Hoppa yfir valmynd
11. maí 2021 Utanríkisráðuneytið

Árangursrík þátttaka í ungliðaáætlun Sameinuðu þjóðanna

Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York - mynd

Ísland tók þátt í ungliðaáætlun Sameinuðu þjóðanna 2005-2015 og hefur innri rýni ráðuneytisins á þeirri þátttöku nú verið gefin út, auk samantektar. Markmiðið var m.a. að afla lærdóms sem hægt væri að leggja til grundvallar þátttöku Íslands á nýjan leik.

Rýnin byggði á viðtölum við íslenska þátttakendur, gögnum úr málaskrá ráðuneytisins og úttektum nágrannalandanna. Leitast var við að varpa ljósi á og draga lærdóm af þeim árangri sem hlaust af stuðningi Íslands, virðisauka þátttöku fyrir íslenska ungliða sem og stofnanir Sameinuðu þjóðanna.

Tíu ungir sérfræðingar voru á sínum tíma ráðnir til starfa hjá þremur stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Tveir fyrrum ungliðar starfa enn innan kerfis Sameinuðu þjóðanna, tveir hjá utanríkisráðuneytinu og þrír innan háskólasamfélags með áherslu á alþjóðleg málefni. Loks starfa þrír fyrrverandi ungliðar að alþjóðlegum verkefnum fyrir frjáls félagasamtök í þróunarsamvinnu.

Niðurstöður benda til að þátttaka Íslands í ungliðaáætlun Sameinuðu þjóðanna hafi skilað margvíslegum árangri. Til marks um það er að allir þessir fyrrum ungliðar starfa enn á vettvangi alþjóðamála og þróunarsamvinnu. Meginniðurstöður rýninnar eru þær að þátttaka í ungliðaáætlun Sameinuðu þjóðanna sé fýsilegur kostur fyrir Ísland, svo fremi sem fjármagn sé til staðar og þátttakan fari ekki umfram skynsamleg mörk, að verkefnið byggi á heildrænni sýn á uppbyggingu mannauðs innan alþjóða- og þróunarsamvinnu, og að vinnulag og útfærsla verkefnisins sé með faglegum hætti.

Ellefu tillögur eru settar fram í rýninni og er þar lögð áhersla á að hámarka þann ábata sem af hlýst vegna þátttöku í verkefninu og mikilvægi þess að utanríkisráðuneytið skapi vandaða og faglega umgjörð um starfið. Það felur m.a. í sér að ráðuneytið setji sér skýr markmið og leitist við að læra af þátttöku nágrannalandanna í ungliðaáætluninni, auk þess að meta árangurinn af þátttöku þegar fram líða stundir.

Utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að taka þátt í ungliðaáætlun Sameinuðu þjóðanna á nýjan leik. Verður byggt á niðurstöðum rýninnar fyrir umgjörð verkefnisins. Ætlunin er að gefa ungum íslenskum sérfræðingum tækifæri til að starfa innan ólíkra stofnana Sameinuðu þjóðanna. Þannig gefist þeim kost á að byggja upp starfsframa sem tengist alþjóðamálum og þróunarsamvinnu og leggja sitt af mörkum til að heimsmarkmiðunum verði náð.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum