Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2020 Utanríkisráðuneytið

Íslensk fjölskylda í Kína aðstoðuð við heimferð

Þotan sem flutti fólk frá Wuhan á Charles de Gaulle-flugvelli í dag - myndUtanríkisráðuneytið

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins og sendiskrifstofurnar í Peking og París, í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið, sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, unnu í samstilltu átaki að heimflutningi íslenskrar fjölskyldu frá Wuhan í Kína í dag.

Fjölskyldan, sem dvalist hefur í Wuhan að undanförnu, óskaði eftir því fyrir skemmstu að komast heim til Íslands. Miklar takmarkanir eru á samgöngum frá Wuhan en í gegnum almannavarnasamstarf Evrópu, sem Ísland á fulla aðild að, var hægt að koma fólkinu í sérstakt flug til Frakklands sem var skipulagt fyrir Evrópubúa á svæðinu. 33 Evrópuríki standa að þessu samstarfi: ESB-ríkin 27 og Noregur, Ísland, Svartfjallaland, Norður-Makedónía, Serbía og Tyrkland.
 
Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins, í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið, sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, annaðist skipulagningu og samhæfingu heimflutningsins. Sendiráð Íslands í Peking hefur átt í samskiptum við kínversk stjórnvöld vegna málsins og aðstoðað fjölskylduna eftir þörfum. Þá annaðist starfsfólk sendiráðs Íslands í París samskipti við frönsk stjórnvöld vegna flugsins frá Kína og tryggði að fjölskyldan kæmist klakklaust um borð í leiguvél til Íslands.

Vélin lenti í Reykjavík síðdegis og er fólkið nú komið til síns heima. Það hefur gengist undir læknisskoðun og heldur sig heima við næstu daga í samræmi við tilmæli sóttvarnalæknis. 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum