Hoppa yfir valmynd
26. mars 2021

Sendiherra afhendir trúnaðarbréf í Armeníu

Árni Þór Sigurðsson sendiherra og Armen Sarkissian, forseti Armeníu - myndEmbætti forseta Armeníu

Fimmtudaginn 25. mars sl. afhenti Árni Þór Sigurðsson, sendiherra, forseta Armeníu, Armen Sarkissian, trúnaðarbréf sem sendiherra Íslands í Armeníu með aðsetur í Moskvu. Athöfnin fór fram í forsetahöllinni í Jerevan. Í kjölfarið átti sendiherra fund með forsetanum þar sem rætt var um tvíhliða samskipti ríkjanna og möguleika til að efla þau enn frekar. Einkum var rætt um samstarf á sviði hátækni og orkumála, fjármálaþjónustu, flugmála, heilbrigðismála o.fl. Forsetinn gat um heimsóknir sínar til Íslands og að hann væri afar heillaður af landi og þjóð og þeim árangri sem svo fámenn þjóð hefði náð á fjölmörgum sviðum. Sendiherra rifjaði upp fyrri heimsóknir sínar til landsins og jákvæð kynni af landinu og armensku þjóðinni.

Í tengslum við afhendingu trúnaðarbréfs átti sendiherra einnig fundi með varautanríkisráðherra, heilbrigðisráðherra, varasamgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs og ræddi þá nánar um farsæl samskipti landanna til þessa, m.a. á vettvangi alþjóðastofnana, nýlegt samstarf í flugmálum og heilbrigðismálum og frekari samstarfs- og viðskiptatækifæri milli landanna. Þá hitti sendiherra fulltrúa úr fræðasamfélaginu á sviði stjórnmála og alþjóðasamskipta þar sem stjórnmálaþróun í landinu og á Kákasussvæðinu var til umræðu, auk þess að heimsækja menningarstofnanir og leggja blómsveig að minnisvarðanum um fórnarlömb þjóðarmorðsins á Armenum 1915. Loks opnaði sendiherra formlega nýja ræðisskrifstofu Íslands í Jerevan ásamt nýskipuðum kjörræðismanni, Levon Hayrapetyan.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum