Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2019

Samningur Íslands og UNESCO um þróunarsamvinnu

Samningur Íslands og UNESCO um þróunarsamvinnu - mynd© UNESCO/Fabrice GENTILE

Í gær var undirritaður í París rammasamningur milli Íslands og Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) um samstarf á sviði þróunarsamvinnu. Samninginn undirrituðu Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins og Xing QU aðstoðarframkvæmdastjóri UNESCO.

Rammasamningurinn er sá fyrsti sem Ísland og UNESCO gera um þróunarsamvinnu, og felur í sér að Ísland styðji við tvö verkefni á vegum stofnunarinnar. Annars vegar er um að ræða framlag til verkefnis sem miðar að því að styrkja getu fátækra ríkja við innleiðingu umbóta á sviði menntamála, og hins vegar framlag til að stuðla að tjáningarfrelsi og öryggi blaðamanna í þróunarlöndum. Miðað er við að framlögin nýtist sérstaklega í starfi UNESCO í Afganistan, sem er eitt af áherslulöndum Íslands í þróunarsamvinnu, bæði til að bæta aðgengi að menntun þar í landi, sem og til að tryggja öryggi blaðamanna.

Alls munu íslensk stjórnvöld verja um 174 milljónum króna á næstu fimm árum til þessara tveggja verkefna. Til viðbótar munu íslensk stjórnvöld senda íslenska sérfræðinga til starfa á vettvangi við innleiðingu ofangreindra verkefna, og veita til þess um 45 milljónum króna.

Megin markmið UNESCO er að efla alþjóðlega samvinnu á sviði menntunar, vísinda og menningarmála. Ber UNESCO höfuð ábyrgð á því meðal alþjóðastofnana að innleiða heimsmarkmið fjögur um menntun, og gegnir einnig lykilhlutverki við innleiðingu annarra heimsmarkmiða. Markmið og áherslur UNESCO falla vel að stefnu Íslands í þróunarsamvinnu, sérstaklega hvað varðar menntamál, mannréttindi og jafnrétti kynjanna.

Anna Katrín Vilhjálmsdóttir, Pálína Björk Matthíasdóttir, Kristján Andri Stefánsson, Sturla Sigurjónsson, Xing Qu, Ólafur Sigurðsson og Miriam Petra Ómarsdóttir Awad voru viðstödd undirskriftarathöfnina í UNESCO.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum