Hoppa yfir valmynd
17. september 2020 Utanríkisráðuneytið

Skýrsla Björns kynnt á utanríkisráðherrafundi Norðurlanda

Frá Borgundarhólmi í dag. Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, Björn Bjarnason, Guðlaugur Þór Þórðarson og Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók þátt í fundi norrænna utanríkisráðherra á Borgundarhólmi í dag þar sem Björn Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, kynnti skýrslu um norrænt samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála. Guðlaugur Þór átti jafnframt tvíhliða fund með Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, um ýmis málefni.

Danir eru í formennsku norrænnar samvinnu í ár og því fór fundurinn í dag fram á dönsku eynni Borgundarhólmi í Eystrasalti. Skýrsla Björns Bjarnasonar, sem út kom í júlíbyrjun, var þar efst á baugi og kynnti hann verkið sjálfur. Á fundi í Stokkhólmi í október sl. ákváðu norrænu utanríkisráðherrarnir, að tillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, að fela Birni að skrifa óháða skýrslu þar sem gerðar yrðu tillögur um þróun samstarfs Norðurlandanna á sviði utanríkis- og öryggismála. Þetta var gert í tilefni af tíu ár voru liðin síðan Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, skrifaði sambærilega skýrslu, en stórum hluta þeirra tillagna hefur verið hrint í framkvæmd.

Á fundinum í dag gerðu norrænu ráðherrarnir góðan róm að skýrslu Björns og sammæltust um að skoða tillögur úr öllum þremur köflum hennar sem fjalla um loftslagsmál, fjölþáttaógnir og fjölþjóðakerfið í því augnamiði að koma þeim í framkvæmd.

„Mikil samstaða ríkir meðal okkar ráðherranna um að Norðurlöndin standi ávallt betur þegar þau vinna saman og er ástæða til að vekja frekari athygli á og efla það samstarf sem þegar fer fram, meðal annars á vettvangi fjölþjóðastofnana.“ sagði Guðlaugur Þór. „Norðurlöndin standa okkur næst og við njótum góðs af okkar nána samstarfi. Við viljum gjarnan sjá tillögur Björns um enn nánara samstarf verða að veruleika, ekki síst hvað varðar fjölþáttaógnir.“ 

Á fundinum fjölluðu ráðherrarnir einnig um málefni Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kína, átakasvæði í Afríku og konur, frið og öryggi. Þetta endurspeglaðist í yfirlýsingu fundarins þar sem ráðherrarnir fordæmdu einnig tilræðið við rússneska stjórnarandstöðuleiðtogann Alexej Navalní, ítrekuðu ákall sitt eftir viðræðum stjórnar og stjórnarandstöðu í Hvíta-Rússlandi í kjölfar forsetakosninganna í ágúst og lögðu áherslu á mikilvægi þess að konur yrðu virkir þátttakendur í friðar- og öryggismálum.

Guðlaugur Þór átti einnig fund með Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, þar sem þeir ræddu m.a. öryggismál og tillögur þar að lútandi í skýrslu Björns Bjarnasonar. Ríkin vinna náið saman á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og samstarfs norrænu ríkjanna á sviði öryggis- og varnarmála, NORDEFCO.

 

 

  • Frá utanríkisráðherrafundi Norðurlanda á Borgundarhólmi - mynd
  • Guðlaugur Þór Þórðarson ásamt Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, og Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur - mynd
  • Guðlaugur Þór Þórðarson og María Mjöll Jónsdóttir, skrifstofustjóri alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum