Hoppa yfir valmynd
25. október 2019

Opinber heimsókn forseta Íslands til Japans

Opinberri heimsókn forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessonar og frú Elizu Reid lauk í dag, en forseti var í vikunni viðstaddur krýningu nýs Japanskeisara við hátíðlega athöfn í Tókýó. Yfir 100 erlendir þjóðhöfðingjar og 2500 gestir voru viðstaddir athöfnina. Heimsókn forseta að þessu sinni er fyrsta opinbera heimsókn íslensks forseta til Japans í 30 ár, eða frá því frú Vigdís Finnbogadóttir var viðstödd útför Showa keisarans árið 1989.

Í heimsókn sinni til Japans fundaði forseti einnig með Shinzo Abe forsætisráðherra. Á fundi sínum með Abe ræddi forseti sterk tvíhliða tengsl ríkjanna á vettvangi menningar, viðskipta og stjórnmála. Þá var rætt um þá lærdóma sem Japanir gætu dregið af reynslu Íslendinga á sviði jarðhitanýtingar, um aukna áherslu á alþjóðavettvangi á málefni norðurslóða sem og þær áskoranir sem fylgdu hlýnun jarðar á næstu árum og áratugum.

Forseti fundaði einnig með Yasuhiro Yamashita formanni japönsku Ólympíunefndarinnar og Daichi Suzuki framkvæmdastjóra japanska íþróttasambandsins, en næstu Ólympíuleikar og Paralympics munu fara fram í Tókýó næsta sumar.

Fundur forseta með Tadamori Oshima forseta neðri deildar japanska þjóðþingsins fór svo fram 24.október en um kvöldið lauk formlegri dagskrá forseta með hátíðarmóttöku sendiherra Íslands í Japan Elínar Flygenring í sendiráði Íslands. Um móttökuna sá yfirkokkur íslenska utanríkisráðuneytins Friðrik Sigurðsson, en mikil áhersla var á kynningu íslensks hráefnis og íslenskrar matargerðar í ferð forseta til Japans.

Dagskrá frú Elizu Reid var einnig metnaðarfull, en forsetafrú stýrði meðal annars hringborðsumræðum um jafnréttismál hjá Sophia háskóla, einum helsta háskóla borgarinnar. Forsetafrú heimsótti einnig höfuðstöðvar íslenska hugbúnaðafyrirtækisins Cooori.

Efling samstarfs íslenskra og japanskra háskóla var fyrirferðamikil í dagskrá forseta í Japan, en með í för forseta var rektor Háskóla Íslands Jón Atli Benediktsson. Hélt forseti m.a. fyrirlestur við Tokyo háskóla undir yfirskriftinni “The Might of the Weak. The Role of Small States in International Relations and the Case of Iceland”. Forseti fundaði einnig með yfirstjórn Tokai háskóla en skólinn starfrækir sérstaka deild norrænna fræða. Jón Atli Benediktsson var svo aðalræðumaður á sérstöku málþingi um íslenskt mál og menningu við Waseda háskóla, en málstofan var samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Veraldar - Húss Vigdísar Finnbogadóttur, sendiráðs Íslands í Tókýó og Waseda háskóla.

  • Opinber heimsókn forseta Íslands til Japans - mynd úr myndasafni númer 1
  • Opinber heimsókn forseta Íslands til Japans - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum