Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2021

Sendiherra Íslands afhendir trúnaðarbréf í Kasakstan

Árni Þór Sigurðsson sendiherra og Kassym-Jomart Tokayev, forseti Kasakstan  - myndForsetaskrifstofa Kasakstan

Þann 27. apríl síðastliðinn afhenti Árni Þór Sigurðsson sendiherra Kassym-Jomart Tokayev forseta Kasakstan trúnaðarbréf sitt sem sendiherra í Kasakstan með aðsetur í Moskvu. Athöfnin fór fram í forsetahöllinni í Nur-Sultan (áður Astana), höfuðborg landsins. Alls afhentu sex aðrir sendiherrar trúnaðarbréf við sama tækifæri, flestir með aðsetur í Moskvu.

Vegna sóttvarnarráðstafana var ekki boðið upp á hefðbundinn fund með forsetanum en sendiherra og forsetinn rifjuðu þó upp gagnlegan fyrri fund þeirra á Íslandi fyrir tæpum tveimur árum.

Í tengslum við heimsóknina til Kasakstan átti sendiherra fundi með varautanríkisráðherra og varaorkumálaráðherra, og ræddi almennt um samstarf ríkjanna, m.a. á sviði alþjóðastofnana, viðskiptatækifæri, ferðamennsku o.fl. Einnig heimsótti sendiherra Samruk-Kazyna sjóðinn, sem fer með opinbert eignarhald á fjölmörgum fyrirtækjum í landinu, þar á meðal í orkugeiranum. Samstarf Íslands og Kasakstan á sviði endurnýjanlegrar orku, einkum jarðvarma, var til umræðu á öllum fundum og er gagnkvæmur vilji til að auka og styrkja það samstarf með þátttöku íslenskra fyrirtækja.

Ræðismaður Íslands í Kasakstan, Adema Zhanasova, tók einnig þátt í dagskrá sendiherra.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum