Hoppa yfir valmynd
17. desember 2020

Þétt norrænt samstarf á fjarlægum slóðum

Sigríður Snævarr sendiherra með fjarfundargestum. - mynd

Á dögunum stóð Sigríður Snævarr sendiherra fyrir fjarhádegisverði með norrænum starfsystkinum sínum í Malasíu, kjörræðismanni Íslands í Kuala Lumpur og Má Guðmundssyni, fyrrverandi seðlabankastjóra, sem flutti framsögu.

Í janúar s.l. var Sigríður tilbúin að halda til Kuala Lumpur að afhenda trúnaðarbréf sem sendiherra Ísland í Malasíu með aðsetur á Íslandi. Nokkru fyrr höfðu þau Már Guðmundsson frv. seðlabankastjóri og kona hans, Elsa Þorkelsdóttir lögfræðingur farið til Malasíu til tímabundinna starfa þar. Til stóð að halda norrænan hádegisverð þegar þangað yrði komið og að Már kynnti sendiherrunum viðfangsefni sín.

Afhending Sigríðar á trúnaðarbréfi sínu í Malasíu frestaðist hins vegar stöðugt og greip hún því til þess ráðs að bjóða norrænum starfsystkinum sínum í Malasíu til rafræns hádegisverðar. Frá Kuala Lumpur tóku þátt Dag Juhlin-Dannfelt, sendiherra Svíþjóðar, Gunn Jorid Roset, sendiherra Noregs, Kirsten Geelan, sendiherra Danmerkur, Sami Leino, sendiherra Finnlands og James Khor, kjörræðismaður Íslands í Kuala Lumpur.

Frá utanríkisráðuneytinu í Reykjavík stjórnaði Sigríður fundinum og kynnti Má Guðmundsson til leiks. Már var fyrr á þessu ári gestafræðimaður við stofnun samtaka seðlabanka í Suðaustur Asíu (SEACEN) í Kuala Lumpur í Malasíu og hefur síðan starfað með samtökunum að rannsóknum og stefnumótun varðandi varðveislu efnahagslegs og fjármálalegs stöðuleika í litlum löndum með sjálfstæða peningastefnu sem búa við sveiflukenndar fjármagnshreyfingar gagnvart umheiminum. Í framsögu sinni greindi Már frá bakgrunni dvalar sinnar í Malasíu og fór í stórum dráttum yfir eflingu viðnámsþróttar og beitingu tækja sem miða að þessu markmiði. Auk þess bar hann saman hvernig þessar umbætur hafa reynst Íslandi annars vegar og Malasíu hins vegar í kórónaveirukreppunni. Margar spurningar brunnu á fundarmönnum og urðu líflegar samræður.

Undir lok hádegisverðarins ávarpaði Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri fundinn og fagnaði hinu þétta norræna samstarfi í Malasíu og notaði tækifærið til að róma frammistöðu James Khor kjörræðismanns, en mikið mæddi á honum, eins og öðrum ræðismönnum Íslands, þegar kórónaveirufaraldurinn skall á.

Næsti fjarhádegisverður er áætlaður í ársbyrjun 2021 en þá bíður Sigríður, sem er einnig sendiherra Íslands gagnvart Ástralíu, norrænum sendiherrrum í Canberra til fundar.

  • Már Guðmundsson frv. seðlabankastjóri og Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðauneytisins. - mynd
  • Sigríður Snævarr sendiherra - mynd
  • Már Guðmundsson, frv. seðlabankastjóri - mynd
  • Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins og Sigríður Snævarr sendiherra - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum