Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. október 2019 UtanríkisráðuneytiðUtanríkisráðuneytið

Þátttaka utanríkisráðherra í Hringborði norðurslóða

Utanríkisráðherra flutti ávarp um formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu - mynd
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og utanríkisráðuneytið tóku virkan þátt í Hringborði norðurslóðanna sem lauk í gær. Þá átti Guðlaugur Þór fundi með nokkrum þeirra ráðherra, þingmanna og annarra stjórnmálamanna sem sóttu Hringborðið.

Á fimmtudag ræddu Guðlaugur Þór og Rick Perry, orkumálaráðherra Bandaríkjanna góð tvíhliða samskipti ríkjanna. Rick Perry kynnti sér starfsemi HS Orku á meðan á heimsókn hans stóð og ræddu ráðherrarnir um mögulegt samstarf í orkumálum.  Þann dag átti Guðlaugur Þór einnig fundi með Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, og Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur. Á fundi þeirra Paula Lehtomäki var rætt um formennsku Íslands í ráðherranefndinni sem lýkur um næstu áramót. Á þessu ári munu um 180 viðburðir hafa verið haldnir í tengslum við formennskuna þegar henni lýkur. Einnig var rætt um málefni norðurslóða og nýlega yfirlýsing Norrænu ráðherranefndarinnar um loftslagsmál, Vision 2030. Á fundi Guðlaugs Þórs og Jeppe Kofod var sérstaklega rætt um stöðuna á alþjóðavettvangi, m.a. í Sýrlandi, málefni norðurslóða og Norðurlandaráðsþing sem verður haldið í Stokkhólmi í lok mánaðarins.

Á föstudag áttu utanríkisráðherrar Íslands, Grænlands og Færeyja hádegisverðarfund. Á dagskránni voru málefni norðurslóða, viðskipti milli landanna og áðurnefnd yfirlýsing Norrænu ráðherranefndarinnar um loftslagsmál, Vision 2030. Þá átti Guðlaugur Þór tvíhliða fund með Janis av Rana, utanríkisráðherra Færeyja, þar sem auk tvíhliða samstarfs var helst rætt um framtíð Hoyvíkursamningsins.

Guðlaugur Þór átti þá einnig fund með franska öldungadeildarþingmanninum Jean Bizet þar sem norðurslóðamál og alþjóðamál í víðara samhengi voru rædd. Norðurslóðamál og viðskiptamál voru ofarlega á fundi Guðlaugs Þórs og bandaríska öldungadeildarþingmannsins Lisa Murkowski frá Alaska. Einnig var rætt um þekkingarmiðlun á sviði orkumála á milli Íslands og Alaska og verkefni Íslands um bláa lífhagkerfið í formennsku Norðurskautsráðsins sem snýr að nýsköpun til að bæta nýtingu og markaðsvirði sjávarafla.

Þá átti Guðlaugur Þór fund með Francesco La Camera, framkvæmdastjóra IRENA, alþjóðastofnunar um endurnýjanlega orkugjafa. Ræddu þeir framlag Íslands á vettvangi jarðhitanýtingar og mikilvægi þess að nýta alla endurnýjanlega orkugjafa í þeim orkuskiptum sem fram undan eru.

Guðlaugur Þór átti einnig fund með Janet Mills, ríkisstjóra Maine-fylkis í Bandaríkjunum, en með henni í för voru 65 fulltrúar úr listalífi, viðskiptalífi og háskólasamfélagi Maine. Ræddu þau meðal annars samstarfstækifæri á sviði viðskipta, sjávarútvegs og loftslags- og orkumála.

Aukin þátttaka kvenna í friðarferlum og starfsemi norræns vettvangs kvensáttasemjara (Nordic Women Mediators Network, NWMN) var meðal þess sem hæst bar á fundi Guðlaugs Þórs og Madeleine Rees, framkvæmdastjóra Alþjóðasambands kvenna fyrir friði og frelsi (WILPF). Hún var stödd hér á landi vegna friðarráðstefnu Höfða friðarseturs sem haldin var í samstarfi við utanríkisráðuneytið og Reykjavíkurborg.

Guðlaugur Þór fundaði einnig með John Kerry, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem hefur áfram látið til sín taka í loftslagsmálum og málefnum hafsins eftir að hann lét af embætti. Ræddu þeir stöðuna á norðurslóðum, loftslagsmál, grænar lausnir, málefni hafsins og stöðu alþjóðamála.

Ane Lone Bagger, utanríkisráðherra Grænlands, og Guðlaugur Þór áttu einnig tvíhliða fund sín á milli. Aukið samstarf milli landanna er ofarlega á baugi um þessar mundir þar sem starfshópur á vegum utanríkisráðuneytisins vinnur nú að úttekt á samstarfstækifærum undir forystu Össurar Skarphéðinssonar. Guðlaugur Þór heimsótti Grænland í ágúst sl.

Á fundi Guðlaugs Þórs og Paul Wheelhouse, orkumálaráðherra Skotlands, ræddu ráðherrarnir vilja sinn til aukins samstarfs milli þjóðanna, loftslagsmál og grænar lausnir. Einnig var ný norðurslóðastefna skosku ríkisstjórnarinnar rædd.

Í ræðu sinni á föstudag fjallaði Guðlaugur Þór um formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og lagði áherslu á sjálfbæra þróun og efnahagslegauppbyggingu á norðurslóðum, fólki og samfélögum svæðisins til hagsbóta. Hann var einnig gestgjafi í móttöku fyrir þátttakendur í Hringborði norðurslóða á föstudagskvöld.

Á laugardag tók Guðlaugur Þór þátt í málstofu Vestnorræna ráðsins um hagsmuni vestnorrænu landanna Íslands, Færeyja og Grænlands á norðurslóðum þar sem hann gerði að umtalsefni þátttöku Vestnorræna ráðsins í starfi Norðurskautsráðsins, s.s. á sviði velferðar ungmenna á svæðinu. Þá tók hann þátt í málstofu á vegum utanríkisráðuneyta landanna þriggja um grænar orkulausnir. Í erindi sínu sagði hann meðal annars að Vestnorðurlöndin væru öll framarlega þegar kemur að grænum orkuskiptum en að enn væri verk að vinna. Þess vegna væri mikilvægt að löndin miðluðu af reynslu sinni og bestu lausnum.

Utanríkisráðuneytið gekkst fyrir tveimur öðrum hliðarviðburðum á Hringborði norðurslóða í samstarfi við Norðurslóðanet Íslands á Akureyri, annars vegar viðburði um jafnréttismál á norðurslóðum og hins vegar um öryggi í siglingum á norðurhöfum. Hvort tveggja er áherslumál í formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og skoðast viðburðirnir í samhengi formennskunnar.
  • Utanríkisráðherra ásamt hreindýrahirðum frá norðurhluta Noregs
  • Utanríkisráðherra ásamd Paul Wheelhouse, orkumálaráðherra Skotlands
  • Utanríkisráðherra ásamt Ane Lone Bagger, utanríkisráðherra Grænlands
  • Utanríkisráðherra ásamt Ane Lone Bagger, utanríkisráðherra Grænlands, og Janis av Rana, utanríkisráðherra Færeyja
  • Utanríkisráðherra ásamt John Kerry, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna
  • Utanríkisráðherra ásamt Rick Perry, orkumálaráðherra Bandaríkjanna
  • Utanríkisráðherra ásamt Lisu Murkowski öldungardeildarþingmanni og Jeffrey Gunther sendiherra

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira