsætisráðuneyti Singapúr, Karmenu Vella, framkvæmdastjóra umhverfis, haf- og fiskveiðimála hjá Evrópusambandinu, Fionu Hyslop, ráðherra utanríkismála í heimastjórn Skotlands og Lisu Murkowski, öldungadeildarþingmanni frá Alaska. Norðurslóðamál voru eðlilega í brennidepli á þessum fundum en þar gafst einnig tækifæri til að ræða tvíhliða mál af ýmsum toga, svo sem á sviðum verslunar og viðskipta, og alþjóðamál á breiðari grunni.

Á laugardag átti utanríkisráðherra fund með Ane Lone Bagger, utanríkis-, kirkju-, mennta- og menningarmálaráðherra Grænlands, og var viðstaddur opnun grænlensku sendiskrifstofunnar á Íslandi. „Opnun sendiskrifstofunnar eru tímamót í samskiptum Íslands og Grænlands. Vinátta þjóðanna á sér langa sögu en samskiptin hafa aukist undanfarin ár og orðið víðtækari í samræmi við samstarfssamning frá árinu 2013 - sama ár og Ísland opnaði sendiskrifstofu í Nuuk. Við hlökkum til að þróa samskiptin við vini okkar á Grænlandi enn frekar á komandi árum, meðal annars á viðskiptasviðinu, á norðurslóðum og í vestnorrænu samstarfi,“ sagði Guðlaugur Þór.

Utanríkisráðherra skrifaði ennfremur undir samkomulag við Paul LePage, ríkisstjóra Maine í Bandaríkjunum, sem áréttar samstarf Íslands og Maine sem hefur vaxið mjög á undanliðnum árum, meðal í skipaflutningum og á sviðum sjávarútvegs. Þá fundaði Guðlaugur Þór með norrænum biskupunum, sem staddir voru á Hringborði norðurslóða, og fór yfir helstu útlínur Íslands í norðurslóðasamstarfi og í tilvonandi formennsku Íslands að Norðurskautsráðinu. Þá átti Guðlaugur Þór fund með forsvarsmönnum Bremenports.

Guðlaugur Þór mun flytja lokaávarp á Hringborði norðurslóða síðar í dag.

Ávörp ráðherra

  • Utanríkisráðherra tekur þátt í Hringborði norðurslóða - mynd úr myndasafni númer 1
  • Ráðherra ásamt norrænu biskupunum. - mynd
  • Michael J. Murphy (t.h.) og Thomas Goffus (t.v.) ásamt utanríkisráðherra - mynd
  • Utanríkisráðherra ásamt Karmenu Vella - mynd
  • Ráðherra ásamt Fiona Hyslop - mynd
  • Utanríkisráðherra tekur á mót Sam Tan, forsætisráðuneyti Singapúr - mynd
  • Ráðherra ásamt Lisu Murkowski, öldungardeildarþingmanni frá Alaska - mynd
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum