Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2020

Design Diplomacy á Hönnunarviku í Stokkhólmi

Sendiráð Íslands, í samstarfi við Hönnunarmiðstöð Íslands og Stockholm Design Event, stóð fyrir viðburði undir yfirskriftinni Design Diplomacy í tengslum við hönnunarviku í Stokkhólmi sem fer fram dagana 3.-9. febrúar.

Slíkir viðburðir hafa verið haldnir í tengslum við hönnunarhátíðir víða um heim, meðal annars í Reykjavík, en þar býðst gestum að hlýða á opið og einlægt samtal fulltrúa hönnunariðnaðarins frá heimalandi sendiherrans við kollega þeirra frá gistiríkinu. Viðburðirnir fara fram í embættisbústöðum sendiherranna, sem einnig eru heimili þeirra, og er lagt upp með að gestir upplifi nánd við bæði gestgjafa og fulltrúa ríkjanna tveggja úr hönnunarheiminum. Markmiðið er einnig að ýta undir og varpa ljósi á mikilvægi menningarlegra tengsla á milli viðkomandi landa.

Sendiherra Íslands, Estrid Brekkan, bauð gestina velkomna og fór nokkrum orðum um hinn íslenska menningararf og þær sterku rætur sem íslensk hönnun á í frásagnarhefðinni. Hún benti einnig á að þótt saga Íslands sem hönnunarlands í hefðbundnum skilningi sé kannski ekki jafnlöng og hinna Norðurlandanna þá hafi Íslendingar náð að gera sig gildandi á vettvang hönnunar á tiltölulega skömmum tíma eftir að þeir tóku við sér.

Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands, tók þátt í samtalinu fyrir Íslands hönd og ræddi þar við Mats Widbom, framkvæmdastjóra Svensk Form. Þau skiptust á að draga spurningar fyrir hvort annað úr stokki og fjölluðu þær um allt frá því hvaða hönnunarbók þau mældu með til þess hvaða verkefni hafi verið þeirra mikilvægasta á lífsleiðinni. Nokkuð var rætt um það hver sérstaða Íslendinga sem hönnuða væri og kom meðal annars fram að ef til vill gerðu aðstæður á Íslandi það að verkum að íslenskir hönnuðir væru tilraunagjarnir í samanburði við aðra, enda bjóði íslenskt atvinnuumhverfi ekki upp á margar sjálfsagðar leiðir fyrir hönnuði og því þurfi margir að skapa sér sín eigin tækifæri. Þá voru þau Mats og Halla sammála um mikilvægi norrænnar samvinnu og kallaði Halla einnig eftir því að fólk muni að tala um Norðurlöndin í stað Skandinavíu í þessu samhengi.

Vel var mætt á viðburðinn og mynduðust skemmtilegar og áhugaverðar umræður í hverjum krók og kima embættisbústaðarins.

  • Design Diplomacy á Hönnunarviku í Stokkhólmi - mynd úr myndasafni númer 1
  • Design Diplomacy á Hönnunarviku í Stokkhólmi - mynd úr myndasafni númer 2
  • Design Diplomacy á Hönnunarviku í Stokkhólmi - mynd úr myndasafni númer 3
  • Design Diplomacy á Hönnunarviku í Stokkhólmi - mynd úr myndasafni númer 4

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum