Hoppa yfir valmynd
17. september 2021 Sendiráð Íslands í París

Viðburður OECD og Íslands í tilefni jafnlaunadagsins

Þátttakendur í pallborði á viðburði Íslands og OECD á alþjóðlega jafnlaunadaginn - mynd

Í tilefni af alþjóðlega jafnlaunadeginum hélt Ísland í samstarfi við OECD viðburð í höfuðstöðvum stofnunarinnar í dag, en hægt var að fylgjast með fundinum á netinu. Haldið verður upp á daginn í annað sinn á morgun, 18. september, en Ísland átti frumkvæði að ályktun um tilnefningu dagsins á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2019. Á viðburðinum komu saman leiðtogar úr einkageiranum og hinu opinbera og sögðu frá þeim leiðum sem vel hafa gagnast í baráttunni fyrir auknu launajafnrétti kynjanna. Sérstök áhersla var lögð á nýja möguleika í tækni og nýjungar í lausnum hins opinbera á þessu sviði.

Unnur Orradóttir-Ramette, sendiherra Íslands gagnvart OECD, flutti opnunarávarp og Muriel Pénicaud, sendiherra Frakklands gagnvart OECD og fyrrverandi vinnumálaráðherra, sagði frá nýlegum laga- og stefnubreytingum á sviðinu í Frakklandi sem hafa þótt ganga vel.

Varaframkvæmdastjóri OECD, Ulrik Knudsen, tók einnig til máls og nefndi sérstaklega mikilvægi barneignarorlofs, aukins aðgengis að umönnun barna á borð við leikskólapláss, og aðgerða í launamálum. Mikilvægi tölfræði til grundvallar framförum á sviðinu var ítrekað á viðburðinum, og bent var sérstaklega á kynjaðan launamun eftirlaunaþega og mikilvægi þess að koma í veg fyrir hann snemma í lífi kvenna. Mælendur nefndu einnig þær samfélagslegu ástæður sem hafa áhrif á launamuninn, og gera það meðal annars að verkum að laun fyrir dæmigerð kvennastörf eru oft lægri en laun fyrir karlastörf. Því þarf að leggja meiri áherslu á að leiðrétta þær samfélagslegu hugmyndir sem hafa neikvæð áhrif á stöðu kvenna á atvinnumarkaði. Að loknum kynningum var opnað fyrir innsendar spurningar til viðmælenda í pallborði.

Fundarstjóri var Ragnheiður Elín Árnadóttir, framkvæmdastjóri þróunarmiðstöðvar OECD, en aðrir mælendur voru Monika Queisser yfirmaður félags- og vinnumarkaðsmála hjá OECD, Margrét V. Bjarnadóttir, einn stofnenda PayAnalytics, Christine Theodorovics, þróunarstjóri hjá AXA, og Gabriela Ramos, aðstoðarframkvæmdastjóri félags- og hugvísinda hjá UNESCO. Með viðburðinum var ætlunin að auka sýnileika alþjóðlega jafnlaunadagsins, og á sama tíma stuðla að aukinni alþjóðlegri samvinnu með aðkomu einkageirans og hins opinbera, í átt að auknu launajafnrétti. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira