Hoppa yfir valmynd
17. maí 2022 Utanríkisráðuneytið, Forsætisráðuneytið

Ísland verður gestgjafi IDAHOT+ Forum 2023

Ísland tekur við IDAHOT fánanum af fulltrúum Breta og Kýpur við hátíðlega athöfn - mynd

Árlegur samráðsfundur IDAHOT+ Forum verður haldinn á Íslandi í maí 2023 í tengslum við formennsku Íslands í Evrópuráðinu. Þetta verður í tíunda sinn sem efnt er til þessa samráðs sem sameinar evrópskar ríkisstjórnir, aðgerðasinna, borgaralegt samfélag og aðra hagsmunaaðila til að meta framgang réttinda hinsegin fólks í álfunni. Fundurinn er haldinn árlega í kringum alþjóðadag gegn fordómum gagnvart hinsegin fólki (IDAHOT) þann 17. maí.

Regnbogakort Evrópusamtaka hinsegin fólks (e. ILGA Europe) er jafnframt birt á IDAHOT+ fundinum en kortið sýnir á myndrænan hátt lagalega stöðu og réttindi hinsegin fólks í ríkjum Evrópu. Ísland hefur hækkað um fimm sæti á milli ára og er nú í níunda sæti en var í 14. sæti í fyrra.

Samráðsfundurinn er skipulagður af evrópsku samhæfingarneti aðila sem starfa að málefnum hinsegin fólks í Evrópu (EFPN) í samstarfi við Evrópuráðið og formennskuríki hverju sinni. Ísland tók við formennskukeflinu af Kýpur og Bretlandi við hátíðlega athöfn í Limassol á Kýpur í síðustu viku. Forsætisráðuneytið, sem ber ábyrgð á jafnréttis – og mannréttindamálum fer fyrir skipulagi samráðsfundarins í maí 2023.

Ísland tekur við formennsku í Evrópuráðinu í sex mánuði frá nóvember á þessu ári. Meðan á formennskunni stendur leiðir Ísland starf ráðsins, hefur málefnalegt frumkvæði í starfseminni og er í fyrirsvari fyrir Evrópuráðið gagnvart öðrum alþjóðastofnunum.

Evrópuráðið var stofnað 5. maí 1949 í kjölfar hörmunga síðari heimstyrjaldarinnar. Ísland gerðist aðili að Evrópuráðinu 7. mars 1950 og hefur einu sinni áður gegn formennsku í ráðinu.Evrópuráðið hefur það að markmiði að efla samvinnu 46 aðildarríkja stofnunarinnar og standa vörð um mannréttindi, lýðræðislega stjórnarhætti og réttarríkið.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum