Hoppa yfir valmynd
24. september 2020 Utanríkisráðuneytið

75. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hafið

António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, ávarpar allsherjarþingið í vikunni. - myndUN Photo/Rick Bajornas

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra ávarpaði í gær fund um málefni hinsegin fólks sem haldinn var í tengslum við 75. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í New York. Vegna heimsfaraldursins sækja íslenskir ráðamenn ekki allsherjarþingið að þessu sinni heldur er þátttaka þeirra með fjarfundarbúnaði og myndbandsupptökum.

75. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna var sett með formlegum hætti í síðustu viku og fer að þessu sinni fram með blönduðum hætti vegna kórónuveirufaraldursins. Því stendur ekki til að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands taki þátt í þinginu nema í gegnum fjarfundarbúnað og með myndbandsávörpum. Fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum tekur hins vegar þátt í viðburðum á staðnum.

Að venju fer fram allnokkur fjöldi funda og hliðarviðburða með þátttöku fulltrúa Íslands. Viðburðurinn um málefni hinsegin fólks í gær var haldinn á vegum sérstaks kjarnahóps um þau mál sem Ísland hlaut aðild að í maí sl. Í ávarpi sínu lagði Guðlaugur Þór áherslu á mannréttindi sem hornstein íslenskrar utanríkisstefnu. „Það er einnig mín trú að ef við ætlum að ná að hrinda í framkvæmd áætluninni um sjálfbæra þróun fyrir árið 2030, með meginmarkmiðið í huga um að engan megi undanskilja, verður að tryggja jafnrétti allra, þar á meðal hinsegin fólks um allan heim, og að engin mismunun eigi sér stað,“ sagði Guðlaugur Þór í ávarpinu. „Uppræta þarf þá smánun og rótgrónu fordóma sem eru við lýði og jafnframt þarf að sjá til þess að hinsegin fólk geti notið grundvallarmannréttinda og virðingar hvar sem er,“ sagði Guðlaugur Þór enn fremur.

Venju samkvæmt mun utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra ávarpa allsherjarþingið og verður upptaka með ávarpinu flutt þriðjudaginn 29. september. Þá ávarpar utanríkisráðherra fund sérstaks bandalags um fjölþjóðasamvinnu, Alliance for Multilateralism, sem fer fram rafrænt síðdegis á morgun og tekur þátt í sameiginlegu ávarpi leiðtoga víðs vegar úr heiminum um jafnréttismál.

Ráðherravika allsherjarþingsins hófst með sérstökum 75 ára afmælisfundi Sameinuðu þjóðanna mánudaginn 21. september og var upptaka með ávarpi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra leikin á fundinum. Forsætisráðherra tekur einnig þátt í fundi um jafnréttismál 1. október nk í tilefni af því að aldarfjórðungur er liðinn frá  samþykkt svonefndrar Peking-yfirlýsingar og framkvæmdaáætlunar um réttindi og valdeflingu kvenna . Þá er stefnt að þátttöku umhverfis- og auðlindaráðherra á ráðherrafundi um líffræðilegan fjölbreytileika sem fer fram 30. september.

Fulltrúar úr fastanefnd Íslands í New York sitja að þessu sinni í fremstu röð í sal allsherjarþingsins en sá háttur er hafður á í aðdraganda þingsins að dregið er um hvaða ríki situr fremst í salnum. Önnur ríki raðast svo í stafrófsröð þar á eftir.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum