Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2022 Utanríkisráðuneytið

Samið um hagnýtingu ljósleiðaraþráða

Samið um hagnýtingu ljósleiðaraþráða - myndBrett Sayles/Pexels

Utanríkisráðherra hefur að tillögu nefndar um ráðstöfun ljósleiðaraþráða samið við Ljósleiðarann ehf. um hagnýtingu tveggja þráða í ljósleiðarastreng Atlantshafsbandalagsins. Ákveðið var að ganga til samninga við fyrirtækið að undangengnu auglýstu ferli þar sem óskað var eftir tillögum um samningsbundin afnot af einum eða tveimur þráðum.

Ljósleiðarastrengurinn sem um ræðir, oft kallaður NATO-ljósleiðarinn, var lagður af Póst- og simamálastofnun fyrir rúmum þremur áratugum hringinn í kringum landið og til Vestfjarða. Um er að ræða einn streng með átta ljósleiðaraþráðum. Fimm þeirra eru í eigu Mílu ehf. en hinir þrír eru á eignaskrá Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins. Upphaflega voru þræðirnir ætlaðir til samskipta á milli stjórnstöðvar Atlantshafsbandalagsins á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og ratsjár- og fjarskiptastöðva á landshornunum en vegna tækniþróunar er ekki þörf á öllum strengjunum fyrir þau samskipti í dag.

Utanríkisráðherra er heimilt að veita gegn gjaldi samningsbundin afnot af þráðunum að virtum öryggisreglum og forgangsrétti Atlantshafsbandalagsins. Árið 2010 var í kjölfar útboðs gerður samningur við Vodafone, þá Og fjarskipti ehf., um tíu ára leigu á einum þræði. Gildistími samningsins hefur verið framlengdur í tvígang um ár í senn en hann rennur út þann 31. desember 2022.

Tvö ár eru síðan þáverandi utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra skipaði starfshóp um ljósleiðaramálefni sem gera skyldi gera heildstæða úttekt og mat á ljósleiðaramálum á Íslandi með tilliti til þjóðaröryggis og þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslands. Starfshópurinn skilaði skýrslu og skilagrein með tillögum til ráðherra í febrúar 2021.

Á grundvelli skýrslu starfshópsins hófst vinna við undirbúning á ráðstöfun þráðanna í utanríkisráðuneytinu í samráði við önnur ráðuneyti og varnarmálasvið Landhelgisgæslu Íslands sem annast rekstur þráðanna í umboði utanríkisráðuneytisins. Snemma árs 2022 skipaði utanríkisráðherra nefnd um ráðstöfun ljósleiðaraþráða undir forystu Haralds Benediktssonar alþingismanns. Nefndin annaðist auglýsta ferlið þar sem óskað var eftir tillögum um samningisbundin afnot af þráðunum og lagði mat á innsendar tillögur.

Tillaga Ljósleiðarans var með hæstu einkunn af innsendum tillögum í gæðamati þar sem m.a. var lagt mat á hvort tillögur stuðluðu að aukinni samkeppni, jákvæðri byggðarþróun og bættum undirstöðum hugvitsiðnaðar til dæmis með ljósleiðaravæðingu á landsbyggðinni. Jafnframt var litið til þess hvort tillögur stuðluðu að öryggishagsmunum fjarskiptaneta með hliðsjón af þjóðaröryggis- og varnarhagsmunum og hver reynsla þátttakenda af rekstri fjarskiptaneta væri. Þá var lögð áhersla á að leiguverð endurspeglaði verð á markaði.

Samningurinn gildir til allt að tíu ára með möguleika á framlengingu, en að lágmarki fimm ára. Áætlað er að þræðirnir verði afhentir snemma á nýju ári að gildistíma núgildandi leigusamnings liðnum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum