Hoppa yfir valmynd
23. september 2022 Utanríkisráðuneytið

Ráðherravika allsherjarþingsins stendur sem hæst

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og bandaríski forsetahjónin Joe og Jill Biden - myndHvíta húsið

77. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna stendur nú yfir í New York þar sem leiðtogar aðildarríkjanna 193 koma saman. Í tengslum við þingið hefur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hitt utanríkisráðherra fjölmargra ríkja bæði nær og fjær og tekið þátt í tengdum viðburðum.

„Það er ómetanlegt að ná að hitta hér á einum stað fulltrúa frá öllum heims hornum og ræða hvernig við getum best tekist á við þær miklu áskoranir sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir. Innrás Rússa í Úkraínu og sú stigmögnun sem Pútín boðaði í vikunni hefur auðvitað sett svip sinn á allsherjarþingið enda brýtur hún gegn grundvallarreglum alþjóðakerfisins og stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Í dag tók utanríkisráðherra þátt í fundi Grænhópsins svonefnda, sem er óformlegur samstarfshópur sex ríkja á sviði umhverfismála: Grænhöfðaeyja, Kosta Ríka, Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Singapúr, Slóveníu og Íslands. „Öll ríkin vilja leggja sitt af mörkum í baráttunni við loftslagsvána og heilbrigði sjávar. Sjálfbær nýting auðlinda er sömuleiðis lykillinn að fæðu- og orkuöryggi til framtíðar,“ segir utanríkisráðherra

Þá átti Þórdís Kolbrún tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum Georgíu, Svartfjallalands, Portúgals, Kýpur og Rúanda svo og með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Andorra. Tvíhliða samband Íslands og þessara ríkja og staða og horfur í alþjóðamálum voru á meðal helstu umræðuefna. Þá áttu þau Þórdís Kolbrún og Philippe Lazzarini, framkvæmdastjóra Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) fund í morgun, en Ísland hefur stutt starf stofnunarinnar um áratuga skeið.

Í gær sótti utanríkisráðherra fund óformlegs ráðherrahóps til stuðnings Alþjóðlega sakamáladómstólsins (ICC) þar sem Karim Khan, saksóknari ICC, kynnti stöðu og horfur hjá dómstólnum. Aðild að hópnum eiga þrjátíu ríki með skýra stefnu um einarðan stuðning við starf dómstólsins. Að því búnu var Þórdís Kolbrún viðstödd sérstaka umræðu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um Úkraínu. Síðdegis tók hún svo þátt í fundi norrænna þróunarsamvinnuráðherra með Aminu Mohammed, varaframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Þar voru til umræðu áskoranir á sviði mannúðar- og þróunarmála og umbætur á starfi Sameinuðu þjóðanna á þessum sviðum. Í kjölfarið sótti Þórdís Kolbrún svo ráðherrafund í fastanefnd Þýskalands um samvinnu um aðgerðir sem miða að því að draga einstaklinga til ábyrgðar vegna voðaverka í Úkraínu. Um kvöldið hitti hún utanríkisráðherra bandalags- og samstarfsríkja í Evrópu og Norður-Ameríku sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna bauð til. Þar voru stríðið í Úkraínu í brennidepli og ástand og horfur í alþjóðamálum.

Auk þessara funda hefur Þórdís Kolbrún sótt móttökur og aðra viðburði í tengslum við allsherjarþingið. Má þar sérstaklega nefna móttöku sem Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, efndi til í fyrrakvöld í American Museum of Natural History.

Á morgun á Þórdís Kolbrún svo tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum Malaví og Úganda, samstarfsríki Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Annað kvöld flytur svo utanríkisráðherra ávarp fyrir allsherjarþinginu. Reiknað er með að Þórdís Kolbrún stígi í ræðustól um kl. 18:30 að staðartíma og verður ræðan sýnd í beinu vefstreymi á vefsvæði Sameinuðu þjóðanna.

  • Frá fundi Grænhópsins - mynd
  • Þróunarsamvinnuráðherrar Norðurlanda og Amina Mohammed - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum